06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég hélt, að það hefði ekki farið fram hjá neinum, að í sambandi við dæmið, hvernig ég fyndi út, hvað sjómenn bæru, tók ég fram, að auðvitað renna peningarnir til skipanna aftur. Þess vegna má meta það á þann veg, sem ég gerði, hvernig þáttur sjómanna væri í þessari greiðslu. Ég undirstrikaði ekki sérstaklega, vegna þess að það kemur svo skýrt fram í frv., að það er að greiða niður verð á brennsluolíu til íslenskra fiskiskipa“, svo að það var ekki um neinu misskilning að ræða hjá mér, að þetta væru bara togararnir. Það, sem ég var að benda á eða ætlaði að reyna að benda á, var það, að togararnir tækju sjálfir ekki neinn þátt í þessu, ekki einu sinni þeir, sem sigla, þó að þeir selji fyrir fjórfalt hærra verð en gildir á íslandi. Það er ekki einu sinni, að það sé lögð nein kvöð á þá. Það, sem við undirstrikuðum nokkrir, var að halda þessu gamla kerfi okkar, að allir tækju þátt í hjálpinni, hver eftir sinni getu, þeir mest, sem afla mest. En jafnvel litli báturinn er látinn taka á sig kvöð í sambandi við vátryggingarkerfið með útflutningsgjöldum. Það var þetta, sem við vildum. Ágreiningurinn stóð um þetta. Það veit ég, að hæstv. ráðh. er kunnugt um. Með þessu móti, að leggja þetta einhliða á aðeins einn þátt, bara loðnuna, þá er það hún, sem ber það. En bátarnir, sem stunda loðnuna, fara síðan á net. Þeir fá sína olíu niðurgreidda. Það hefur engum manni dottið annað í hug, enda skýrt tekið fram í frv. En togararnir fá hana líka niðurgreidda, þó að þeir komi hvergi nærri. Sumir segja: Þeir eru ekki aflögufærir út af fyrir sig. En þeir, sem eru að sigla og fá fjórfalt hærra verð, þurfa þeir á öllu þessu að halda og hrekkur það ekki til? Það mætti kannske upplýsa alþjóð um það og fá að vita, hver ávinningurinn er í þessum siglingaferðum. Ég dreg í efa persónulega, að það sé nokkurt vit í því að láta báta sigla með 30–50 tonn að haustlagi og fram yfir áramót. Ég tel þetta persónulega, bæði vegna áhættu og tímalengdar. Einhvern tíma hefði slíkt verið bannað, bara frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Nei, hér er verið að staðfesta samkomulag, sem var mótað með þeim hætti, að enginn vildi gangast við faðerninu. Það er staðreynd. Og hvers vegna? Vegna þess, að það var ákveðinn þrýstingur frá yfirvöldunum. Þrátt fyrir lög um verðákvörðun á sjávarafurðum er ákveðinn þrýstingur um að hafa þetta innan viss ramma. Það var fundin út ákveðin prósentuhækkun á bolfiski. Það var líka höfð hliðsjón af, hvað loðnan mætti hækka til skipa, svo að það setti ekki allt kerfið úr jafnvægi. Þetta vita menn.

Fór hæstv. ráðh. niður í Verðlagsráð bara til að fá sér kaffi hjá mönnunum, meðan þeir sátu á löngum og erfiðum fundum? Nei, hann talar við mennina þar, og það er allt í lagi út af fyrir sig. Hann segir þeim sínar skoðanir, en svo auðvitað ákveða þeir verðið samkv. l., en hann beitir áhrifum sínum, eins og eðlilegt er frá sjónarmiði ríkisstj., til að hafa hemil á hlutunum. Það er langbest að viðurkenna það hreinlega, en ekki vera að ásaka okkur tvo aðra þm. fyrir dylgjur í þessu efni. Það er verið að staðfesta ákveðið samkomulag, sem varð til undir vissum áhrifum frá ríkisvaldinu. Það eru alveg hreinar línur og hægt að leiða menn til vitnis um það á öðrum stað, ef á þarf að halda.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það kemur fram í þingtíðindum í dálki 1821, ræðu hans í Nd., að hann segir, að það verði athugað rækilega, að hvað miklu leyti útgerðin geti síðar staðið undir olíuverði án þess að raska afkomugrundvellinum, það hefði aldrei verið lofað að hafa óbreytt olíuverð út árið, enda ekki hægt með þessari skattgerð. Það hefur enginn maður sagt það. En það, sem hefur verið gefið fyrirheit um, er, að hliðstæður rekstrargrundvöllur sé tryggður síðari hluta ársins og um var samið núna. Ég er auðvitað þakklátur fyrir það, og það eru allir menn í þessum atvinnugreinum þakklátir fyrir það, að ríkisstj. mun leitast við að gera slíkt. En við spyrjum í stjórnarandstöðunni: Með hvaða hætti? Ég lét mér detta það í hug, að það yrði gert á þann veg, þegar allt um þryti, að grípa til Verðjöfnunarsjóðsins og láta hann þá borga. Ég taldi í fyrra skiptið, sem ég talaði hér, að vel hefði mátt athuga þá leið strax og gera það upp við sig, hvernig við gætum staðið að breiðari lausn. Ég talaði líka um það hér fyrir rúmu ári, þegar við vorum þá að fjalla um útflutningsgjöldin til þess að færa á milli atvinnugreinanna, vegna þess að við eigum alltaf von á þessum sveiflum, og þá er skynsamlegt að vera við því búinn að geta lagt til hliðar í góðærinu og dregið svo úr þeim fyrningum, þegar hallar undan fæti aftur. Ég held, að allir hv. alþm. ættu að vera sammála um slíkt,

