05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það var greinilegt í ræðu hv. fyrirspyrjanda, að hann er fyrst og fremst sár út af því, að Reykjaneskjördæmi hefur orðið afskipt að hans áliti um lánveitingar ár Byggðasjóði. En ég vil minna á það, sem hann gerði raunar sjálfur í sinni ræðu, að hlutverk Byggðasjóðs er fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Stjórn Byggðasjóðs, þar sem ég á sæti, hefur verið nokkuð einhuga um að útiloka, — ef ég má nota það orð, — að útiloka Reykjaneskjördæmi og Reykjavíkursvæðið. Það hefur verið einskonar meginstefna í framkvæmd lána á vegum stjórnar Byggðasjóðs. Stjórn Byggðasjóðs hefur þann skilning, að það mundi ekki ná tilgangi laganna og ekki markmiði sjóðsins að fara að lána á aðalþenslusvæði landsins. Þvert á móti mundi stjórninni þykja undarlegt, ef sú krafa yrði gerð til hennar, og ég segi fyrir míg, að mér þætti það undarlegt, ef það fengist meiri hluti fyrir því í stjórn Byggðasjóðs. Ég held, að það sé engin ástæða til að lá stjórninni þetta, því að það er áreiðanlega réttur skilningur. Það er ekki ætlast til þess, að Byggðasjóður láni til þessara svæða, vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem hér eru, miðað við landsbyggðina almennt. Því miður er nú ekki tími til að ræða þetta meira, en ég vil taka fram í sambandi við það, sem hér hefur komið fram af hálfu fyrirspyrjanda, að hann er fyrst og fremst sár, en færir ákaflega lítil rök fyrir máli sínu.