04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir einni minni háttar breytingu á ný lega settum lögum um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni. Eins og fram kemur í grg. þessa litla frv., urðu nokkur mistök í sambandi við setningu laganna, eða eins og segir nánar í grg. frv., þá urðu þau mistök við gerð uppdrátta, sem sýndu fyrirhugaðar togveiðiheimildir fyrir Norðurlandi, að það gleymdist að taka með í reikninginn þá staðreynd, að með reglugerð nr. 189 1972, um fiskveiðilandhelgi Íslands, voru felldir niður grunnlínupunktarnir Siglunes, Flatey og Lágey. Af þessari ástæðu var uppdráttur á þskj, með ofangreindu frv., sem sýndi togveiði heimildir samkv. því, ekki réttur, miðað við texta 2. gr. A. 1 frv., nú laga nr. 102 1973. Hins vegar var það ætlun fiskveiðilaganefndar, að 12 sjómílna línan, sem getið er í 2. gr. A. 1, yrði sú sama og landhelgislínan var fyrir útfærsluna í 50 sjómílur, eins og sýnt var á uppdrætti í ofangreindu fskj. II. með frv.

Það, sem hér hefur gerst, er, að þær fiskveiðiheimildir, sem ætlað var að veita fyrir Norðurlandi, þ.e.a.s. á litlu svæði bæði fyrir austan og vestan Grímsey, — þær fiskveiðiheimildir, sem veita átti íslenskum skipum, urðu af þessum ástæðum nokkru minni en ætlast var til og við hefur t.d. verið miðað í sambandi við veiðiheimildir breskra togara á þessu svæði. Því þykir nauðsynlegt að breyta þessu á þann hátt, sem til var ætlast, þó að þetta hafi orðið svona við kortagerð og vissan misskilning, sem varð í sambandi við málið.

Hér er um litla breytingu að ræða, sem þyrfti að fá afgreiðslu hið fyrsta. Hér getur ekki verið um neinn efnislegan ágreining að ræða, og ég vil því vænta þess, að hv. sjútvn. sjái sér fært að afgreiða þessa litlu breytingu tiltölulega fljótt, svo að hún megi komast inn í gildandi lög fljótlega. Sé ég ekki ástæðu til að ræða frekar þá breytingu, sem í þessu frv. felst, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.