06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það voru nokkur orð í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér. Mér fannst hann tala þannig nm málið, að það væri í rauninni engu líkara en hann hefði misskilið það í grundvallaratriðum, sem ég get þó varla ætlað honum eftir að hafa fjallað um þetta mál allítarlega í samtökum útgerðarmanna, þar sem málið var rætt og um það gerð samþykkt.

Mér fannst hv. þm. gera allmikið úr því, að hér væri á ferðinni sérstök skattinnheimta til stuðnings togaraútgerðinni, og hann spurði allmikið um, hvað liði þeirri endurskoðun, sem fram hefði farið á vegum sjútvrn. um afkomu togaraútgerðarinnar, og hann vildi fá þau gögn í hendur, til þess að hann gæti áttað sig þar betur á rekstrarstöðunni. Það er auðvitað mikill misskilningur að telja, að þetta frv. sé á einhvern hátt flutt til þess að leysa rekstrarvandann í togaraútgerð. Hér er um að ræða alla fiskiskipaútgerð landsmanna. Það er rétt, togararnir voru ekki undanskildir. (Gripið fram í.) Ég verð að tala á þennan hátt, sem ég geri, vegna þess að ég hygg, að það hafi kannske fleiri skilið þessi orð á þann hátt, sem ég skildi, og vegna þess þykir mér a.m.k. allur varinn bestur að skýra það, hvernig þetta er í raun og veru. Hér er um það að ræða, að tiltekin fjárhæð, sem áætluð er 225 millj. kr., skuli renna til þess að greiða niður verðið á brennsluolíum til fiskiskipaflotans, einnig til loðnubátanna. Það er vafamál, hvað þeir tapa miklu á þessu, ef það mál er tekið út af fyrir sig. En það er rétt, það þótti engum af þeim, sem þátt tóku í því að gera þetta samkomulag, ástæða til þess að ætla að fella togarana þarna út úr. Auðvitað er þarna um ákveðna tilfærslu fjármuna að ræða. Við vitum, að þorskveiðiflotinn allur, sem gerður er út hér við Suðurland á vetrarvertíð, þorskveiðiflotinn allur, sem gerður er út á Vestfjörðum, Norðurlandi og annars staðar við landið, verður þess arna aðnjótandi, að búa við lægra olíuverð en hann hefði þurft að borga núna á vetrarvertíð til maíloka, ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar. Og það sama má segja um togaraflotann. Það er rétt, hann býr líka við lægra verð en hann hefði þurft að borga fyrir sína olíu á þessum tíma. En það fjármagn, sem hér er um að ræða, þessar 225 millj., sem áætlaðar hafa verið, er tekið af andvirði loðnuframleiðslunnar, og má segja, að það sé tekið sameiginlega af annars vegar útgerðinni og sjómönnum, sem gróft tekið eiga helming andvirðisins, og svo af vinnslunni, verksmiðjunum, hinn helmingurinn. Þessi helmingur, sem er í eigu sjómanna og útgerðarmanna, rennur síðan til fiskiskipanna. Það er mikill misskilningur, að þetta renni til verksmiðjanna, vegna þess að þeir einu, sem þarna verða að borga, eru loðnuverksmiðjurnar, því að af þeim er tekin þessi fjárhæð, og þær fá enga niðurgreiðslu af sinni olíu, þó að þær noti mikla ollu. Það var gert ráð fyrir því, að þær yrðu að bera þennan bagga og þær samþykktu það sjálfar, fulltrúar þeirra samþykktu það. Sjómenn stóðu þannig að þessari samningagerð, að þeir töldu fyrir sitt leyti, að það væru engar líkur til þess og í raun og veru engin sanngirni að ætlast til þess, að þeir fengju hærra hráefnisverð en um var samið, svona mikla hækkun frá árinu á undan, eins og ég greindi frá áðan. Þeir töldu því, að þeir hefðu fengið það, sem þeir stefndu að. En það er rétt, þeir slepptu eignarhaldi sínu á því, sem annars hefði farið í Verðjöfnunarsjóðinn, á því, sem þeir eiga í honum sameiginlega, gegn því, að þeir fengju þær 25 millj., sem hér er um að ræða og notaðar eru í þeirra sérstöku þágu.

