17.10.1973
Efri deild: 3. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

11. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki svarað þessari spurningu, sem hér var beint til mín, á annan veg en þann, að það hefur verið um það rætt að ráða nokkra eftirlitsmenn við sérstakar veiðar. En sem sagt, beinar till. eru ekki komnar um það, hvað eigi að gera í þessum efnum, og ég get því ekki svarað því með miklu meiri nákvæmni en þetta, að það er sem sagt rætt um að skerpa á eftirlitinu, m. a. með því að fela sérstökum mönnum umfram það, sem nú er, að líta eftir þessu. En manni sýnist, að það sé afar eðlilegt, að stór stofnun eins og Fiskmat ríkisins geti litið hér eftir þýðingarmiklum atriðum og gæti kannske eytt í það eitthvað meiri starfskröftum en sú stofnun gerir nú og að okkar fiskifræðingar geti einnig haft kannske nokkru meira eftirlit, því að þeir eru með báta og skip í förum á þessum slóðum. En það er sem sagt helst um það að ræða að ráða sérstaklega nokkra eftirlitsmenn, sem kæmu þá til viðbótar við það, sem Landhelgisgæslan og þessir aðrir aðilar, sem nú hafa málin með höndum, geta af hendi látið.