05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

248. mál, brúargerð yfir Álftafjörð

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti, Ég hef leitað upplýsinga hjá Vegagerð ríkisins varðandi þessa fsp. og byggi svar mitt á þeim upplýsingum, sem ég hef fengið þaðan.

Í vegáætlun 1972 og 1973 voru samtals veittar 0.5 millj. kr. til rannsókna á framtíðarvegarstæði fyrir eða yfir Álftafjörð. Unnið hefur verið að þessum athugunum undanfarin tvö ár, og hafa þær beinast að því að bera saman kostnað við veglínu inn fyrir fjörðinn annars vegar og leið yfir fjörðinn milli Birgishöfða og Krákuness hins vegar. Leiðin yfir fjörðinn verður 5.8 km styttri en leiðin inn fyrir fjörðinn. Mæld hefur verið veglína að mestu inn fyrir fjörðinn og svæðið milli Birgishöfða og Krákuness kortlagt. Gerðar hafa verið jarðvegsathuganir í firðinum og borað niður á 20 m dýpi, án þess að fastur botn fyndist, og einnig tekið sýnishorn af efstu jarðlögum í firðinum, sem reyndust vera mjög lífræn. Þá hafa verið gerðar athuganir á sjávarföllum í Álftafirði og umferð talin á þessari leið sumarið 1972 og sumarið 1973. Reyndist meðalumferð yfir sumarmánuðina 1973 vera 75 bifreiðar á dag, og var áætlað, að ársumferðin væri um 60% af sumarumferðinni, þ.e.a.s. um 45 bifreiðar á dag.

Gerður hefur verið lauslegur samanburður á kostnaði við veginn fyrir fjörðinn og yfir fjörðinn á grundvelli þeirra athugana, sem þegar hafa verið gerðar. Benda þessar frumáætlanir til þess, enda þótt vegagerð yfir fjörðinn verði örugglega til muna dýrari en inn fyrir fjörðinn, geti samt verið um hagkvæma fjárfestingu að ræða, miðað við þær umferðartölur, sem mælst hafa á s.l. ári, og eru þá lagðar til grundvallar reikningsreglur Alþjóðabankans um mat á hagnaði umferðarinnar af styttingu vegarins. Þessi frumáætlun byggist á ákveðnum forsendum um sig á vegfyllingu yfir fjörðinn. Til þess að fá úr því skorið, hvort þær forsendur eru réttar, þarf að gera mun umfangsmeiri jarðvegskannanir í firðinum en gerðar hafa verið til þessa, þar sem sig vegfyllingar ræður úrslitum um hagkvæmni verksins. Til þess að fá tæmandi upplýsingar um þetta þarf að kanna dýpt hinna lausn setlaga í firðinum með skjálftamælingum og einnig jafnvægisástand hinna mismunandi jarðlaga, en til þess þarf að taka sýnishorn af jarðlögum og gera einhverjar kannanir á rannsóknarstofum. Jafnframt þyrfti að gera líffræðilegar rannsóknir í firðinum í samvinnu við Náttúruverndarráð, veðurathuganir og frekari dýptarmælingar til þess að fá upplýsingar um hæstu væntanlegu ölduhæð, sem er ákvarðandi um hæð vegarins yfir sjó. Einnig þyrfti að athuga sérstaklega, hvort með vegagerð yfir fjörðinn skapist skilyrði til fiskræktar innan við væntanlega uppfyllingu, en landeigendur í firðinum munu hafa sýnt verulegan áhuga á því máli. Gera má ráð fyrir, að þær athuganir, sem eftir er að gera, mundu kosta um 2 millj. kr. og taka a.m.k. eitt ár.