31.10.1973
Neðri deild: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal verða við ósk um það að verða ekki langorður og tefja ekki fyrir því máli, sem hér er á eftir. En mig langar aðeins að segja nokkur orð, sérstaklega í tilefni af því, sem hv. 8. landsk. sagði hér áðan.

Hann kom upp í pontuna og virtist ætla að tala eins og sá, sem valdið hefði. Ég býst við, að ýmsum, sem hlustuðu á ræðu hans, hafi dottið í hug, hvort hann væri að koma í stað hv. 3. landsk. þm. og styðja hæstv. ríkisstj. Reynslan sker úr um það. Sumir segja, að hv. þm. langi jafnvel í skiprúmið, þótt aðrir hv. flokksmenn hans hafi ekki augastað á því.

Hv. þm. ætti ekki að tala í þessum tón, sem hann gerði í sambandi við Framkvæmdastofnunina. Ég heyrði ekki vel, hvað hann sagði, en ég held, að hann hafi getið um, að hann væri í stjórn stofnunarinnar. Einhver var að hvísla því áðan, að hann hefði gaman af því að vera í stjórn stofnunarinnar. Það var einnig verið að spyrja að því, hvaða stjórnum hv. þm. hefði verið í eða hvaða stjórnunarhæfileika hv. þm. hefði. Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi afrekað þar mikið.

Hv. þm. sagði, að þeir sjálfstæðismenn, sem væru í stjórn Framkvæmdastofnunar, væru ekki inni, þeir vildu ekki taka þátt í þessum umr., sennilega þá af því, að þeir væru svo ánægðir með stofnunina. Þetta reyndist ekki rétt. Við hlustuðum á annan þessara manna, sem eru í stjórn stofnunarinnar af hálfu Sjálfstfl., og hann hafði þar tækifæri til þess að lýsa ánægju sinni, sem hann þó gerði ekki. En hann gerði alveg rökrétta grein fyrir eðlilegri afstöðu sjálfstæðismanna í þessari 7 manna stjórn. Ég held, að allir hv. þm., hvort sem þeir eru í stjórn þessarar stofnunar eða ekki, reyni að gera sér grein fyrir gildi hennar, göllum hennar og fyrir kostum. Ég held, að margir hv. þm. geri sér grein fyrir því, að það, sem eftir verður af Framkvæmdastofnuninni, sé allt of dýrt fyrir þjóðina, miðað við þau verk, sem hún vinnur í því formi, sem hún er í. Þess vegna hlýtur að verða athugað í sambandi við þetta frv., hvort ekki beri að stíga sporið lengra og gera ráðstafanir til þess að fá vinnubrögð við áætlanagerð, lánveitingar og framkvæmd byggðastefnu, sem bera árangur. Það er of mikið að borga 65 millj. kr. á árinu 1974 fyrir rekstur þess, sem eftir verður af Framkvæmdastofnuninni, þegar hagrannsóknadeildin er frá tekin. Hv. 8. landsk. þm. finnst það ekki vera. Hann er ánægður. Og hann er reyndar eini hv. þm., sem hefur látið í það skína, að hann væri hæstánægður með stofnunina. Hæstv. forsrh. lýsti því hér áðan, að það gæti vel verið, að að því kæmi, að það mætti breyta þar miklu til batnaðar, kannske leggja hana niður, kannske tekur það 2 ár fyrir hæstv. forsrh. og ýmsa aðra hv. þm. að komast á þá skoðun. En það er sýnilegt, að hæstv. ríkisstj, er á þeirri leið að leiðrétta sig frá því, sem hún hugsaði og stefndi að, þegar lög voru sett um Framkvæmdastofnunina í því formi, sem þau nú eru.

Það er barnalegt hjá hv. 8. landsk. þm. að tala um það, að þeir, sem vilji leggja Framkvæmdastofnunina niður, vilji í rauninni leggja alla byggðastefnu á hilluna og áætlanagerð um byggðaþróun. Við getum viðurkennt, að nafnið Byggðasjóður sé yfirgripsmeira og láti meira yfir sér en Atvinnujöfnunarsjóður. En Atvinnujöfnunarsjóður hafði nákvæmlega sama verkefni og gerði jafnmikið gagn og Byggðasjóður. Það þurfti ekki að breyta um nafn til þess að ná þeim tilgangi, sem Byggðasjóði var ætlað, þegar hann var stofnaður. Geta sjóðsins fer vitanlega eftir því, hversu fjármagnið er mikið, sem honum er fengið í hendur.

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja meira í þessu máli, en ég vil leggja áherzlu á, að þetta mál verði skoðað betur, að frv., sem hér er um að ræða, verði endurnýjað og við það aukið. Ég er sannfærður um það, þótt hv. 8. landsk. þm. væri svo seinheppinn hér áðan að nota óheppilegt orðalag, sem hann viðhafði um Framkvæmdastofnunina og ágæti hennar, að hann er reiðubúinn að endurskoða hug sinn um þetta og gera sér grein fyrir því, sem aflaga fer og endurbóta þarfnast. Hv. þm. talaði um, að Sjálfstfl. hefði alltaf verið tilbúinn að leggja í kostnað, koma á dýrum stofnunum og nefndum í þann rúman áratug, sem hann var í stjórn samfleytt. Sjálfstfl. var þá í stjórn með Alþfl.ríkisstj. hafði það á stefnuskrá sinni að fá verðmæti fyrir þá fjármuni, sem eytt var úr ríkissjóði. Það var unnið að áætlanagerð þá, og þáv. hæstv. viðskrh. var talsmaður áætlanagerðar. En sú áætlanagerð og þær stofnanir, sem unnu þá að áætlanagerð í árangursríkara mæli en nú, kostuðu 20.9 millj. á árinu 1971, en koma til með að kosta allt að 80 millj. á árinu 1974. Þetta vitnar um, að öðruvísi er á málunum haldið nú en var hjá fyrrv. ríkisstj. Það er ekki hugsað um það nú að gæta hagsýni eða fá verðmæti fyrir þá fjármuni, sem teknir eru úr ríkissjóði, eins og áður var gert.