05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

248. mál, brúargerð yfir Álftafjörð

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 431 hef ég leyft mér að flytja Esp. til hæstv. samgrh, um brúargerð yfir Álftafjörð á Snæfellsnesi. Á árinu 1968 flutti ég till. til þál. um þetta efni, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að Vegagerð ríkisins láti rannsaka aðstöðu til brúarbyggingar yfir Álftafjörð á Snæfellsnesi og geri kostnaðaráætlun um framkvæmd verksins, ef hagkvæmt þykir.“

Þessi till. varð ekki útrædd á því þingi. Ég leyfi mér að minna á örfá atriði í grg. þessarar till. Þar segir m.a.:

„Vegabætur í Álftafirði eru nauðsynlegar af mörgum ástæðum. Leiðin er fjölfarin. Hún er verslunar- og viðskiptaleið Skógstrendinga til Stykkishólms. Þar er haldið uppi áætlunarferðum milli Dala og Snæfellsness. Mjólkurflutningar eru tíðir á þessari leið vegna samvinnu mjólkursamlaganna í Búðardal og Grundarfirði, einnig aðrir vöruflutningar, sérstaklega ef Hvammsfjörður er ísi lagður, eins og fyrir getur komið á köldum vetri. Þá er og brýn nauðsyn til þess, að umrædd leið sé vel fær og örugg, þegar að kalla sjúkraflutningar til sjúkrahússins í Stykkishólmi. Enn fremur má benda á, að vegabætur í Álftafirði eru forsenda þess, að Heydalsvegur geti komið byggðarlögum sunnan Breiðafjarðar að verulegum notum. Loks má nefna það í leiðinni, að við umrædda framkvæmd gæti skapast ákjósanleg aðstaða til fiskiræktar í Álftafirði, en það er önnur saga.“

Loks er á það bent, að vegabætur í Álftafirði, Heydal og á Laxárdalsheiði séu í raun og veru „greinar á sama meiði, sem miða að því að stórbæta samgöngukerfið á þessum slóðum. En að því er varðar Álftafjörð sérstaklega þarf að kanna hið fyrsta, hvort hentara er að velja leiðina yfir fjörðinn eða fyrir hann.“

Öll þessi rök eru í fullu gildi enn í dag. Heydalsvegur var, svo sem kunnugt er, opnaður til umferðar haustið 1971. Hann var tekinn í þjóðvegatölu árið 1944, svo að segja má, að þessi ágæti fjallvegur, sem reynst hefur vel undanfarna vetur, hafi verið æðilengi á leiðinni. Samkv. vegáætlun, sem byggð er á vegalögum, telst Snæfellsnesvegur af Vestfjarðavegi við Stóraskóg um Hörðudal, Skógarströnd, Helgafellssveit og Grundarfjörð á Ólafsvíkurveg við Fróðá. Segja má, að þessi leið sé nú öll orðin nokkurn veginn greiðfær. En þó er einn mikill og erfiður þröskuldur á þessari leið, en það er einmitt Álftafjörður. Þetta hefur verið viðurkennt með því, að á vegáætlun 1972 og 1973 hefur verið varið nokkurri fjárhæð til þess að rannsaka þetta mál. Voru 200 þús. kr. veittar í þessu skyni árið 1972 og 300 þús. árið 1973. Enn mun þurfa meiri rannsóknir að gera, áður en ákvarðað er, hvor leiðin verður valin. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja nú hæstv. samgrh.: „Hvað líður athugun á vega- og brúargerð yfir Álftafjörð á Snæfellsnesi?“