05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

222. mál, boð til Alexanders Solzhenitsyn um búsetu hér á landi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Sú ræða, sem hv. 4. landsk. þm. flutti hér áðan, gefur ekki tilefni til langra aths. Kjarni málsins er sá, að þessi hv. þm. þolir ekki að horfast í augu við þá staðreynd, að hin einmanalega og hetjulega barátta skáldsins Solzhenitsyns við mesta lögregluríki veraldarsögunnar er orðin tákn fyrir frelsisbaráttuna í veröldinni. Barátta þessa skálds er táknræn. Þarna er meira í húfi en þessi eini einstaklingur. Þarna er það í húfi, hvort við, menn á Vesturlöndum, erum menn til þess að taka á okkur þær byrðar, sem hljóta að fylgja því að þora að standa með frelsisbaráttunni, hvar sem er í heiminum. Ég lýsi jafnframt vonbrigðum mínum yfir því, að svo margir rithöfundar sem raun ber vitni og eiga sæti hér á hinu háa Alþ. skuli gera svo líitið úr sér eins og að reyna að drepa þessu máli á dreif. Ég harma það enn fremur, að þessi hv. þm, skyldi leyfa sér að tala um það í þriðju persónu hér áðan, þegar hann sagði orðrétt: „mjög undarlegt, að þeim, sem tala máli Solzhenitsyns“, og tók ekki sig sjálfa með í þeim hópi. Vona ég sannarlega, að það séu mismæli og þessi hv. þm, sé maður til þess að koma hér upp og leiðrétta þetta og jafnframt lýsa stuðningi við þá till., sem hér er borin fram.