05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

235. mál, Norðurlandsáætlun í samgöngumálum

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 399 að leggja eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. forsrh::

„1. Hvað líður gerð Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum?

2. Má búast við, að vegaþáttur áætlunarinnar verði tilbúinn fyrir árið 1974 og 1975, þegar Alþ. fær almenna vegáætlun til meðferðar á næstunni?

3. Hvað hefur tafið gerð Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum?“

Samgönguáætlun Norðurlands hefur verið formlega í undirbúningi hjá ríkisstofnunum frá vorinu 1971, en fyrr hafði áætlunargerðin verið undirbúin frá hálfu heimamanna á vegum Fjórðungssambands Norðlendinga. Áætlanagerðin á því þriggja ára afmæli í ríkiskerfinu á þessu vori, fyrst í Efnahagsstofnuninni og síðar Framkvæmdastofnun ríkisins. Samt sem áður er það svo, að enn hefur samgönguáætlun Norðurlands ekki séð dagsins ljós í heild. Hlutar áætlunarinnar hafa verið gerðir fyrir hvort ár í senn, 1972 og 1973, en þessir þættir hafa verið skornir við nögl og ekki komið fram fyrr en allt of seint til þess að koma að tilætluðu gagni. Sem dæmi má taka, að fundur var með alþm. Norðlendinga um áætlunina fyrir árið 1973 seint í maí á því ári. Geta má því nærri, hve aðstaða var slæm hjá Vegagerð ríkisins til þess að undirbúa verk, þegar þannig er að ákvörðunum staðið af hálfu ríkisvaldsins. Með slíkum vinnubrögðum er útilokað að nýta helstu kosti áætlunargerðar, sem eru auðvitað heildaryfirsýn yfir einstök verkefni um nokkurra ára skeið og stefnumótun að fjáröflun til þeirra.

Snemma á s.l. hausti flutti ég ásamt fleiri þm. sjálfsfæðismanna á Norðurlandi till. til þál. um að hraða þessari áætlunargerð, ekki síst vegna þess, að nú á næstunni stendur fyrir dyrum endurskoðun almennrar vegáætlunar. Ég gerði mér vonir um, að sú till, mundi ýta á hæstv. ríkisstj, í þessu efni og að hún mundi fela Framkvæmdastofnuninni að hraða áætlunargerðinni, þó að ekki væri nema vegna þess, að útilokað er að taka með nokkurri skynsemi á endurskoðun almennrar vegáætlunar, að því er varðar Norðurland, nema a.m.k. vegaþáttur Norðurlandsáætlunar sé ákveðinn fyrir árin 1974 og 1975 a.m.k. því miður hefur sú ekki orðið raunin á og ekki bólar enn á fullnaðargerð samgönguáætlunar fyrir Norðurland næstu ár, þótt vitað sé, að endurskoðun vegáætlunar sé á næsta leiti.

Tilgangur minn með því að bera fram þessar fsp., sem ég hef lagt hér fyrir hæstv. forsrh., er að vekja enn athygli á þessu máli og þessum fráleitu vinnubrögðum, sem ég vil kalla, og fá svör við því, hverju þetta sæti. Ég hef áður gert grein fyrir því, hvernig hringlað hefur verið með einstaka verkþætti áætlunarinnar fram á síðustu stundu og hvernig farið hefur um vilja Alþingis um fjárframlög, og ætla ekki að endurtaka það hér, en vænti þess að fá upplýsingar um það, sem ég hef spurt hér um, frá hæstv. forsrh.