05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

218. mál, verkleg kennsla í sjómennsku

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Á þskj. 380 flytjum við 4 þm. Austurlandskjördæmis till. til þál. um verklega kennslu í sjómennsku og fiskveiðum og um útgerð skólaskipa. Tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um verklega kennslu í sjómennsku og fiskveiðum og um rekstur skólaskipa. Skal að því stefnt að gera út að sumarlagi eitt eða fleiri fiskiskip í hverjum landsfjórðungi, þar sem ungu fólki gæfist kostur á að læra algengustu handtök við sjómennsku og fiskveiðar. Jafnframt skal stefnt að því að gefa ungmennum kost á sams konar þjálfun á almennum fiskiskipum, enda komi til samþykki sjútvrn., hverju sinni. Fela skal Fiskifélagi Íslands að sjá um framkvæmdir.“

Ég vil láta það koma hér fram, að hvatinn að þessum tillöguflutningi er kominn austan af fjörðum, frá Seyðisfirði, nánar tiltekið frá Ólafi álafssyni útgerðarmanni, sem er mikill áhugamaður um allt, sem að útgerð lýtur. Þessi hugmynd er ekki ný. Mér er t.d. kunnugt um það, að á Seyðisfirði var í bæjarstjórn fyrir 1015 árum flutt till., sem gekk í sömu átt og þessi till. okkar. Mér er einnig kunnugt um það, að bæjarstjórinn í Neskaupstað hafði uppi málaleitan um stuðning við útgerð skólaskips fyrir fáum árum. En ekki varð að framkvæmdum þar, fremur en á Seyðisfirði. Aftur á móti hefur útgerð á skólaskipi verið reynd á Patreksfirði vestur með ágætum árangri. Fyrir þeirri tilraun mun hafa staðið Jón Magnússon skipstjóri þar, og er mér sagt, að mikill áhugi hafi verið fyrir — að komast að á skólaskipi Jóns skipstjóra og að frekast hafi verið erfiðleikar í þá átt að losna við ungu mennina, sem vildu halda áfram á veiðum, eftir að þeirra æfingatíma var lokið. Þá hefur einnig verið reynt á skipulegan hátt, þótt á takmörkuðu sviði hafi verið, að senda unga menn til þjálfunar sem aukaskipverja á varðskipunum. Þetta hefur verið reynt nokkur undanfarin ár í samræmi við ályktun, sem Alþingi gerði um þetta efni á sínum tíma.

Tilgangurinn með þessum tillöguflutningi er fyrst og fremst sá að greiða fyrir því, að unnt sé að manna fiskveiðiflota Íslendinga hverju sinni. En samhliða því að stuðla að mönnun flotans er það ætlun flm., að ungt fólk hafi gott af því á allan hátt að kynnast þessum þætti atvinnulífsins, fá beina snertingu við hann á þann hátt, sem verkleg kennsla í því formi, sem hér er vikið að, mundi veita. Við flm. álftum, að það mundi glæða skilning unga fólksins á gildi þessa undirstöðuatvinnuvegar Íslendinga og verða til þess að þroska það á margan hátt. Við höldum sem sagt, að það hafi alveg tvímælalaust uppeldislegt gildi fyrir ungt fólk á þessu landi að komast í snertingu við frumatvinnuvegi okkar. Við álítum, að vaxandi þörf sé fyrir þetta.

Áður fyrr voru kaupstaðirnir minni. Menn fengu uppeldi sitt í sjóþorpunum í nánum tengslum við smábátaútgerðina, sem var allsráðandi yfir höfuð að tala fyrir nokkrum áratugum. Nú hafa bæirnir stækkað, sér í lagi hér suður frá, en einnig víðar hafa bæir stækkað og um leið komið fleiri starfsgreinar, sem á vissan hátt er auðveldara að komast í tengsl við heldur en við sjómennskuna, og þannig leiðist hugur unga fólksins í vaxandi mæli frá þessum undirstöðuatvinnuvegi. Það kemur líka til, að nú er yfir höfuð að tala seta á skólabekk orðin miklu lengri en hún var fyrir nokkrum áratugum. Allt þetta veldur því, að þörf fyrir beina og skipulagða kynningu á sjómennskunni fer vaxandi. Mér finnst líka vert að benda á það alveg sérstaklega, að beina verklega kennslu í sjómannsstörfum er raunar hvergi að finna í skólakerfi landsmanna hinu almenna, og hún er einnig mjög takmörkuð í sjómannaskólanum sjálfum. Þar er lögð stund á annað meir en beina verklega kennslu í sjómennsku, eins og kunnugt er. Þess er einnig að gæta, að sá skóli er aðeins fyrir lítið brot af sjómannastéttinni, þ.e.a.s. fyrir yfirmenn, skipstjóraefni og vélstjóra.

Þó að við flm. þessarar till. séum sammála um það og ekki í nokkrum vafa um, að nauðsyn er á aðgerðum eins og þeim, sem till. fjallar um, hljótum við að viðurkenna, að ekki er vandalaust að setja löggjöf um þetta efni. Við erum ekki með fastmótaðar hugmyndir um, hvernig forma skyldi slíka löggjöf. Þess vegna er það, að till. okkar felur í sér að skora á ríkisstj. að láta undirbúa málið. Víð hugsum okkur þá, að ríkisstj. fái til þess færa menn, í nánum tengslum við sjávarútveginn, t.d. frá Fiskifélagi Íslands, frá samtökum skipstjórnarmanna og öðrum samtökum sjómanna og frá útvegsmönnum.

