06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2531 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur nú gert grein fyrir þessu frv. í stuttri ræðu, þó að hér sé farið inn á nýtt svið, eins og hann drap réttilega á, og sagði sig vera í hópi þeirra manna, er varlega vildu fara í því efni að láta ákveðinn hóp taka á sig almenna byrði. Vænti ég, að hann muni standa við þau orð, vegna þess að hér er fitjað upp á nýju atriði í sameiginlegri lausn, sem rekstrarvandræði togaraflotans eru.

Það þarf ekki að gera hv. þm. grein fyrir því, ég vænti þess, að þeim sé það kunnugt, að sjávarútvegurinn hefur lagt á sig í marga áratugi, held ég, kvaðir, sameiginlegar kvaðir, þannig að menn hafa borið hver eftir sinni getu. En jafnvel þó að bátar hafi haft erfiðan rekstur, hefur verið tekið af öllum þeirra afurðum eilítil prósenta og lagt í sameiginlegan sjóð, aflatryggingasjóð og aðra sjóði, sem hinir hafa auðvitað lagt meira í, sem hafa aflað betur, og þannig fært á milli. Nú er þetta samkomulag eða þessi venja, réttara sagt brotin. Við allmargir í hópi útvegsmanna mótmæltum þessu nýmæli mjög ákveðið. En það var kokkað á öðrum stöðum og vildi helst enginn gangast við faðerninu á þessu fyrirkomulagi, þegar á reyndi. Það kom greinilega fram á fundinum, sem fjallaði um málið, að enginn vildi bera ábyrgð á þessum óskapnaði, sem vonlegt er. Við lögðum til. útgerðarmenn, að hinu gamla kerfi yrði haldið um sameiginlegar byrðar og við tækjum okkar stóra skerf í því, en það væri ekki fitjað upp á nýju formi. Um það stóð ágreiningurinn. Og ég held, að ég geti sagt það frá sjónarmiði þeirra manna, sem deildu um þetta fyrirkomulag, að þeir voru allir tilbúnir að taka á sig ákveðnar kvaðir, en brjóta samt ekki þá grundvallarreglu, sem hefur hér gilt um árabil, þ.e. að hafa þetta sameiginlegt af heildarflotanum heldur en láta 1500 sjómenn taka á sig svo stórar kvaðir sem hér er um að ræða, því að það er óneitanlega gert af 80–90 útgerðarfyrirtækjum.

Það er alveg út í hött, og það get ég eytt löngum tíma í að tala hér um, — það er alveg út í hött að segja, að loðna hafi hækkað gífurlega mikið í prósentum talið og ef það hefði ekki verið fallist á þetta samkomulag, þá hefði allt runnið í Verðjöfnunarsjóð. Í fyrsta lagi deildi hæstv. sjútvrh. mjög á það, þegar viðreisnarstjórnin stofnaði sjóðinn, og fann honum allt til foráttu. Er hægt að fletta því upp og lesa það upp, ef menn vilja standa hér í umr. í nokkra klukkutíma.

Það liggur nú fyrir skjalfest, og geta hv. þm. flett því upp í skjölum á borðunum hjá sér, vegna þess að víð höfum fengið Hagtíðindin núna, og þá kemur í ljós, að verðlagningin á loðnunni í fyrra var útgerðinni feikilega óhagstæð, svo að ekki sé meira sagt, og annað eins hefur líklega aldrei átt sér stað áður á Íslandi, svo að það er ósanngjarnt að taka mið af því, að loðnan hafi hækkað núna um 60–80%, eða jafnvel upp í 100%, eins og er um frystu loðnuna. í fyrra var um tilraun að ræða. Okkur var sagt að byrja varlega og því heitið að hafa ekki mið af því síðar meir. En nú er það lokað, svo að það er alger þversögn í því efni. Hins vegar kom það fram í fyrra, að verðlag á loðnu var 1.96 kr. framan af vertíð, miðað við það verð, sem mjöl hafði selst á og lýsi, síðan lækkaði það niður í 1.76, en þá hækkaði mjölið verulega. En sjómenn og útvegsmenn fengu ekki verðhækkunina. Það voru aðrir, sem stungu henni á sig. Það var ekki einu sinni Verðjöfnunarsjóður, sem stakk henni á sig að verulegu leyti, heldur verksmiðjurnar. Þær munu hafa haft margar hverjar a.m.k. á aðra krónu frítt út úr kg, þegar útgerðin og báturinn fengu innan við krónu brúttó, og sjómenn taka helming af brúttóafla eftir þessum skiptakjörum.

