05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

213. mál, beislun orku og orkusölu á Austurlandi

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 1. þm. Austurl. og hv. 6. landsk. fyrir góðar og rétt sæmilegar undirtektir í flestu við tillögugerð þessa.

Hv. 6. landsk. fann það þessari tillögugerð helst til foráttu, að í 2. lið hennar er gert ráð fyrir því, ef kaupendur finnast að raforku í svo ríkum mæli, að stóriðja yrði staðsett í Reyðarfirði, og vitnaði í Valdimar Kristinsson, sem veit náttúrlega ekkert meira um þetta en við. A.m.k. hef ég ekki verið upplýstur um það, að hann hafi aflað sér sérþekkingar á því sviði. Hér get ég auðvitað ekkert um það sagt eða í það spáð, hvað eða hvers lags iðnaður kæmi þarna til. Þetta verður að vera orkufrekur iðnaður. Ég er ekki viss um, að slíkur iðnaður þyrfti að hafa stófellda mengun í för með sér.

Ég tek það fram, að því fer víðs fjarri, að ég sé nálægt því nægjanlega kunnugur slíku, en vitanlega þurfum við, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Austf., að gá mjög að því að reyna að forðast hvers kyns mengun umhverfisins, enda hygg ég, að allir menn séu nú sammála um að vanda sem best til allra efna í því. En ég hygg, að í slíka virkjun sem þessa verði ekki ráðist, við öxlum ekki það miklar fjárhagsbyrðar, sem slíkri framkvæmd fylgja, nema með því að við finnum kaupanda að meginhluta orkunnar, a.m.k. til að byrja með, því að þetta er það mikið stórvirki, sem þarna yrði í ráðist.

Það er alveg hárrétt, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl., að viðhorfin hafa gerbreyst. Öll viðhorf hafa tekið stórfelldum stakkaskiptum á örfáum árum. Og svo kann að verða, að þannig haldi áfram, að ný viðhorf skapist. Það er t.d. ekki lengra síðan en um það bil sem hafist var handa um virkjun Búrfells, að menn héldu því fram og trúðu því statt og stöðugt, að það væri hver síðastur að beisla vatnsorkuna, þar sem kjarnorkan mundi bráðum skáka henni gersamlega í verði, vatnsorkan yrði ekki samkeppnisfær. Nú hins vegar er því haldíð fram og raunar hefur það verið upplýst, að á þessu er engin hætta, kjarnorkan kemur ekki til með um fyrirsjáanlega framtíð að verða samkeppnisfær við vatnsorkuna. Auðvitað hlýtur það að gerbreyta viðhorfunum. Og ég tek undir það, eins og ég líka tók fram í minni framsöguræðu, að við eigum að fara okkur hægt í öllum þessum efnum, en við eigum að leggja megináherslu á allar rannsóknir, sem nauðsynlegt er að unnar séu, áður en hafist er handa. Ég vil taka það fram einmitt vegna þess, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Austurl., að ég er ekki — blátt áfram að segja — tilbúinn til þess, að hreyft verði við einum steini í landinu, nema fyrir liggi ítarleg rannsókn á öllum aðstæðum og öllu því, sem yfirleitt gera skal. Að sökkt verði undir vatn t.d. stórum landflæmum, án þess að öll vistfræði þess og umhverfisins og lífkerfið sjálft sé rannsakað sem ítarlegast, kemur ekki til mála að mínum dómi. Ég vil nefna sem dæmi þær hugmyndir, sem uppi hafa verið um að gera mikla vatnsmiðlun með stíflum í Þjórsárveri, að þótt ekki sé nema fyrir það, að þarna er stærsta heiðargæsabyggð í heimi, að talið er, þá mundi ég ekki láta mér til hugar koma að greiða slíkri framkvæmd atkvæði. Og eins er það varðandi mengun og hvað eina, sem að þessu lýtur. Ég legg alla áherslu á það, að ítarlegustu rannsóknir og nákvæmustu yfirveganir hafi átt sér stað af þar til færustu mönnum, áður en lokaákvarðanir eru teknar um framkvæmdir.

Hv. 1, þm. Austurl. gat þess, að þarna hefði þurft að vera einn liður til viðbótar um samtengingu orkuvera í landinu. Ég gat þess í grg. með frv., taldi það til kosta við þessa virkjun, að auðvelt væri að tengja hana raforkukerfi Suðurlands sérstaklega og Suðvesturlands, og enn fremur, að með tilliti til þess, hversu veðrátta er ólík á þessum tveim svæðum, þá eykur þetta mjög öryggið, vegna þess að það er mjög sjaldgæft, að tvö vatnsföll séu vatnslítil samtímis á báðum þessum svæðum. Ég tók það enn fremur fram í minni framsögu, að annar mikilvægasti þátturinn í stefnu okkar í orkumálum ætti að vera samtenging orkuveitna, og ég held, að engum blandist hugur um það og menn séu að kalla sammála í því efni. Hins vegar, meðan við erum að athuga okkar gang allan, eigum við að leggja höfuðáherslu á smærri virkjanir, hagkvæmar smærri virkjanir og samtengingu þeirra innan landshlutanna t.d., því að það margfaldar allt öryggi, eins og dæmi sanna.

Ég get fyllilega tekið undir það, að vitanlega getum við ekki stefnt til iðnaðarframkvæmda í landinu, nema hafa á þeim fulla stjórn sjálfir. Ég tek undir þá skoðun, og ég hygg, það komi ekki til með að verða þessum framkvæmdum og stóriðjuhugmyndum fjötur um fót. Ég hygg, að svo mikil verði eftirspurnin eftir þessari orku, að við ættum að geta valið alveg nægjanlega góða kosti. Þess vegna ber að leggja á það alla áherslu, að við höfum ótvírætt vald á og ráð yfir þeim fyrirtækjum eða þeim framkvæmdum, sem í verður ráðist í framhaldi af beislun okkar hagkvæmu og miklu orku.

Ég hygg, að það sé ekki miklu fleira, sem ég hafði hugsað mér að taka fram í þessu sambandi. Ég vil geta þess, að þótt ég hafi rakið í minni framsöguræðu hugmyndirnar, sem liggja að baki allri Austurlandsvirkjun, er það fjarlægast mér að leggja nú til, að neitt verði gert í þá átt strax að framkvæma slík stórvirki og e.t.v. hervirki, sem það kynni að vera að veita stórum jökulám á milli landsfjórðunga. Ég rakti aðeins til upplýsingar og fróðleiks þær hugmyndir, sem að allri þessari stóru virkjun liggja, sem fróðustu menn telja, að muni e.t.v. vera beislanleg orka, samkv. þessum hugmyndum sem nemur upp undir 1500 mw.

Aðal ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi, sem ég hafði fengið sérfróðan mann til þess að undirbúa fyrir mig frá því í haust, er að ýta sem fastast á eftir því, að hafist verði handa um rannsóknir á öllu málinu. Það má öllum vera ljóst, að það er feiknavinna, það líða ár, mörg ár, þangað til málið verður komið á þann rekspöl, að þess sé kostur að hefjast handa. Hins vegar er það álit þeirra manna, sem gerst og best til þekkja í þessum efnum, að þarna eigum við í heild tekið gífurlega góðra kosta völ hvað varðar virkjun vatnsafla á Íslandi og að á Austurlandi séu þessir kostir einna glæsilegastir.