05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

235. mál, Norðurlandsáætlun í samgöngumálum

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, að svo miklu leyti sem þau voru afdráttarlaus svör við spurningum mínum. Það kom fram eða ég skildi hæstv. ráðh. svo, að það, sem nú stæði á í sambandi við gerð Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum, væru ýmsar grundvallarákvarðanir, sem taka þyrfti af hálfu hæstv. ríkisstj.. það skorti á, að þessar ákvarðanir lægju fyrir, m.a. um það, hversu mikið fjármagn yrði til ráðstöfunar á hverju ári í þessu efni. Nú er það svo, að í vegáætlun, sem afgreidd var fyrir rúmum tveimur árum hér á hv. Alþ., var gert ráð fyrir ákveðnum fjárhæðum til að framkvæma samgönguáætlun Norðurlands í vegamálum á árunum 1974 og 1975 — og raunar líka 1972 og 1973, þannig að það er spurning, hvort eigi að endurskoða þessar fjárhæðir, og þá á ég að sjálfsögðu við það, hvort eigi að endurskoða þær til lækkunar frá því, sem vera mundi, ef fylgt væri verðlagsbreytingum. Ég vil láta í ljós ugg minn yfir því, ef það er hugmynd hæstv. ríkisstj. að draga þannig úr áformum um samgöngubætur á Norðurlandi. Ég fæ ekki séð, að það geti verið annað, sem tefur þessa áætlunargerð, en það vanti að taka ákvarðanir af hálfu hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún ætlar að leggja mikið fé fram í þessum efnum eða telur, að hægt sé að leggja fram í þessum efnum.

Það er glöggt, að þessi áætlunargerð hefur tafist úr hófi fram. Á s.l. vori var, eins og ég vék að í ræðu minni áðan, áætlunin fyrir 1973 ekki til fyrr en í maílok. Á þeim tíma fjölluðu þm. um áætlunina, eftir að Alþ. var lokið, og fengu þá skýrslu frá Framkvæmdastofnun ríkisins. Fyrsta setningin í þessari skýrslu, sem er dags. 11. maí 1973, hljóðar þannig, með leyfi forseta: „Undirbúningur að samgönguáætlun Norðurlands er kominn á lokastig.“ Áætlunargerðin var sem sagt komin á lokastig í maí 1973, en þó getur hæstv. forsrh. ekki annað en sett fram frómar vonir og óskir um, að okkur gefist kostur á því að sjá þessa áætlunargerð, áður en almenn vegáætlun kemur til afgreiðslu. Ég vil mjög átelja þessi vinnubrögð. En ég vil taka undir óskir hæstv. forsrh. um, að við fáum þó þrátt fyrir allt að sjá þá áætlunargerð, áður en almenn vegáætlun verður afgreidd, vegna þess að það er útilokað að vinna að almennri vegáætlun, ef við höfum enga hugmynd um, hvað eigi að felast í Norðurlandsáætlun í vegamálum.