Nú skeði það aftur um daginn, að verð lækkar á almennum markaði. Þó að sölur hafi ekki farið fram héðan, þá segja verksmiðjurnar upp verðinu og hópa: Eldur, eldur, allt sé að fara í kaldakol. Og þær knýja fram verulega verðlækkun þrátt fyrir stóraukinn rekstrarkostnað við öflun. Og það er barið í gegn. Þannig stendur dæmið núna. Afkoma bátaflotans er allt önnur en þegar þetta var til umr. á sínum tíma um áramót.

Ég og margir fleiri, sem vorum á þessum fundi, marglögðum til, að við fengjum tækifæri til þess að leggja sjálfir eitthvað til hliðar til þess að mæta óvæntum áföllum, það yrði aldrei skipt öllu upp. Það náðist ekki fram. Því miður er afkoma togaraflotans mjög léleg. Ég vil skjóta hér inn spurningu til hæstv. ráðh., að hann upplýsi okkur eitthvað um störf svonefndrar togaranefndar. Hann hefur sérstakan mann í sinni þjónustu, sem er kallaður sérfræðingur í útgerðarmálum, og hann hefur starfað nú undanfarnar vikur og sérstaklega fengist við það, að mér er tjáð, að rannsaka afkomu togaraflotans. Ég vil fá að vita eftir svona margra vikna athugun, hvernig sú staða er í dag. Mér hefur borist í hendur löng grg. um afkomu norska togaraflotans, sem ég hef hér á borðinu og ætla ekki að fara að lesa uppúr núna eða standa í endalausu málaþrasi. En það væri gaman að gera samanburð á afkomu íslenska togaraflotans og norska togaraflotans, ef maður fengi þessi gögn í hendur hér á Íslandi. Fyrst við erum að fást við vandamál togaraflotans í þessu frv. og jafnvel á fleiri sviðum, þá á að leggja vandamálið á borðið. Ég veit það og man það, að hæstv, ráðh. var ekkert hrifinn af því á sínum tíma, þegar helmingaskiptastjórnin tók upp 5 þús. kr. skattinn á bíla til að leysa rekstrarvandræði togaraflotans. Það var ekkert gert í því að leysa vandann sjálfan, heldur bara sagt: Gerðu svo vel, hér eru peningar. — Ég trúi því ekki, að hann ætlist til þess í dag, að það sé lagður ákveðinn skattur og sagt: Gerið svo vel. togaraútgerðarmenn, hér eru peningar, haldið áfram. — Það leysir vandann í augnablikinu. Við verðum að vita, í hverju vandinn er fólginn. Ég trúi ekki öðru en hann hugsi eins og hann gerði fyrir 20 árum í þessu efni.

Hæstv. ráðh. felldi úr gildi 11% kvöðina, sem fiskkaupendur áttu á herðum sér frá viðreisn, og rétti að fiskkaupendum á sínum tíma. Ef þessi 11% hefðu verið í dag, stæði íslenska togaraútgerðin mun betur að vígi. Það hefur margsinnis komið fram, að frystihúsin segjast hafa það góða afkomu, þau segja það frjáls og óþvinguð flest hver, að þau hafi það góða afkomu, að þau geti fært á milli frá fiskvinnslunni yfir í öflunina til togaranna. Þetta þýðir það auðvitað, að sjómennirnir, sem eru á togurunum, hafa minna úr býtum en þeim ber og náttúrlega útgerðin líka á þessum minni togurum, — ég tala nú fyrst og fremst um þá, þeir eru miklu fleiri, þeir eru með nokkurn veginn helmingsskipti.

Það er deilt núna um kjörin á þessum skipum, og sumir segja, að hásetinn hafi of góðar tekjur. Ég held nú, að hann vinni fyrir sínu þarna um borð. Hins vegar get ég fallist á, að það séu rök fyrir því að taka ákveðna prósentu, eins og 3% eða 5% af brúttóafla, í svokallað tækjagjald, eins og sumir hafa nefnt, og draga það frá óskiptu. Það kemur bæði hásetum til góða og útgerðinni sjálfri og mundi nokkuð létta á vissum þætti, þegar í þessi skip er komið mjög mikið af tækjum til að létta vinnu og betri vinnuaðstaða hefur verið fengin, sem kostar auðvitað stóraukið fjármagn. En um þetta er ekki samkomulag.

