04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram í tilefni af því, sem hér hefur komið fram, að ég er algerlega sammála um, að það þurfi að veita því alveg sérstaka aðgát, að þetta svæði verði varið vel og friðunin fái að vera raunveruleg á þessu svæði, meðan á hrygningartímanum stendur. Ég mun beita mér fyrir því og leggja á það áherslu við Landhelgisgæsluna, að hún geri sérstakar ráðstafanir til þess, að nákvæmlega verði litið eftir þessu svæði. Við vitum, að mikil veiði er stunduð allt í kringum þetta tiltölulega litla svæði og mikil tilhneiging er eðlilega til að notfæra sér það að fara þarna yfir mörkin og inn á svæðið, og var nokkuð undan því kvartað á síðustu vetrarvertíð. En ég hygg þó, að það hafi verið minni háttar, sem þetta var brotið, og hafi verið reynt að standa býsna fast á því af Landhelgisgæslunni að gæta svæðisins. Sem sagt, ég mun gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að reyna að fá því framgengt, að Landhelgisgæslan gæti alveg sérstaklega að þessu viðkvæma svæði þennan stutta tíma.

Það hafði komið fram, eins og kunnugt er, að þetta svæði virtist vera mikið hrygningarsvæði á síðustu vertíð, svo að það virtist hafa verið tiltölulega vel varið svæði, og friðunin hefur ábyggilega náð tilgangi sínum þarna í öllum meginatriðum. Er auðvitað mjög mikilvægt, að svo verði áfram.

Ég hef engu við það að bæta, sem ég sagði hér áður varðandi nótaveiðina fyrir Norðurlandi. Málið er í athugun. En þó að mér sé ljóst, að þarna sé um viðkvæmt mál að ræða hjá þeim, sem þarna eiga beinan hlut að máli, þeim, sem þarna hafa stundað veiðar, þá er líka rétt að hafa það vel í huga, að hér er um tiltölulega grófa veiði að ræða með stórtæku veiðarfæri, sem veiðir bæði stórt og stillt og alveg upp í fjöru svo að segja, og árangur margra báta með þetta veiðarfæri á litlu svæði hefur verið geysilega mikill. Umkvartanir margra annarra sjómanna hefur verið meiri út af þessum veiðum en nokkrum öðrum veiðum, svo að hér er nokkur vandi á höndum. Hins vegar skal játað, að hér er ekki um mjög mikla veiði að ræða. Hér er ekki um neitt verulega afkastamikla báta að ræða. Og það verður kannske að reyna að sigla þarna bil beggja og gefa mönnum einhvern kost á því að geta stundað þessar veiðar áfram, sérstaklega ef hægt væri að koma þarna við eitthvað frekari aðgát en verið hefur með þessum veiðum.