06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

201. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. frv. það, sem hér er til umr., fjallar um fjölgun utankjörfundarstaða og fjölgun kjörstjóra til utankjörfundarstaða og fjölgun kjörstjóra við fara um þetta mál nokkrum orðum.

Samkv. gildandi l. skal utankjörfundaratkvgr. einungis fara fram á þessum stöðum: Í skrifstofu sýslumanns eða bæjarfógeta, í skrifstofu eða á heimili hreppstjóra, um borð í íslensku skipi, þar sem skipstjórinn hefur fengið nauðsynleg gögn til atkvgr., og loks hjá íslenskum sendiráðum og útsendum ræðismönnum eða kjörræðismönnum, sem eru af íslensku bergi brotnir og mæla á íslenska tungu.

Svo sem kunnugt er, hefur mjög verið kvartað yfir því, að erfitt og jafnvel ókleift hafi verið íslenskum námsmönnum erlendis að neyta þar kosningarréttar síns, sendiráðin væru fá og dreifð, en námsmenn margir og þeir sótt nám víðs vegar um lönd.

Í annan stað hafa of þröngar skorður verið markaðar utankjörfundaratkvgr. þeirra, sem eigi — hafa getað vegna heilsubrests komist til kjörstjóra og eigi komið því við af þeirri sök að greiða atkvæði.

Með frv. þessu er ætlunin að bæta nokkuð úr í þessum efnum. Í fyrra lagi er sú breyting gerð með frv., að utanrrn. verði falið að ákveða og auglýsa fyrir hverjar kosningar, hvar utankjörfundaratkvgr. eigi að fara fram hjá kjörræðismönnum. Þetta er veruleg breyting, og þá eru kjörræðismenn, sem hér um ræðir, einnig þeir, sem eigi mæla á íslenska tungu. Þannig mundi mega fjölda mjög utankjörfundarstöðum erlendis. Í því sambandi ber að hafa í huga, að kjörræðismenn eru ólaunaðir og hafa ekki skyldu að vera til viðtals á sínum skrifstofum, að því er varðar íslensk málefni. Það er því engan veginn hægt að skipa þá til þess að vera viðstadda í sambandi við utankjörfundaratkvgr. og síst af öllu allan þann tíma, sem slík atkvgr. má fara fram, sem mun vera um 4 vikur fyrir kjördag. Er lagt til, að utanrrn. að höfðu samráði við viðkomandi kjörræðismenn auglýsi, hvenær atkvgr. geti farið fram hjá þeim.

Eins og ég sagði áður, munu flestir þessara ræðismanna eigi kunna íslensku, hvorki mæla hana né skilja. Því er gert ráð fyrir, að allar kosningaleiðbeiningar og skjöl varðandi utankjörfundarkjör verði a.m.k. á einu erlendu tungumáli og svo fylgi þýðing á texta allra nauðsynlegra fylgibréfa á því máli.

Um kjör í sambandi við utankjörfundaratkvgr. erlendis er sem sagt mjög víkkaður ramminn og ætti að vera fremur til hægari verka en væri að óbreyttum lögum. En þessi utankjörstaðaatkvgr. erlendis getur aldrei verið með þeim hætti, eða a.m.k. mjög seint, að námsmönnum, hvar sem þeir eru, geti orðið kleift að greiða atkvæði.

Í síðasta lagi er svo kjörstjórum, þ.e. sýslumönnum, bæjarfógetum og hreppstjórum, heimilt að láta kosningu fara fram á sjúkrahúsi eða dvalarheimili aldraðra, enda sé kjósandinn sjúklingur eða vistmaður á þessari stofnun. Kjörstjóri, sem þessa heimild hefur, auglýsir að sjálfsögðu á þann hátt, sem venja er til á hverjum stað, hvenær atkvgr. í slíkri stofnun geti farið fram, og atkvgr. á þessum stofnunum fari fram að höfðu samráði við umráðamenn stofnunar.

Sjúkrahús og dvalarheimili aldraðra, þetta eru þau atriði, sem bætt er við þá löggjöf, sem fjallað er um. Sjúkrahús eru skilgreind nánar í l. um heilbrigðisþjónustu frá 1973, og enn fremur eru dvalarheimili aldraðra skilgreind í l., sem fjalla um það efni, einnig frá árinu 1973.

Skilgreiningin í l. um heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum er mjög víðtæk, nær yfir ýmsa dvalarstaði sjúklinga. Ég ætla að leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp þessa skilgreiningu á sjúkrahúsum:

1. Svæðissjúkrahús er sjúkrahús, sem eitt sér eða í samvinnu við önnur veitir sérfræðiþjónustu í öllum eða nær öllum greinum læknisfræði, sem viðurkenndar eru hérlendis.

