04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. Ég vil einungis lýsa fylgi mínu við þetta frv. og vonast til þess, að það fái sem skjótasta afgreiðslu á hv. Alþ., eins og hæstv. sjútvrh. bar fram óskir um. Jafnframt víl ég þó lýsa furðu minni, að slík mistök skuli geta átt sér stað eins og þau, sem hér er um að ræða og verið er að leiðrétta með flutningi þessa frv. Það er ekki að undra, þótt sjómönnum sárni það, eftir að hið svokallaða samkomulag við Breta hefur tekið gildi, að þá skuli koma í ljós, að Bretar fá að stunda togveiðar á þessu tiltekna svæði mun nær landi en Íslendingar sjálfir. Ég ætla ekki að rekja gang þeirra mála, er snerta samningana við Breta, en sú saga öll er með þeim hætti, að vel hefði átt að vanda til þess, að slík mistök ættu sér ekki stað sem hér hafa orðið og þannig kveikt í þeim mönnum, sem þetta mál snertir.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ég vænti þess, að frv. þetta fái skjóta afgreiðslu, til þess að bætt verði úr þeim mistökum, sem leitt hafa af sér það ranglæti, sem þarna er um að ræða.