05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hélt satt að segja, að öllum hv. þm. væri kunnugt um það, að lán úr Byggðasjóði eru ekki almenn stofnlán, heldur er þar um að ræða viðbótarlán, sem hafa verið hugsuð til þess að vega upp á móti þeim þunga straumi fólks og fjármagns, sem sótt hefur inn á Faxaflóasvæðið og þá alveg sérstaklega höfuðborgarsvæðið. Stofnlánasjóðirnir lána yfirleitt frá 50 og upp í 75%. Reyndar hefur varðandi fiskiskip verið veitt enn meiri opinber fyrirgreiðsla, allt upp í 80%, og að því leyti hafa allir setið við sama borð. Síðan hefur Byggðasjóður komið með sérstök viðbótarlán, sem hafa átt að hvetja menn til að setja upp fyrirtæki eða hefja útgerð í hinum fjarlægari byggðum. Ég held, að þegar lögin um Byggðasjóð voru sett, hafi ekki verið nokkur maður, sem ímyndaði sér, að hann yrði almennur stofnlánasjóður, sem lánaði jafnt til allra landshluta eftir sjálfvirkum lánareglum. Þá væri engin þörf á því að setja upp sjóð af því tagi.

Ég vil taka fram, að það var að vísu svo árið 1972, að þá gilti þessi regla ekki um fiskiskip, þ.e.a.s. þá var lánað til fiskiskipa á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. En þá fór líka svo, að fjármagn, sem veitt var úr Byggðasjóði til Reykjaneskjördæmis, var litlu minna en það, sem veitt var til annarra landshluta, eins og t.d. Suðurlands eða Norðurl. v. Var ljóst, að sjálf'virku fiskiskipalánin gleyptu allt of stóran hluta af því fjármagni, sem tiltækt var, þannig að óhjákvæmilegt var að afnema þessar sjálfvirku lánareglur með öllu, líka varðandi fiskiskip. Af því leiddi, að lán inn á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðið voru ekki veitt eftir það.