05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

231. mál, vararaforkustöðvar á Ólafsfirði, Dalvík, Grenivík og Kópaskeri

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Norðurl. e., Halldóri Blöndal, leyft mér að flytja á þskj. 395 till. til þál. um vararaforkustöðvar á Ólafsfirði, Dalvík, Grenivík og Kópaskeri. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Rafmagnsveitum ríkisins að reisa vararaforkustöðvar á Ólafsfirði, Dalvík, Grenivík og Kópaskeri og endurbæta vélbúnað í stöðinni á Raufarhöfn.“

Það kom nýlega áþreifanlega í ljós, þegar mikið óveður geisaði á Norðurlandi, að nokkrir þéttbýlisstaðir á Norðurl. e. eru illa settir með vararaforku. Hér er fyrst og fremst um að ræða Ólafsfjörð, Dalvík og Grenivík, en einnig væri þörf á að reisa varastöð á Kópaskeri fyrir sveitirnar í kring og hyggja að endurbótum á vélum vararaforkustöðvar á Raufarhöfn. Á þessum stöðum, sem ég nefndi hér og fram kom í tillgr., voru milljónatugaverðmæti í hættu vegna rafmagnsskorts, svo að sólarhringum skipti, eftir að línum frá Laxárvirkjun og Skeiðsfossvirkjun biluðu í umræddu óveðri. Hér var bæði um að ræða heimili fólks, sem beint og óbeint þarfnast raforku á þessum stöðum til upphitunar, og hvers konar atvinnurekstur og hraðfrystihús, en þar eru milljónaverðmæti í hættu, ef raforku nýtur ekki við, auk þess tjóns, sem verður á starfrækslu þessara fyrirtækja. Ekki er óraunsættað áætla, að frosinn fiskur í geymslu hraðfrystihúsa á þessum stöðum hafi numið að verðmæti 30-40 millj. kr., þegar orkuskortur kom í veg fyrir, að hægt væri að halda við frosti á geymsluklefum hraðfrystihúsanna. í þetta sinn fór allt vel. En sú áhætta, sem tekin er með núv. fyrirkomulagi, er gífurleg.

Það styður mjög þessa tillögugerð, að á Norðurl. v. og e., sem nú eru að verða eitt raforku svæði, er útlit fyrir, að verði að grípa til þess ráðs til þess að afla nægilegrar raforku að stórauka dísilvélakost. Hæstv. iðnrh. hefur staðfest á Alþingi, að Norðlendingar fái ekki örugga orku frá Landsvirkjun fyrr en sumarið 1976, jafnvel þótt háspennulína um byggðir eða öræfi rísi fyrr. Ýmsir kunnáttumenn bera brigður á, að þessi áætlun standist. En jafnvel þótt hún standist, er þörf á stórfelldri raforku frá dísilstöðvum á Norðurlandi næstu ár, ef ekki á að verða þar algert öngþveiti og stöðnun vegna orkuskorts.

Þegar svo er ástatt sem að framan greinir um orkumálin á Norðurlandi, er einsýnt að nota tækifærið til þess að koma þessum varaaflsstöðvum fyrir við helstu þéttbýlisstaðina eða í helstu þéttbýlisstöðunum, þannig að þessar stöðvar nýtist þar, ef um línubilanir er að ræða, ekki síst þegar stefnt er að því að afla orku um nokkurt skeið um línur þvert og endilangt yfir landið.

Ég tel óþarft að rökstyðja þessar till. nánar. Um orkumál á Norðurlandi hafa orðið verulegar umr. og eiga sjálfsagt eftir að verða meiri umr. á þessu þingi, þannig að hv. þm. er nokkuð vel kunnugt um þau mál. Tel ég, að þessi till. og sú grg., sem með henni fylgir, styðji ,sig sjálf og skýri sig svo sjálf, að frekari orðræður í framsögu séu óþarfar.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um þessa till. verði frestað og henni verði vísað til hv. allshn.