Hér er sem sagt um þetta að ræða. Vitanlega er það alrangt á allan hátt að tala um, að hér sé verið að gera einhverjar sérstakar aðgerðir til þess að bjarga togaraútgerðinni, því að um það var ekki að ræða. Þeir aðilar, sem voru að ákveða um fiskverð um áramótin, þ.e.a.s. fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna og fulltrúar fiskkaupenda, voru ekki að fjalla sérstaklega um rekstrarmál togaranna, heldur fiskiskipanna almennt, og þá fyrst og fremst bátaflotans.

Ég held, að það sé með öllu óþarfi, a.m.k. á þessum stað, að ætla að bera eitt eða neitt fram um það, að sjómenn hafi samið af sér í þessu tilfelli. Þeir hafa tekið sínar ákvarðanir og samþykktu einróma till. sinna fulltrúa, og ég held, að þeir hafi í þessum efnum gert fyllilega rétt. Þeim var líka ljós sá vandi, sem fyrir lá, að það var ekkert þægilegt fyrir þá, sem eru að semja almennt um hag einnar starfsstéttar, að láta kaupið aðeins til einnar greinar á stuttum tíma þjóta upp og skekkja í rauninni alla mynd, og þeir hlutu að taka talsvert mikið tillit til þess að geta tryggt einnig afkomu umbjóðenda sinna, sem voru að starfa við aðrar greinar. En þeir voru í þessu tilfelli einmitt að ná samkomulagi um það mál. Það er líka rangt að tala um, að í þessu tilfelli sé verið að skattleggja alveg sérstaklega 1500 sjómenn og 80–90 útgerðarfyrirtæki. Það er, eins og ég sagði, í raun og veru ekki hægt að tala um neina skattlagningu á útgerðarfyrirtæki, því að það eru þau, sem fá þessa upphæð. En þessir sjómenn eru líka sömu sjómennirnir, sem verða svo á vetrarvertíðinni, ef svo fer nú t.d., sem hv. þm. greinilega óttast og ég óttast með honum um, að loðnuvertíðin fari að verða búin, þá snúa þessir sömu sjómenn til annarra veiða og starfa fram í maílok og verða að búa að því, sem út úr því rekstrartímabili kemur. Þeir koma því til með að njóta góðs af því, að útgerð geti einnig gengið á þeim tíma.

Mér fannst líka það, sem hv. þm. sagði hér varðandi verðlagsmálin, bæði fyrr og síðar, gefa alranga mynd af því, sem er í þeim efnum og ég tel nauðsynlegt, að allir hv. þdm. átti sig á. Það er vitanlega alrangt að tala um það, að ríkisvaldið hafi ákveðið þetta eða hitt verðlag í sambandi við sjávaraflann og ríkisvaldið hafi stillt mönnum upp við vegg í þessum tilfellum. Það er út í bláinn sagt. Hér eru ákveðin lög um það, hvernig fiskverð skuli ákveðið hverju sinni, og þar mætast fulltrúar frá seljendum og kaupendum. Annars vegar við borðið eru í þessum tilfellum fulltrúar útgerðarmanna og sjómanna, sem eru að selja fiskinn. Hins vegar eru svo fulltrúar fiskverkunarfyrirtækjanna, sem eru að kaupa fiskinn, og samkvæmt lögum hafa þessir aðilar rétt til þess að semja um fiskverðið. Þegar þeir koma sér ekki saman, tilnefna þeir ákveðna oddamenn, tilnefna þeir menn frá sinni hálfu, og það er mynduð yfirnefnd með einum oddamanni, sem er ákveðinn embættismaður. Og bæði í fyrra og nú liggur það fyrir, að þessir aðilar koma sér saman, fyrst kaupendurnir samþykkja verðið, fyrst seljendurnir samþykkja verðið. Þetta er verð, sem þeir hafa ákveðið, og fulltrúi hv. 5. þm. Reykn., sem jafnframt er útgerðarmaður, hefur auðvitað ekki við neinn að sakast um það fiskverð, sem ákveðið hefur veríð í þessum efnum, nema þá fulltrúa sína við þetta samningaborð. Þegar útgerðarmennirnir velja ákveðna menn til þess að semja um fiskverð og hafi þeir gert um það samkomulag, þá er það vitanlega þeirra og þeim dettur ekki í hug að skjóta sér undan því og segja, að einhver ytri máttarvöld hafi sagt þeim fyrir verkum, þar sem þeir hafa lögin með sér. Þeir hafa gert ákveðið samkomulag.

