05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Af þeim kemur fram, að það á sér stað mismunun í lánveitingum eftir landshlutum hjá Byggðasjóði, og í þessum svörum hæstv. ráðh. finnst mér að felist staðfesting á því, að atvinnurekstur í Reykjaneskjördæmi hefur orðið afskiptur um fyrirgreiðslu frá þessum sjóði varðandi lánveitingar, t.d. til fiskiskipakaupa. Eins og ég sagði áðan, vil ég undirstrika það, að í þessu felst óréttlæti að mínum dómi, sem er óviðunandi með öllu. Það eru ekki fullnægjandi rök fyrir þeirri stefnu, sem haldið hefur verið uppi í þessum málum af hálfu stjórnar Byggðasjóðs, að halda því fram, að hlutverk Byggðasjóðs sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og af þeim ástæðum sé ekki hægt að greiða fyrir íbúum Reykjaneskjördæmis með lánveitingum til skipakaupa. Það vita allir, eins og ég tók fram hér áðan, að þótt skip sé skrásett á einum stað, er það oft gert út frá öðrum og leggur þar upp afla sinn. Hins vegar er það út af fyrir sig ekki mælikvarði á það, sem hér er um að ræða. Svo er hitt, sem er mjög alvarlegt mál, að endurnýjun skipaflota Reyknesinga verður á eftir, miðað við ýmsa aðra landshluta, ef þessari stefnu verður haldið fram, sem stjórn Byggðasjóðs hefur mótað sér í þessum málum. Ég óska eindregið eftir því, að hæstv. forsrh. beiti áhrifum sínum við stjórn sjóðsins um það, að hún breyti stefnu sinni í þessum málum hvað snertir Reykjaneskjördæmi.