05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

219. mál, varaforði sáðkorns til nota í kalárum

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v. till. til þál. um ráðstafanir til að tryggja í landinu varaforða sáðkorns til nota í kalárum. Till. er á þskj. 381 og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að Innkaupastofnun ríkisins í samráði við sáðvöruinnflytjendur flytji inn og hafi á boðstólum í vor umtalsvert magn af sáðkorni umfram þau venjulegu ársnot, sem grípa mætti til fyrirvaralaust til grænfóðurræktar, ef í gróandanum kæmi fram kal í túnum, sem hugsanlega getur orðið eftir hinn óvenjulanga svellavetur og leitt til fóðurvöntunar, ef ekki er að gert. Við ákvörðun magns og tegunda sáðvaranna skal innflytjandi hafa samráð við Búnaðarfélag Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins.“

Eins og fram kemur í grg. með till., eru bændur uggandi um grasbrest á komandi vori, þar sem þeir óttast, að hin óvenjumiklu svellalög í byggðum landsins geti leitt af sér kal í túnum og ræktarjörð. Það er öllum vitanlegt, að allt frá byrjun nóv. hefur hitastig verið óvenjulágt, og hefur það haft þau sýnilegu áhrif að hleypa jörðinni í gadd og magna frerann á öllu flatlendi, þ.e.a.s. það hefur skapast hættuástand um fóðuröflun bænda í sumar.

Bændur eru ekki einir um að meta horfurnar viðsjárverðar. Sérfræðingar telja, að af völdum köfnunarkals séu tíðastir kalskaðar hérlendis og að þess megi vænta, að svell muni liggja á túnum lengi fram eftir. Sérfræðingar eru og sammála um, að sú leiðin, sem tiltækilegust sé til að koma í veg fyrir fóðurskort af völdum kalskemmda, sé ræktun grænfóðurs, því að í flestum árum fá einærar grænfóðurjurtir nægan vaxtartíma til góðrar uppskeru, ef sáðkorn er fyrir bendi, þegar fullséð er, hvort um kalskemmdir er að ræða eftir veturinn.

Ekki þarf að óttast það, að grænfóðurræktun fari í handaskolum. Bændur eru orðnir þaulvanir þeirri ræktun og nota hana mjög árlega til þess að auka á fjölbreytni fóðursins, um leið og hún er liður í varanlegri ræktun landsins. Mér skilst, að árið 1971 hafi verið um 3200 ha. undir grænfóðri og um 3500 ha. árið 1972. Nú er talið, að venjuleg túngrös gefi í meðalári um 1750 fóðureiningar af ha. Hins vegar má ætla, að grænfóðurtegundir þær, sem helst kæmi til greina að hagnýta í þessu skyni, gætu gefið af ha.: hafrarnir um 2500 fóðureiningar, byggið um 2000 fóðureiningar og rýgresi álíka uppskeru. Þótt grænfóðurræktunin sé að nokkru mun kostnaðarsamari að því er varðar áburð og útsæði en önnur ræktun, á hún fullan rétt á sér og er raunar, eins og áður sagði, eina leiðin til bjargar, ef túngrösin bregðast.

Dr. Sturla Friðriksson getur þess í blaðaviðtali fyrir nokkrum dögum, að nauðsyn beri til vegna kalhættunnar að útvega varaforða af sáðkorni, þar sem þörfin fyrir það verði oft ekki kunn fyrr en síðla vors, en þá er örðugt að afla sáðvöru og skammur tími til stefnu, uns of seint yrði að sá.

Eins og áður sagði, rækta bændur árlega grænfóður í miklum mæli. Það mun láta nærri, að innflutningur sáðkorns sé í meðalári um 500 tonn. Með hliðsjón af því má áætla, að varabirgðir þær, sem till. þessi tekur til, þyrftu a.m.k. að vera 300–500 tonn. Hér er því um svo mikla birgðaaukningu að ræða, að ekki er hægt að gera þá kröfu til innflytjenda sáðkorns, að þeir festi fé í svo miklu magni. Þar sem hér er um hagsmuna- og öryggismál að ræða, sem má heita sameiginlegt öllum landsmönnum, er eðlilegt, að ríkisvaldið hafi um málið forgöngu og tryggi til þess fjármagn. Ráðlegast virðist vera að fela þeim fyrirtækjum, sem þegar starfa að sáðvöruinnflutningi, framkvæmdina með fyrirgreiðslu ríkisins eða einhverrar ríkisstofnunar að bakhjarli, og er í till. lagt til, að Innkaupastofnun ríkisins verði sá aðili, enda hefur hún að undanförnu notið aðstoðar innflytjenda um útvegun sáðkorns fyrir grænfóðurverksmiðjur ríkisins. Það er rétt að geta þess hér, að till. gerir einnig ráð fyrir því, að við ákvörðun magns og tegunda sáðvaranna skuli innflytjandi hafa samráð við Búnaðarfélag Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Á því búnaðarþingi, sem nú er nýlega lokið, lá fyrir erindi frá jarðræktardeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um innflutning sáðkorns, og var það afgreitt frá þinginu með svofelldri samþykkt, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þeirrar kalhættu, sem stafar af miklum svellalögum um mestan hluta landsins í vetur, felur Búnaðarþing stjórn Búnaðarfélags Íslands að beita sér fyrir því, að bændum verði tryggt nægilegt fræ af heppilegum grænfóðurtegundum til sáningar á komandi vori, enn fremur, að kannað verði, með hvaða hætti unnt verði að tryggja til frambúðar nægilegar sáðvörur til grænfóðurræktar, sem unnt yrði að nota í kalárum.“

Svo sem heyra má, gengur þessi samþykkt Búnaðarþings mjög í sömu átt og sú þáltill., sem hér er til umr. Sú samþykkt tekur sem sagt kröftuglega undir till. okkar hv. 5. þm. Norðurl. v., og er það einmitt það, sem við vissum, að mundi gerast. Svo almennur er óttinn við skaða af völdum hins óvenjulanga svellaveturs. Þótt hina síðustu daga hafi brugðið til betra veðurfars, er engan veginn séð fyrir endann á því enn, hverjar afleiðingarnar af þeim svellalögum verða.

Nú er orðið svo áliðið vetrar, að hið bráðasta þarf að ganga frá pöntunum erlendis á því sáðkorni, sem á að koma til notkunar við ræktun á komandi vori. Afgreiðsla þessarar till. má því ekki dragast úr hömlu og þyrfti að ganga hraðar í gegnum þingið en gengið hefur til þessa, þar sem liðinn er hartnær mánuður, síðan till. var lögð fram, en er núna fyrst að koma til umr. í Sþ. Hér er að mínum dómi of mikið í húfi, til þess að svo megi lengur ganga. Ég treysti því, að menn komi auga á það nú og málið fái framgang með hliðsjón af því.

Herra forseti. Ég kýs ekki að hafa að sinni fleiri orð um till. þessa, en ég legg til, að umr. um hana verði á einhverju stigi frestað og málinu vísað til hv. atvn. til meðferðar.