05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held, að ég megi til með að nota þær 2 mín., sem mér eru skammtaðar hér, til að vekja athygli á þeim ummælum, sem tveir hv. stjórnendur Byggðasjóðs hafa hér viðhaft og hinn síðari orðaði bókstaflega þannig, að meginstefna stjórnar Byggðasjóðs sé að útiloka tvö kjördæmi frá því að njóta nokkurs úr þessum sjóði, þ.e.a.s. Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Ég vil lýsa því yfir, að ég tel, að sú regla, sem Byggðasjóður hefur sett um viðbótarlán til skipakaupa og útilokar gjörsamlega tvö kjördæmi frá því að njóta slíks, hvernig sem ástatt er í hinum einstöku byggðarlögum þeirra kjördæma, — eða Reykjaneskjördæmis, Reykjavík er kannske út af fyrir sig nokkuð, hún er að mínu viti fráleit. Ég var að efast um, hvort ég ætti heldur að nota orðið fráleit eða fáránleg, en til þess að það fari ekki á milli mála, hvað ég meina, vil ég nota bæði orðin.