Varðandi svo þessa sérstöku ráðstöfun, þar sem þetta gjald var lagt á og þessi millifærsla gerð, þá er málið þannig, að það mun vera rétt, að frá oddamanni hafi þessi hugmynd upphaflega komið fram. En það eru fulltrúar seljanda og kaupenda, sem gera með sér þetta samkomulag og óska eftir því við ríkisvaldið, að þetta samkomulag fái lagagildi. Það er þannig, sem að þessu er staðið. Hér er því aðeins um það að ræða, hvort Alþ. vill fallast á það, eins og áður hefur verið gert, að lögbinda samkomulag, sem þessir aðilar hafa gert sín á milli.

Ég veit vel um það, að hv. 5. þm. Reykn. var í sínum samtökum á móti þessu. En hann stóð frammi fyrir því, að mikill meiri hluti útvegsmanna í þessum samtökum vildi hafa samkomulagið og samþykkti það, staðfesti það á fundum sínum. Hitt er svo allt annað mál, að það geta verið skiptar skoðanir um, hvað langt á að ganga í þeim efnum að láta fjármuni frá einni starfsgrein renna til annarrar. Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun, að það beri að fara varlega í þeim efnum, mjög varlega.

Það, sem gerðist í þessum efnum, tel ég ekki mikið, vegna þess að það er alveg augljóst, að öll sú upphæð, sem hér ber á milli og á að nota til þess að greiða fyrir olíuna, hefði annars runnið í Verðjöfnunarsjóð, einfaldlega af því, að þó að þessi upphæð væri tekin, þá er samt látið renna allmikið af verðmætinu í Verðjöfnunarsjóð. Það datt nefnilega afskaplega fáum í hug og a.m.k. engum í verðlagsnefnd, ekki heldur í yfirnefndinni, að hægt væri að ákveða verðið á loðnunni öllu hærra en gert var. Það er svo mál út af fyrir sig, eins og vill verða, að fulltrúar verksmiðjueigenda samþykktu það verð, sem ákveðið var á loðnunni. Þeir samþykktu það eins og fleiri, að vísu út frá þeim forsendum, sem þá var vitað um, þeim upplýsingum, sem þá lágu fyrir um væntanlegt söluverð á afurðunum. En vegna þess að það var ekki búið að selja nema litið magn fyrir fram af framleiðslunni, gerðu þeir þann fyrirvara, sem seljendurnir, fulltrúar útgerðarmanna og sjómanna, samþykktu líka, þeir gerðu þann fyrirvara, að þeir mættu á loðnuvertíðinni segja upp verðinu og taka það til endurskoðunar, ef kringumstæður hefðu breyst. Þetta var líka í þeirra samkomulagi. Og þegar málin stóðu þannig að það leit út fyrir, eins og lítur út fyrir í dag, að verð á loðnumjöll geti lækkað allmikið, þá væntanlega notfærðu fulltrúar verksmiðjanna sér þetta ákvæði og kröfðust þess, að endurskoðun færi fram, og verðið var lækkað nokkuð. Ég er þeirrar skoðunar, að bæði útgerðarmenn og sjómenn megi mjög vel við una það loðnuverð, sem ákveðið hefur verið, og ég skal segja það alveg hiklaust, að ég skil mætavel. að verksmiðjueigendur séu ekki alls kostar rólegir að kaupa loðnuna á því verði, sem er í dag. Mér finnst því ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum, þó að verðið hafi lækkað á þann hátt, sem það gerði núna, enda vildu auðvitað verksmiðjueigendur ekki samþykkja þetta nú. Nú varð að koma til úrskurður oddamanns með fulltrúum seljenda til þess að ákveða verðið á þann hátt, sem gert var, því að verksmiðjueigendur töldu, að verðið ætti að lækka miklu meira.