Því miður þarf að snúast við þessum vanda mjög skarplega, því að hann er mikill, en hér er verið að leysa vanda til bráðabirgða, — eingöngu til bráðabirgða. Það kemur ekkert fram, hvað á að gerast um mitt ár. Það er aðeins verið að leysa vandann til bráðabirgða, og það liggur ekkert fyrir, nema það komi í ljós í þessari umræddu skýrslu, sem er verið að biðja um upplýsingar úr, að fundin sé lausnin. Og þá hefði ég viljað fá þá skýrslu, a.m.k. í n. alveg hiklaust. Það liggur líka ekkert fyrir, hvernig þeir bátar, sem hafa stundað síldveiðar í Norðursjó og fiskveiðar fyrir rúman milljarð í fyrra, eiga að mæta því stórhækkaða olíuverði, sem þeir búa við í Danmörku. Við vildum nokkrir gefa þeim færi á að leggja til hliðar af loðnunni eitthvað, svo að þeir gætu sjálfir starfað seinni hluta ársins, mennirnir, sem afla peninganna, bæði skipshöfnin og útgerðin. En það náðist ekki aldeilis samkomulag um það. Slík fyrirhyggja var ekki hátt skrifuð. En ætli það gæti ekki komið einhverjum að gagni, að sá floti væri starfandi, þrátt fyrir að hann hafi misjafna afkomu. Og það er alveg eins á loðnunni.

Ef við lítum á loðnuaflann í dag, — og því miður lítur út fyrir, að loðnan sé að fjara út og við náum kannske ekki nema 400 þús. tonnum, við náðum 440 þús. tonnum í fyrra á 92 báta, en nú eru komnir 136 bátar, sem afla svipað magn, — þá sjá auðvitað allir í sjónhending, að kostnaðurinn við það er gerólíkur. Það eru enn aðeins rúmlega 90 bátar af þessum fjölda, sem hafa náð 1000 tonnum og meira, þ.e.a.s. um 40 bátar hafa fiskað fyrir um 4 millj. kr., og þó hafa margir lagt í kostnað 3–6 millj. til þess að útbúa sig á loðnuna. Og það eru hin óheillavænlegu áhrif, sem hæstv. ráðh. drap á, að þessi hugsanlegi gróði í loðnunni setti þjóðfélagið úr jafnvægi, bæði suma minni báta og útvegsmenn og ýmsa aðra. Efnahagsstofnunin og ýmsir spekingar og ríkisstj. sáu, að þessi mikli afli setti allt þjóðfélagið úr jafnvægi, og það varð að koma einhvern veginn í veg fyrir það. Féð mátti ekki fara inn í Verðjöfnunarsjóð, það varð að fara í olíuna til að hjálpa annarri starfsgrein. Það varð samkomulag um það. Ég veit nú alveg, hvernig það samkomulag átti sér stað. Mönnum var stillt upp við vegg og sagt: Annaðhvort þetta eða ekkert, hreinar línur með það. — Og þeir gátu ekkert annað en tekið við því, þeir menn, sem hér áttu beinan hlut að máli. Það var ekkert val um annað. Spurningin var aðeins, hve há prósentan átti að vera. Þegar menn eiga ekki kost á neinu öðru, þá auðvitað taka þeir við því til að halda skipum sínum gangandi. En fulltrúi togaramanna margtók fram að þetta væri nauðvörn og það væri leiðinlegt að þurfa að taka við þessu. Hann margtók það fram. Hann margundirstrikaði það líka, að þess væri að vænta, að þeir gætu einhvern tíma skilað þessu til baka, sem ég auðvitað geng út frá og aðrir, að það verði aldrei bægt.