2. Deildasjúkrahús er sjúkrahús, sem veitir sérhæfða meðferð í helstu greinum lyflæknisfræði, skurðlæknisfræði o.s.frv.

3. Almennt sjúkrahús er sjúkrahús, sem ekki hefur sérdeildir, en hefur á að skipa sérfræðingum eða almennum læknum og tekur við sjúklingum til rannsóknar og meðferðar.

4. Hjúkrunar- og endurhæfingarheimili, vistheimili fyrir sjúklinga, sem búið er að sjúkdómsgreina, en þarfnast meðferðar, sem hægt er að veita utan almennra og sérhæfðra sjúkrahúsa.

5. Sjúkraskýli, húsrými í heilsugæslustöð eða annars staðar, sem eingöngu er ætlað til gæslu eða athugunar sjúklinga um skamman tíma.

6. Vinnu- og dvalarheimili eða stofnanir, sem taka til vistunar geðsjúklinga, drykkjusjúklinga líkamlega bæklaða eða fávita til dvalar eða starfs.

7. Gistiheimili er dvalarstaður sjúklinga, sem eru til meðferðar á öðru sjúkrahúsi, en geta eigi dvalist í heimahúsum.

Í þessari lagagrein, sem ég hef lesið upp að hluta til, eru skilgreind sjúkrahús, og í upphafi greinarinnar segir: „Sjúkrahús skiptast í eftirfarandi flokka eftir tegund og þjónustu.“ Þetta er því orðið allvíðtækt.

Það verður vafalaust að halda sér innan ramma þessara laga eða þessarar lagagreinar, nema um stofnanir sé að ræða, sem með fullum rétti geta jafnast á við þær, sem þarna eru taldar upp.

Það er gert ráð fyrir, að í þessum stofnunum fari kosningaathöfn að öllu leyti fram með sama hætti og nú er að lögum á skrifstofu eða á heimill kjörstjóra. Er gert ráð fyrir, að viðkomandi kjörstjóri, eins og ég gat um áður, ákveði í samráði við forstjóra stofnunar, hvenær atkvgr. fari fram. Er svo gert ráð fyrir því, að ráðuneyti dómsmála setji nánari reglur um meðferð máls í þessu efni. En væntanlega yrði framkvæmdin sú, að það væri tiltekinn ákveðinn tími á örfáum dögum, kannske aðeins einum degi, þar sem kjör færi fram.

Það er auðsætt, að í þessu frv. er lagt til að rýmka að verulegu leyti um aðstöðu til atkvgr. fyrir þá, sem vegna sjúkdóma, líkamlegrar bæklunar eða ella þurfa að dveljast í sjúkrahúsum eða á dvalarheimilum aldraðra, þegar um kosningar er að ræða. Það er að hyggju okkar í allshn., að með skynsamlegri framkvæmd verði að ætla, að eigi verði með þessu farið yfir eðlileg mörk í sambandi við utankjörfundarkjör. En eins og hv. þm. í þessari hv. d. vita að sjálfsögðu, hefur oft verið hugað að rýmkun ákvæða í sambandi við utankjörfundarkjör. Einkum var það áður og fyrr meir, jafnvel þegar kjör mátti fara fram á einstökum heimilum, eins og mun hafa verið og þótti allt of langt gengið. Stjórnmálamenn hafa ævinlega verið haldnir nokkrum ótta við það, ef farið væri mjög rúmt í slíka atkvgr., því að vissulega má misnota hluti, ekkert síður góða heldur en hina, sem eru af lakara taginu. En hvað um það, þá er hér um mikið hagræði að ræða fyrir þann hluta kjósenda, sem nýtur góðs af. Verður að vænta þess, að vel fari um framkvæmd í þessu efni.

Þá vil ég rétt geta þess, að brtt. liggur fyrir frá hv. þm. Oddi Ólafssyni um að bæta inn sem kjörstöðum öryrkjastofnunum. Í ræðu, sem hann flutti, þegar hann lagði þessa brtt. fram, taldi hann sig flytja hana til öryggis, að slíkar stofnanir yrðu ekki útundan, og þess var von og vísa af hans hálfu.

Í allshn. þar sem hv. þm. Oddur Ólafsson á einnig sæti, var þessi brtt. tekin til umr. að sjálfsögðu, og ég held, að ég megi segja, að nm. öllum hafi komið saman um það, að þessar stofnanir heyrðu beint undir hugtakið sjúkrahús, samkv. skilgreiningu þess hugtaks í l. um heilbrigðisþjónustu. Flm. þessarar till. hefur fallist á þá niðurstöðu og taldi af sinni hálfu engin vandkvæði á því, að till. yrði tekin til baka. Ég leyfi mér að segja þetta hér, ég vona, að ég hafi fullt leyfi hv. þm. til þess.

Að lokum vil ég svo aðeins geta þess, sem ljóst má vera, að allshn. hefur af sinni hálfu samþ. að mæla með framgangi þessa máls.