05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

197. mál, sjóvinnubúðir fyrir unglinga í Flatey á Skjálfanda

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Flatey á Skjálfanda liggur á norðan- og norðvestanverðum Skjálfandaflóa. Hún er um 2.5 km. frá landi, þar sem heitir Flateyjardalur, en það er raunar strandlengjan frá norðaustanverðum skaganum á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Upp frá þeirri strönd gengur dalur, sem fer fyrst hækkandi til landsins og lækkar síðan aftur og gengur niður í Fnjóskadal. Sá dalur er reyndar nefndur Flateyjardalsheiði. Upphaflega var eyjan, dalurinn og heiðin, sem öll voru þá byggð, einn hreppur með Fnjóskadalnum, og hét hann Hálshreppur. Hálshreppi var skipt 1907, og Flatey og Flateyjardalur mynduðu Flateyjarhrepp.

Flatey er talin 262 ha. að stærð op er um 2.5 km á lengd og 2 km á breidd. Öll er eyjan lág úr sjó og rís hæst um 22 m. Hún er nú nær öll grasi gróin, og þar eru um 45 ha. tún. Flateyjar er snemma getið í heimildum. Um 1200 er þess getið, að þangað sé sótt skreið. Eyjan hefur alla tíð þótt eftirsótt verstöð. Upphaflega var Flatey ein jörð og var þá 60 hundruð að fornu mati. Síðan fjölgaði býlum þar, og urðu þau flest 13 að tölu, en auk þess tvær þurrabúðir. Flestir urðu eyjabúar um 120 að tölu. Það var skömmu eftir 1940. Íbúðarhús urðu flest 17 og þar af 10 steinhús. Vélbátaútgerð hófst í Flatey 1907, og 1919 var þar stofnað Fisksamlag Flateyinga. Byggðin var öll á sunnanverðri eynni, og var þar góð lending, og síðan var þar gerð bryggja. Árið 1968 var svo gerð höfn í Flatey, og þykir það góð framkvæmd, þó að svo tækist til, að það ár legðist niður föst búseta í eyjunni. Íbúarnir, sem þá voru eftir, fluttust nær allir til Húsavíkur, en höfnin hefur verið notuð og er lífhöfn fyrir báta, sem lenda í vondum veðrum út af Eyjafirði eða vestarlega á Skjálfandaflóa. Allt að 150 tonna bátar gátu lagst að bryggju í Flatey.

Þótt Flatey þætti forðum heldur rýr að venjulegum landkostum, var sjávargagn og hlunnindi þar ríkulegt. Þar var eggver, selveiði og hrognkelsi og eins og fyrr segir útræði hið besta. Sjávargagnið var á öllum öldum meginbústoðin, þó að þar væri ræktað verulega, og þar var flest um 1000 fjár, sem flutt var til afréttar á Flateyjardal, og kýr höfðu Flateyingar fyrir sig. Á blómatíma Flateyjar, eftir að vélbátaútvegur hófst og efldist og fram undir 1960, var þar mikilla verðmæta aflað á sjó, og oft var þar aðkomufólk í fiskverkunarvinnu á sumrin.

Eftir að síðasti hópurinn fluttist til Húsavikur 1968, hafa Flateyingar og raunar einnig aðkomubátar frá Eyjafjarðarhöfnum stundað hrognkelsaveiðar í Flatey og haft þar viðlegu. Í Flatey eru allir möguleikar fyrir hendi til smábátaútgerðar og handfæraveiða. Þar er góð höfn, eins og fyrr getur, fiskverkunarhús og íbúðarhús, sem vel mætti gera með litlum eða kannske nær engum tilkostnaði hæf til sumarbúsetu. Þar var sameiginleg raflýsing, þar var útibú Kaupfélags Þingeyinga, og standa hús þessi öll enn.

Hér hef ég að nokkru lýst aðstæðum, og kem ég þá að því að skýra og rökstyðja tilgang þeirrar þáltill., á þskj. 347, sem ég ásamt 1. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni, hef leyft mér að flytja.

Tilgangur till. er tvíþættur: Í fyrsta lagi að nýta og koma í veg fyrir, að eyðist og spillist verðmæti í mannvirkjum og náttúrufari, sem eru í eynni, og í öðru lagi og með sömu aðgerðum að stuðla að þjóðhollri starfsemi, sem væri rekstur sjóvinnubúða fyrir unglinga, — starfsemi, sem væri þroskavænleg fyrir unglinga, sem hennar nytu, en með henni yrði jafnframt stuðlað að kynningu og tengslum unglinganna við einn mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar. Með þeirri kynningu og þeim tengslum ykist skilningur unga fólksins á mikilvægi framleiðslugreinanna og líkur ykjust til þess, að dugmiklir unglingar kæmu síðar sem fullvaxta fólk til starfa við atvinnuveginn.