Það er sem sagt alger misskilningur, að af hálfu ríkisstj. þá hafi verið beitt nokkrum þvingunum í sambandi við það samkomulag, sem gert var í þessum efnum, og það er enginn vafi á því, að ekkert slíkt hefði verið gert í þessu tilfelli eins og að leggja þetta sérstaka útflutningsgjald á loðnuafurðirnar og greiða niður verð á olíu, ef fulltrúar þeirra, sem mættu þarna að samningaborðinu og áttu þetta fé, hefðu ekki komið sér saman um það.

Varðandi það, sem hv. þm. minntist hér á um þær athuganir, sem fram hafa farið varðandi rekstur togaranna, þá get ég upplýst, að þessi athugun er komin mjög langt áleiðis og ég býst við því, að skýrsla um þessa athugun liggi fyrir næstu daga og þá er sjálfsagt að veita allar upplýsingar um þær niðurstöður, sem þar koma fram. Þessar niðurstöður hef ég ekki fengið enn, en ég hygg þó, og þar miða ég við þær athuganir, sem áður hafa verið gerðar, að í ljós muni koma, að það sé ekki hægt að tala um sérstaklega mikinn hallarekstur t.d. hjá minni skuttogurunum borið saman við önnur okkar fiskiskip eftir þær fiskverðsbreytingar, sem nú hafa verið ákveðnar, og miðað við þau rekstrargjöld, sem nú eru. Það er þó hætt við því að þessi skip hafi ekki svo góða rekstrarafkomu, að reksturinn standi að fullu undir afskriftum. Það er mjög hætt við því, að þar vanti eitthvað upp á, eins og er mjög algengt með ný fiskiskip okkar, þar sem er um toppverðlag að ræða. Hins vegar eru allmiklar líkur á því, að afkoma stærri togaranna sé miklu lakari og þar verði ekki undan því vikist nú frekar en verið hefur undanfarin ár, að þar komi til einhver almenn aðstoð ríkisvaldsins. En hún getur vitanlega aldrei orðið í því formi að ætla þeim einum einhverja niðurgreiðslu á olíu, sem tekin verði með fjármunum frá einhverjum öðrum starfsgreinum. Um það er ekki að ræða. En hitt hefði mér fundist óeðlilegt, að niðurgreiðsla á olíunni núna, sem gerð var með þessum hætti, hefði ekki komið togurunum til góða eins og bátaflotanum. Það voru engar ástæður til að skilja þá sérstaklega frá í þessu tilfelli, enda fer ekki nema minni hlutinn af þessum greiðslum beint til þeirra.

Ég skal svo ekki ræða þetta frekar. Ég veit, að hv. 5. þm. Reykn. er í eðli sínu á móti því að gera millifærslur af þessari tegund, sem hér er um að ræða, og ég deili ekki á hann fyrir það. Ég veit það líka, að hann er á þeirri skoðun, að loðnuskipin hefðu átt að njóta alls þessa verðs, annaðhvort í enn hækkuðu verði á loðnunni til skipanna eða þá til þess að safna fyrir í Verðjöfnunarsjóðinn enn meira en gert er. Það er mál út af fyrir sig. Ég hygg, að loðnuskipin hefðu ekki komið miklu betur út, ef þau hefðu þurft að borga sitt fulla olíuverð, þrátt fyrir þetta. Það er rétt, að kaup sjómanna á loðnuveiðum hefði orðið enn hærra, ef þetta hefði verið sett út í verðið, og tildrátturinn í sambandi við útgerðarreksturinn í landinu hefði orðið enn meiri en hann hefur orðið nú og ábyggilega engum til hagsbóta, þegar litið er á málið frá hærri sjónarhól. Ég vil ætla, að árangurinn um þetta, einnig við hv. þm., sé ekki mikill í rauninni og það geti skapast um þetta mál í þessari deild eins og í Nd. góð samstaða úr öllum flokkum.