Þó að vafalaust megi við lagasmíð þá, sem hér um ræðir, styðjast að einhverju leyti við erlenda reynslu og að einhverju leyti við vísi að innlendri starfsemi, sem þegar er til, eins og ég vék að áðan, sýnist mér, að það megi alveg eins búast við því, að reynslan verði síðar að leiða í ljós, hver eru heppilegustu formin á þeirri starfsemi, sem till. fjallar um. Jafnvel þó að færustu menn fjölluðu um undirbúning löggjafarinnar, kæmi mér ekki á óvart, þó að svo færi, vegna þess að lítil reynsla er komin á slíka starfsemi hér á landi, að fljótlega kynni að þurfa að breyta löggjöfinni á einhvern þátt. En mestu máli skiptir að okkar dómi, að hafist sé handa.

Í till. okkar, eins og hún liggur fyrir á þskj., felast í raun og veru aðeins þrjár ábendingar. Það er bent á útgerð skólaskipa. Við hugsum okkur, að það yrðu skip, sem tekin yrðu á leigu, fyrst og fremst um sumartímann. Ég gæti ímyndað mér, að slík skip flyttu sig á milli verstöðva, tækju hópa til æfinga á einum stað nú og öðrum síðar, þetta yrðu eins konar hreyfanlegar æfingabúðir.

Í annan stað bendum við á þann möguleika að veita tilsögn og þjálfun á almennum fiskiskipum undir leiðsögn valinna skipstjóra, og þau skip yrði að viðurkenna hverju sinni. Það er svo með nýju skipin mörg, þessi stjórn og glæsilegu skip, að þau hafa mörg hver rýmri íbúðir en þarf fyrir hina föstu áhöfn, eins og hún er venjulega. Hefur, eins og ég sagði áðan, þegar verið gerð tilraun með þetta á varðskipunum. Þar er auðvitað ekki um neina tilsögn að ræða í fiskveiðum, heldur aðeins sjómennsku, en þarna gæti orðið um tvöfalda þjálfun að ræða, miðað við það, sem þar á sér stað. Ég held, að, sú tilraun, sem gerð var á varðskipunum, hafi gefið svo góða raun, að það sé alveg sjálfsagt að reyna einnig á þessu sviði.

Þriðja ábendingin, sem kemur fram í þessari till., er varðandi framkvæmdina. Við leggjum til, að Fiskifélaginu sé falið að annast hana. Það hefur þegar ýmsa starfsmenn í sinni þjónustu, bæði ráðunauta og erindreka, og það hefur a.m.k. fylgst með starfsemi í þessa átt. Þar á ég við sjóvinnunámskeið, sem haldin hafa verið á ýmsum stöðum á landinu. T.d. nú í vetur hefur verið kennsla í sjóvinnu á Seyðisfirði. Hún er kostuð af heimamönnum að mestu eða öllu leyti, en hún var sett af stað og fer fram undir handleiðslu Fiskifélags Íslands. Að dómi okkar flm. er eðlilegt framhald á þessari starfsemi og alveg sjálfgefið að taka upp slíka kennslu á sjó og fela Fiskifélaginu forgöngu á þessu sviði. Það væri alveg tvímælalaust eðlilegt, að verkleg kennsla á sjó yrði einn liður í okkar skólakerfi, einn þáttur í verknámi því, sem framkvæmt er innan hins almenna skólakerfis. E.t.v. getur það orðið þegar með fyrstu löggjöf, sem sett yrði um þetta efni. En þó þykir mér sennilegra, og að því laut það, sem ég áðan sagði, að við leggjum til að fela Fiskifélaginu forgöngu um þetta, að það bíði síðari tíma að fasttengja verklega kennslu á sjó skólakerfinu sjálfu.

Ég vil taka fram, að flm. þessarar till. vilja ekki láta skilja tillöguflutning sinn sem vanmat á nokkurn hátt á viðleitni útgerðarmanna, skipstjóra og annarra skipverja, sem nú þegar hefur sýnt sig í þá átt að þjálfa ungt fólk til sjómennskustarfa. Það ber að virða alla slíka viðleitni.

Þó að smábátaútgerðin í mörgum verstöðvum sé ekki lengur allsráðandi og önnur stærri útgerð tryggi jafnari atvinnu, er fyllilega ástæða til að vekja athygli á því, hvernig þessi smábátaútgerð hjálpar til að veita mönnum fyrstu æfingu á sjó, ekki einasta á þann hátt, að þegar menn hrinda á flot trillum sínum, sem nú eru kallaðar og margar eru reyndar þilskip, þá verður þar pláss fyrir marga unga menn, sem um líkt leyti eru kannske að losna úr skólum, heldur einnig á þann hátt, að yfir á smábátana fara alltaf einhverjir skipverjar af stærri skipunum, það er a.m.k. reynsla, þar sem ég þekki best til, og þá losnar á þeim skipum pláss, sem a.m.k. í ýmsum tilfellum nýtast fyrir yngri kynslóðina, sem enn er t.d. í skólum í bóklegu námi. Þrátt fyrir þetta sýnir reynslan, að ástæða er til að vera hér vakandi og gera enn betur, sbr. það, sem ég hef aðeins vikið að hér að framan, og sbr. t.d. það, að fáar tilkynningar eru algengari á vissum tímum árs heldur en sú, sem byrjar svona: „Vanan háseta vantar.“ Þetta er því að dómi okkar flm. áreiðanlega tímabært frá því sjónarmiði séð.

Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, en leyfi mér að leggja til, að till. verði vísað til atvmn.