Um fyrra atriðið, þ.e. verndun verðmæta í Flatey, er það að segja til viðbótar því, sem ég hef að framan rakið, að það er augljóst, að þar sem byggð hefur verið í hartnær ellefu aldir, er mönnum eftirsjón í því, að nær allt leggist í auðn. Og enginu veit raunar, hvenær fólk kynni að vilja setjast að með fastri búsetu í Flatey á ný. Með aukinni og breyttri samgöngutækni og ekki síður breyttum hugsunarhætti hefði slíkt orðið fyrr en varir. Mannvirki eru þarna veruleg, sem mundu grotna niður, ef ekki yrði fundin fyrir þau einhver not. Höfninni, sem eins og áður er getið er lífhöfn fyrir þetta svæði, þar sem mjög mikil smábátaútgerð er einmitt stunduð af Eyjafirði og frá Húsavík og víðar, yrði einnig hætt við að skemmast, og hún þarf umhirðu við. Búseta í eyjunni, þótt ekki væri nema um vor- og sumartímann, yrði líka til þess að tryggja þar náttúruverðmæti. Varp- og fuglalíf hvers konar mundi varðveitast betur. Ef eyjan er algerlega í eyði, yrði sífellt hætta á því, að aðvífandi menn spilltu þarna fuglalífi og öðru.

Þá kem ég að því, sem ég tel mest um vert, en það er það, að ef hægt væri að gera þarna alvarlega tilraun til að koma upp sjóvinnubúðum fyrir unglinga, sem eru undir þeim aldri, að þeir gangi á hinn almenna vinnumarkað, þá væri það mikils virði. Þessum unglingum fer hlutfallslega fjölgandi, en tækifærum þeirra til að taka þátt í atvinnulífi þjóðarinnar fer aftur á móti fækkandi, sérstaklega í þeim atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, sem brýnast er, að unga fólkið tengist. Þjóðinni er fátt brýnna á þessum tímum en það, að unglingarnir, sem nú alast upp í borg og bæjum, slitni ekki úr tengslum við atvinnulífið, að sem allra flest af unga fólkinu kynnist og alist upp með þeim atvinnuvegum, sem skapa okkur frumverðmætin. Í þessu felst ekkert vanmat á öðrum atvinnuvegum, svo sem iðnaði eða hvers konar þjónustustörfum.

Sem betur fer er það svo enn þá, að fjöldi unglinga á þess kost að njóta hollrar og þroskandi dvalar í sveitum landsins á sumrin. Það er bæði sveitunum og unglingunum hollt og eftirsóknarvert. Kaupstaðarbörnin tengjast sveitunum og fólkinu þar oft ævilöngum böndum. Þetta skapar aukinn skilning. Margir kaupstaðarunglingar koma t.d. í bændaskólana síðar, og er augljóst, að áhugi þeirra á því hefur skapast af kynnum af landbúnaðinum með sumardvöl í sveit, og nokkuð margir þeirra verða síðan bændur. Gera mætti miklu meira að því að skapa unglingum, hvaðan sem þeir koma, möguleika á því að komast í snertingu við sjóinn. Fiskveiðar og fiskverkun, handfæraveiðar og saltfiskverkun eru mjög vel til þessa fallnar. Það væri lokkandi og spennandi fyrir unglinga að fá að stunda slíkar veiðar. Undir stjórn reyndra sjómanna á smábátum lærðu þeir undirstöðuatriði sannrar sjómennsku. Eyjalíf kynni einnig að vera lokkandi og hafa sinn sjarma fyrir unglingana.

Til þess að koma upp slíkum búðum sem hér er bent á þyrfti ekki stórmikinn tilkostnað. Það þyrfti að sjálfsögðu báta og veiðarfæri og nægilega marga reynda sjómenn, sem vildu vinna með unglingunum og fást við þetta. Ef ríkið legði til þá aðstöðu, sem það á í Flatey, er ekki ólíklegt, að bæjarfélög eða önnur félagasamtök vildu leggja nokkuð af mörkum til þess að reka slíkar búðir. Ýmis félög gera þetta þegar, ýmis félög, sem eru á vegum kirkjunnar, reka sumarbúðir fyrir unglinga, og er það vissulega þakkarvert. En víst er það, að starfið hlýtur að vera guði jafnþóknanlegt og að slíkar búðir, sem væru tengdar starfinu, hafa verulega mikið þroskagildi. Þær leiddu unglingana í snertingu við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Ef þessir atvinnuvegir, eins og sjávarútvegur og landbúnaður og fiskverkun, afmannast og við þurfum e.t.v. að fara að flytja inn fólk til að draga fyrir okkur fiskinn og vinna hann, þá er örugglega illa komið fyrir þjóðinni. Og því miður óttast ég það verulega, að skóla- og menntakerfi okkar allt mennti fólkið of mikið frá atvinnuvegunum og það slíti það of mikið úr tengslum við þá, í staðinn fyrir að þetta okkar ágæta kerfi ætti að geta menntað fólkið jafnt til atvinnuveganna. Við þurfum gott og vel menntað fólk í þessa atvinnuvegi eins og hvarvetna í atvinnulífið um landið. Og þessi atriði verður að hafa ríkt í huga við setningu allrar löggjafar um menntamál í landinu.

Tilraunir með sjóvinnubúðir, með skólaskip, með landgræðslustörf skólaæskunnar o.fl. gætu allt verið spor í rétta átt í þessu efni.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.