05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

222. mál, boð til Alexanders Solzhenitsyn um búsetu hér á landi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Því fer víðs fjarri, að erindi mitt hingað sé að halda uppi vörnum fyrir ófrelsi, hvort heldur það tíðkast í Tyrklandi eða Grikklandi eða Portúgal, ófrelsi gegn manneskjunni sjálfri, hvort heldur það er allur almenningur eða rithöfundar. Því fer víðs fjarri. Ég á aðeins lítið erindi til þess að styðja við þá till., sem hér hefur verið fram borin.

Ég hafði haldið, að hv. 4. landsk, þm. hefði komið hér upp í ræðustólinn til þess að leggja lykkju á leið sína og orðfæra aðeins það, sem bókstaflega er lagt til í þessari till., sem hér er til umr.. En því var ekki að heilsa, heldur var meginerindið að víkja sérstaklega að Morgunblaðinu, þessum gamla vinnuveitanda sínum.

Hv. 4. landsk. þm, sagðist hafa átt það aðalerindi að lýsa andúð og viðbjóði á þeirri sýndarmennsku, sem fælist í málflutningi Morgunblaðsins og Sjálfstfl., þegar þeir væru að ræða um frelsi andans. Hv. þm. minntist ekkert á nýjustu fréttir, sem dreift hefði verið út frá fréttastofu APN, þar sem m.a. er sagt um Solzhenitsyn, að hann sé nú ormurinn, sem dottinn er úr eplinu og mun lifa í grasi gleymskunnar. Hún minntist ekki einu orði á þetta, en býsnaðist yfir því, að Morgunblaðið hefði verið með hótanir.

Hvað sagði Morgunblaðið í Reykjavíkurbréfi hinn 24. febr. s.l.? Þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skulum fylgjast vandlega með því, hver reynir að sverta Solzhenitsyn. Við skulum hlusta á rödd hans, rödd skáldsins og hetjunnar. Ekki síst skulum við fylgjast með þeim, sem leggja að jöfnu ofbeldi gegn Solzhenitsyn og mistök í lýðræðislöndunum.“

Ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið þetta, sem hv. 4. landsk. vitnaði til. Ég hefði vænst þess, að hv. þm. hefði tekið beina og bókstaflega afstöðu til þeirrar till., sem hér liggur fyrir til umr., en það gerði hún alls ekki, heldur tók að ræða önnur mál. Ég er ekki að segja, að þau séu að öllu leyti alls óskyld þessu, því að ófrelsi manna um allan heim er skylt. Það er ekki sama, hvernig að málum er staðið.

Hv. þm. tók fram, að Morgunblaðið ryki upp með æði miklu, eða í þá áttina var það, þegar þeir Alþb.-menn hefðu fordæmt aðfarirnar gegn Solzhenitsyn. Á hv. þm. kannske við það, að Morgunblaðinu fannst seilst um hurð til lokunar, þegar hv. þm. Jónas Árnason vildi jafna saman framkomu, ef svo má segja, hv. 1. þm. Sunnl. við Guðmund Daníelsson og þessum nýjustu aðferðum Sovétveldisins við Nóbelsverðlaunaskáldið Solzhenitsyn?

Hv. 10. þm. Reykv. minntist aðeins á þær fréttir, sem dreift hefði verið út frá fréttastofnun, sem starfar hér í landi nú, APN-Novosti, sem lætur ekki hendi óveifað til þess að fara svívirðingarorðum um skáldíð Solzhenitsyn. Ég nefni aðeins eitt dæmi, af því að það er mér ofarlega í huga.

Þegar bar á góma, að við flyttum þessa till., sem hér liggur fyrir til umr., þá var maður auðvitað í vafa um réttmæti slíks. Fyrir því var það, að við ákváðum að ná sambandi við Vladimir Ashkenazy og bera undir bann, hvernig honum litist á slíka tillögugerð, eða öllu heldur, hvert álit hann hefði á því, að slíkt boð yrði gert af þjóðþingi Íslendinga. Og hann sagði og gaf til þess leyfi, að það mætti bera sig fyrir þeim orðum, að hann teldi það stórbrotinn vináttuvott.

Það má auðvitað setja á langa tölu um óréttlætið, sem ríkir í heiminum, gegn rithöfundum sem öðrum, og ekki eru þeir öfundsverðir, sem við ofríki, kúgun og vopnað ofbeldi grískra herforingja búa. Það dettur engum í lifandi hug að bera blak af þeim. En um leið og hv. 4. landsk. þm. rifjar það upp og ber það saman, minnist hún ekki einu einasta orði á það, hvort sé rétt af okkur Íslendingum að stiga slíkt skref eins og þetta, að sýna það, sem annar landflótta Rússi kallar stórbrotinn vináttuvott, — hvort sé rétt af þjóðþingi okkar Íslendinga að stiga slíkt skref. Ef hún hefði rætt þetta mál efnislega, þá till., sem hér liggur fyrir, og lýst afstöðu sinni til hennar, þá er auðvitað ekkert við því að segja, ef hún er á gagnstæðri skoðun, að við eigum ekki að gera Solzhenitsyn og hans fjölskyldu þetta boð. Því var það, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum, að það skyldi ekki koma fram í máli hv. 4. landsk., hvert væri hennar álit bókstaflega á þessu boði. Það er undirstaðan, að það fáist úr því skorið, enda mun það fram koma, þegar þessi till. kemur til atkv. hér á hinu háa Alþ. Þá hefði ég betur getað skilið, að hv. þm. notaði tækifærið til þess að rifja upp önnur dæmi um stórkostleg misferli, kúgun og ofbeldi, sem eiga sér stað í þessum hrjáða heimi okkar gegn rithöfundum sem öðrum.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að setja á lengri tölu um þetta nú. En ég verð að segja það alveg eins og hv. 10. þm. Reykv., að eftir að hafa séð ljósmyndir af þeim fréttaskeytum og fréttasendingum, sem berast frá þessari áminnstu fréttastofnun um Solzhenitsyn, þá hygg ég, að það hljóti að koma til álita, að slíkri stofnun verði lokað. Að vísu erum við íslendingar ákaflega frjálslyndir í þeim sökum og viljum ganga mjög langt í skoðanafrelsi. En þarna tekur út yfir í þessu efni. Fæ ég ekki betur séð, ef þetta á að líðast, eins og dæmi sanna, en að það sé okkur til skammar og við getum ekki horft á það aðgerðarlausir, því að hversu skiptar sem skoðanir manna ella eru í stjórnmálum, þá geta allir menn í sjónhendingu séð, að í þessum áróðurspistlum er hallað réttu með ósköpum. Það geta allir menn séð, til hvers refarnir eru skornir í þessu dæmi, og einhvers staðar hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað við viljum þola, enda þótt við viljum vera fremstir í flokki þeirra, sem leyfa vilja sem mest frjálsræði í orði sem og á borði. En sem sagt, þegar við þóttumst vera að leggja til, að þjóðþing Íslendinga sýndi þessum hrjáða snillingi~ stórbrotinn vináttuvott, þá notaði hv. 4. landsk. tækifærið til þess sérstaklega að lýsa andúð sinni og viðbjóði á sýndarmennsku í málflutningi Morgunblaðsins og sjálfstæðismanna og þá vitanlega, af því að við vorum orðfærðir sérstaklega, í málflutningi okkar flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir til umr.