Nú er ekki aðeins, að þessar álögur hvíli á loðnunni. Loðnan hefur verið látin bera miklu miklu meiri byrðar en þetta í ýmsu öðru formi, sem menn hafa ekkert kvartað undan. En það er ekki hægt að halda svona áfram, það er það, sem ég vil undirstrika. Það er ekki hægt annað en ráðast að þeim vanda, sem fyrir er hjá togaraútgerðinni og annarri útgerð, og finna lausn á honum. Ég vil taka þátt í því. Ég ræddi það hér í fyrra, þegar við vorum að breyta úflutningsgjaldi á sjávarafurðum, að ég væri til viðtals um að meta það, með hvaða hætti við gætum breytt l. um Verðjöfnunarsjóðinn, svo að hann verkaði og hjálpaði einmitt í þessum tilfellum, einmitt þegar eitthvað svona óvænt ætti sér stað, alveg sérstakt, því að það er engin ástæða til þess að safna svona miklu fé í hann og láta það rýrna í höndunum á okkur. Það er engin ástæða til þess, þó að hluti hans hafi verið verðtryggður. Það eru alveg rök fyrir því, að hann hjálpi núna um 100—200 millj. í þessu sénstaka tilfelli varðandi olíuna. Og það skyldi nú aldrei vera, að lausnin lægi þannig um mitt ár að taka úr Verðjöfnunarsjóðnum þá með brbl. Ég kem í fljótu bragði ekki auga á neitt annað. Þá væri gott, að þingið hefði samþykkt svona óvenjuleg vinnubrögð, og þá geta þm. raunverulega ekkert sagt í framtíðinni.

Þegar ég lít nú hér til hægri og sé formann Sjálfstfl., hvað ætlar hann að segja í framtíðinni varðandi svona vinnubrögð? Flokkur hans, hefur það á stefnuskrá sinni, að menn fái að starfa eðlilega og heilbrigt í þjóðfélaginu. Ef hann fellst á svona hugmyndir, sem eru gersamlega á móti hans grundvallarstefnuskráratriði nr. eitt, ja, guð hjálpi mönnunum, — ég segi nú ekki meira. (Gripið fram í.) Já, ekki veitir af.

Nei, það, sem við margir vildum, var, að það gamla trygga kerfi, sem við höfum haft í þessi erfiðleikaár, fái að njóta sín á þessu sviði eins og öðrum. Við teljum ekkert eftir okkur að taka á okkur eðlilegar kvaðir, en við erum á móti því, hvort sem hér er um að ræða loðnu eða eitthvað annað, að ákveðinn hópur manna taki á sig slíkar almennar byrðar. Það er ekki þeirra hlutverk. Við getum farið út í aðrar stafsgreinar, við getum sagt: Uppmælingamennirnir í Breiðholti, eiga þeir að fara að borga núna vélstjórunum hér í vélsmiðjunum, sem vantar mörg hundruð manns í? Hvernig haldið þið, að menn tækju því? Það er alveg hliðstætt. Þegar þenslan er svona gífurleg í byggingabransanum, eru þeir á tvöföldu og þreföldu kaupi, og því ekki að taka þann óvænta gróða og flytja hann yfir í vélsmiðjurnar? Það er upplýst um áramótin, að það vanti nærri 300 menn í vélsmiðjurnar, og tugir skipa hafa farið nú á hálfu ári til þjónustu erlendis, af því að við höfum ekki menn í þessari grein. Hví ekki að borga þessum mönnum 350 kr. á tímann eins og iðnaðarmönnum í byggingariðnaði og leysa vandann þannig. Við verðum að gá að því, út í hvað við erum að fara með þessu kerfi.

Svo er annað í þessu efni, það er lánaþátturinn. Þeir bátar, sem standa að þessari hjálp núna, voru þessir viðreisnarkoppar, sem fengu hér orð í eyra fyrir úrelt fyrirkomulag og hvað annað. Nú eru þeir góðir. Þeir fengu verri lánakjör. Það var brotist um hér á hæl og hnakka, hvað við hefðum staðið illa að málunum á sínum tíma við endurnýjun flotans og mörg þung orð sögð í okkar garð í því efni. Nú er þetta eini flotinn, sem virkilega bjargar sér og bjargar sér það vel. að rósin hjá ríkisstj. fölnar, ef hann kemur ekki upp að hliðinni og gefur henni lífsneistann. Þessi stóri, myndarlegi togarafloti á fullkomlega tilverurétt, og ef einhver vill snúa út úr orðum mínum þannig, að ég öfundist yfir því, að hann skuli vera kominn, þá er það alger misskilningur. Það eina, sem ég get sagt og skal standa við, er að ég tel, að svona stór kaup á svona stuttum tíma hefðu mátt dreifast á eitt ár í viðbót. Það tel ég, að hefði verið skynsamlegt, vegna þess að það fylgja þessu slíkir vaxtarverkir sums staðar, að það skapar mönnum aukin vandkvæði. Móttakan var ekki fyrir hendi, hafnaraðstaða var ekki fyrir hendi, ýmislegt annað var ekki fyrir hendi, því miður, og þetta hafði það í för með sér, að ýmsir hlutir þróuðust ekki eðlilega. En endurnýjunin var auðvitað alveg sjálfsögð, það stóðu allir að því og þ,jóðin í heild fagnar því. Spurningin var aðeins, hve ört við áttum að kaupa skipin. Hitt er, að þegar við sjáum verðbólguna í dag út um allan heim, hve hún er mikil, þá megum við vera ánægðir með, að átakið hafi verið svona stórt, því að skipin hefðu annars hækkað verulega í verði, þannig að það sýnir sig, að það verður léttir í framtíðinni.

