05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Svar það, sem ég les hér, er frá Framkvæmdastofnuninni, nánar tiltekið lánadeild. Upplýsingar um lánveitingar Byggðasjóðs 1972 er að finna í ársskýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þar eru lánin sundurliðuð eftir tegundum og landshlutum, og auk þess birtist þar ítarleg skrá yfir einstakar lánveitingar með nafni hvers lántakanda, tilgangi lánsins og fjárhæð þess.

Árið 1972 voru veitt 432 lán og styrkir úr Byggðasjóði að fjárhæð samtals 480 millj. 400 þús. kr. Um sundurliðun og flokkun lána þessara vísast til ársskýrslu Framkvæmdastofnunarinnar, en henni var útbýtt til allra alþm. á s.l. vori, og eru í þessari skýrslu sérstakar upplýsingar um lánveitingarnar úr Byggðasjóði á bls. 55 og bls. 86–98, og les ég þær ekki hér.

Árið 1973 veitti Byggðasjóður 339 lán og styrki að fjárhæð samtals 357 mill,j. 300 þús. kr. Þau lán skiptast þannig eftir framkvæmdum:

1. Nýsmíði fiskiskipa, 5% lán, bátar 24 millj. 400 þús., skuttogarar 6 millj. 900 þús., eða samtals í nýsmíði fiskiskipa, 5% lán; 31 millj. 300 þús.

2. Nýsmíði fiskiskipa, 10% lán, bátar 21 millj. 100 þús. og samtals 21.1 millj.

3. Kaup á notuðum fiskiskipum, bátar 19.7 millj., skuttogarar 41.7 millj., eða samtals 61 millj. 400 þús. kr.

4. Endurbætur fiskiskipa 9.8 millj.

5. Fiskiskip, sérstök fyrirgreiðsla, bátar 2 millj., skuttogarar 7 millj., eða samtals 9 millj.

6. Fiskvinnsla 71.9 millj.

7. Niðursuða 4 millj.

8. Fiskimjölsverksmiður 3.4 millj.

9. Framleiðsluiðnaður 48.3 millj.

10. Þjónustuiðnaður 23.9 millj.

11. Sveitarfélög 41.5 millj.

12. Vaxtastyrkir vegna raflínulagna á sveitabýli 700 þús.

13. Annað ósundurliðað 34.9 millj., eða samtals, eins og áður er sagt, 357 millj. 300 þús. kr. Skrá yfir skiptingu lána þessara eftir landshlutum og listi yfir einstakar lánveitingar mun birtast í ársskýrslu Framkvæmdastofnunarinnar fyrir árið 1973, en skýrsla sú er nú í prentun og verður tilbúin innan skamms. Sé ég ekki ástæðu til að fara að lesa þær skrár hér, enda yrði það of langt mál.

Um reglur þær, er gilda um úthlutun lána úr Byggðasjóði, vísast fyrst og fremst til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, nr. 93 1971. Þar segir í 29. gr. um hlutverk Byggðasjóðs:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 8. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Þá eru í gildi sérstakar reglur um lánveitingar Byggðasjóðs til fiskiskipa, sem stjórn Framkvæmdastofnunarinnar samþykkti 27. mars 1973, en þær eru þessar:

1. Heimilt er að veita lán vegna fiskiskipa á svæðinu frá Akranesi vestur, norður og austur um land til Þorlákshafnar, að báðum stöðum meðtöldum, svo og í Vestmannaeyjum. Heimilt er þó að víkja frá þessu ákvæði, verði um alvarlegt atvinnuleysi að ræða.

2. Á umræddu svæði skulu umsóknir metnar til lánshæfni og lánsupphæðar með tilliti til þess, að stuðla þurfi að atvinnuöryggi og jafnvægi í byggð landsins eða framkvæmd landshlutaáætlana, er gerðar kunna að verða.