Menn hafa sagt, að það sé aldrei hægt að láta nýjan togara bera sig. Það getur vel verið, að nokkuð sé til í því. Ef verðið á aflanum er svo lágt, að ekki megi sýna sómasamlega afkomu í því efni og það eigi að millifæra, láta frystihásin eiga skipin og sjálfstæð togaraútgerð eigi ekki að vera til á íslandi nema sem einn þáttur í starfrækslu frystihússins, þá er þetta vel hugsanlegt. En ég tel, að þannig sé ekki rétt að standa að hlutunum, það megi alveg eins tryggja, að öflunin eigi tilverurétt, eins og vinnslan eða salan.

Nei, þetta samkomulag er til orðið vegna alveg sérstæðra aðstæðna. Það var sagt úr stjórnarráðinu. Ef þið samþykkið ekki ákveðinn skatt, þá rennur hann allur í Verðjöfnunarsjóðinn. Slík tilskipun er náttúrlega forkastanleg út af fyrir sig. Í öðru lagi er hér furðuleg beita í 2. mgr., og maður eiginlega undrast það, að fulltrúar sjómanna skuli vera svo glámskyggnir, að þeim séu réttar 25 millj., en sjálfir taka þeir, ef afli verður það mikill, að þessi heildarskatttala næst fram, raunverulega á sig af sínum launum hátt í 100 millj., — en það er sagt, að þeir fái til baka 25 millj., — því að þeir eiga fjórðung úr öllum afla, heildarverðmætinu, minnst og helming á móti útgerð. Ef útreikningar hagsýslunnar sýna, að 600–800 millj. séu nettó, þegar allir hafa fengið sitt, yrðu þá til ráðstöfunar, þá eru rök fyrir því að segja, að verksmiðjurnar eigi helminginn, útgerðin 1/4 og áhöfnin 1/4 og þessu sé síðan skipt upp að mestu leyti í gegnum útflutningsgjaldið og verðið hækkað nokkuð og 250 —300 millj. fari í olíusjóðinn. En sjómennirnir fá ekkert til baka af olíunni. Hins vegar fær útgerðin til baka og verksmiðjurnar fá til baka. Þess vegna fæ ég þá niðurstöðu, að þeir borga sjálfir fast að 100 millj. úr eigin vasa, en fá á móti 25 millj. Það eru góð viðskipti, og lítur út fyrir, að ríkisstj. sé svo snjöll, að hún hafi líka sannfært launþegana um það nú í nýgerðum kjarasamningum, að það sé um að gera að leyfa henni að innheimta mun meira en nauðsyn sé. En hvort það á eftir að fara gegnum Alþingi, er önnur saga og mun koma brátt í ljós.

Mér skilst, að Sjálfstfl. sé mjög ánægður með þessa breytingu, og ég óska honum til hamingju með að fallast á slíkt bugmyndakerfi eins og hér er boðað. En ég tel, að við séum hér að fara inn á braut, eins og hæstv. ráðh. undirstrikaði, sem sé varhugavert og hann sé í þeim hópi, sem telji það varhugavert og þetta sé að mestu leyti nauðvörn og þess vegna sé þetta gert. Við, sem höfum andmælt þessu á öðrum stað, töldum allt í lagi að leggja ákveðinn skatt á, en vildum hafa formið annað — um það stóð deilan, — hafa hann með sama fyrirkomulagi og við höfum staðið að um margra ára skeið. Ég held, að enginn hafi talið eftir sér í sjálfu sér að taka á sig miklar kvaðir til að halda heildaratvinnulífinu gangandi. Deilan stendur ekki um það, heldur stóð hún um þetta sérstæða form, að binda það eingöngu í þessu formi, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.