3. Hámark lána, er veitt kunna að verða í samræmi við 2. lið, skal vera 5% af kaupverði notaðs skips og 15% af virðisaukningu vegna endurbóta skips samkv. mati Fiskveiðasjóðs Íslands. Þó skal ekki veitt hærri fjárhæð til endurbóta en 500 þús. kr., nema sérstaklega standi á að dómi sjóðsstjórnar.

4. Heimild til að veita sérstök byggðalán á framangreindu svæði vegna nýsmíði fiskiskipa umfram almenn lán til nýsmíði fiskiskipa, sem í gildi eru á hverjum tíma. Hámark þessara sérstöku byggðalána skal vera 5% af kostnaðarverði skips, skv. mati Fiskveiðasjóðs. Lán þessi skulu háð því skilyrði, að lánsupphæð falli öll í eindaga, ef skipið er selt eða útgerð þess hætt úr því byggðalagi, sem það var upphaflega smíðað fyrir. Ef skipið er selt á annan útgerðarstað á framangreindu svæði, getur sjóðsstjórn þó ákveðið, að framangreint lán fylgi skipinu.

5. Lánveiting vegna skipakaupa er bundin því skilyrði, að seljandi kaupi skip í stað þess, sem selt er. Þó er heimilt að víkja frá þessu ákvæði í sérstökum tilvikum.

6. Heimilt er að veita sama eiganda fjárhagsaðstoð til þess að halda skipi sínu, ef sjóðsstjórn telur útgerðina ekki betur komna í höndum annars aðila á staðnum.

7. Hvíli lán frá Byggðasjóði eða Atvinnujöfnunarsjóði á skipi, sem lánað er til. lækkar veitt lán sem því nemur, að undanskildum endurbótalánum.

Af öðrum reglum, sem stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hefur sett um lán úr Byggðasjóði, má nefna reglur um lán til kaupa á vinnuvélum, en þær eru þessar:

Um lán úr Byggðasjóði til kaupa á nýjum vinnuvélum gildir sú regla, að lánið fari ekki fram úr 30% af kaupverði vélanna. Það skal vera skilyrði, að öflun viðkomandi vélar stuðli að aukinni og bættri þjónustu við íbúa sveitarfélags á þeim sviðum, sem sveitarfélaginu her að veita þjónustu. Slík lán skulu veitt sveitarfélagi eða verktaka, ef sveitarfélagið hefur ekki sjálft með höndum þá þjónustu, sem vélinni er ætlað að veita. Umsögn sveitarstjórnar um verkefni vinnuvélar skal liggja fyrir, áður en lán er veitt. Í þeirri umsögn skal sveitarstjórn láta koma í ljós mat sitt á því, hvort umbeðin vinnuvél rýri verkefni annarra verktaka og vinnuvéla, sem fyrir eru á svæðinu og hafa áður þjónað því.

Ekki er um aðrar einsakar lánareglur að ræða hjá Byggðasjóði. Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hefur sett framangreindar lánareglur, sem viðmiðunarreglur til að auðvelda afgreiðslu þessara lánaflokka. Reglum þessum getur stjórn Framkvæmdastofnunarinnar breytt, hvenær sem ástæða þykir til. Raunar er ekki talið æskilegt, að Byggðasjóður byggi um of á sjálfvirkum lánareglum, eins og sumir aðrir stofnlánasjóðir. Lán Byggðasjóðs miðast fyrst og fremst við að sinna þörfum, sem ekki verða leystar af öðrum stofnlánasjóðum. Lán Byggðasjóðs eiga ekki að koma í stað lánveitinga annarra stofnlánasjóða, heldur koma þeir til viðbótar slíkum lánum, þegar brýn þörf er fyrir viðbótarfjármagn. Er slík fyrirgreiðsla bundin við þá staði, sem sérstaklega þarfnast aukinnar atvinnustarfsemi og bættra lífsskilyrða. Það eru því fyrst og fremst slík byggðasjónarmið, sem gilda um lánveitingar Byggðasjóðs.