en ekki eyða öllu fé í verðþenslu. Það er þetta, sem ég deili á.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það er ekki mikill munur á okkar skoðun í því að við viljum leggja á kvaðir. Það er framkvæmdaatriðið í þessu tilfelli, sem ágreiningurinn stendur um. En ég sætti míg ekki við þennan hátt í þessu einstaka tilfelli og við allmargir, sem stöndum í þessum atvinnurekstri. Einhver kann að segja, að hér sé um feikilega einkahagsmuni að ræða og jafnvel að hv. þm. mættu ekki fjalla um það. Það væri þá ekkert síður, þegar fulltrúar bænda, bændur á hv. þingi, fjalla um mál þeirrar stéttar, þá eru þeir að fjalla um sín mál. Það er almennt til hagsbóta í þjóðfélaginu, bæði til lands og sjávar, að árferði sé tryggt eða afkoma þeirra, sem við þá atvinnuvegi, starfa, sem jöfnust.

Ég þarf ekki að tefja tímann miklu lengur um þetta. Sjálfsagt fer þetta í gegn. En ég get ekki fallist á frv., eins og það er. Það er sjálfsagt tilgangslaust að vera að koma með brtt. um, að málið sé athugað á breiðari grundvelli. En miklu geðþekkara væri mér að gera það og fást við þann vanda á breiðari grundvelli, sem við eigum við að etja núna í sjávarútveginum, vegna þess að við höfum orðið að sæta mjög háu olíuverði. Við höfum orðið að sæta mikilli verðbólgu, bæi hér heima og erlendis, sem við getum ekki flutt út aftur. Þess vegna kann að fara svo síðari hluta ársins, að aðalatvinnugreinin, sem er nú að verða, rekstur togaranna, eigi í erfiðleikum, og slíkt má ekki henda. Það má ekki henda þessi stóru og miklu aflaskip, slíkir bjargvættir sem þau eru víða um land, að þau séu bundin við bryggju. Því miður hefur það hent, að vissar n. hafa orðið að sitja hér í hliðargöngum Alþingis og ræða við þm. um skyndiráðstafanir til að halda togurunum gangandi og beðið um allstórar upphæðir, svo að nemur millj. fyrir suma staði. Þetta er vandamál, sem Alþingi á að fylgjast vel með og jafnvel þjóðin öll, því að það á ekkert að vera að dylja það, hvað hér þarf að gera, svo að þessi atvinnutæki fái að starfa á heilbrigðan og eðlilegan hátt. Það á ekkert að vera að dylja það. Ef einn staður þarf 10 millj., annar 3 millj. og svo einn 20 millj., þá á þjóðin að fá að vita það hreinskilnislega. Það eru líka staðir, sem fá miklu minna og eru ekki einu sinni að biðja um sérstaka styrki, en vilja þó fá heilbrigð og eðlileg lán, til þess að sjávarútvegurinn, sem þar er, geti snúist með eðlilegum bætti og sómasamlega.

Ég hirði ekki um að svara öðru, en ég vildi bara undirstrika það, að ég geri mér grein fyrir, að þetta kemur auðvitað á allan flotann til baka. Það, sem við vildum, svo að ég segi það enn einu sinni, var, að þetta stæði, þetta gjald væri sett á breiðari grundvöll og jafnvel að 100–200 millj. væru tryggðar úr Verðjöfnunarsjóði, ef svo illa tækist til. að aflabrestur yrði á loðnunni. Það veit enginn í upphafi vertíðar, hvað aflamagnið verði, hvernig takist til um mjölverð og lýsis, vegna þess að við höfum nú það fyrirkomulag í útflutningi á mjöli og lýsi, sem ekki gildir í hinum stóru þáttunum, að það er frjáls útflutningur á þessu. Sumir segja, að þetta sé gott, aðrir telja þetta varhugavert, eins og reynsla 2–3 s.l. ára bendir til. Sumar verk smiðjurnar hafa gert góða sölu, aðrar alls enga, og þær hafa ekkert fjármagn. Hér er um svo stóra tölu að ræða, ef illa tekst til, að þá eru þær farnar á hausinn. Það þjónar ekki neinum tilgangi, að mikilvæg atvinnutæki úti um landið séu þannig sett að þær hafa ekki bolmagn til að taka á sig smásveiflur, sem verða í þessu, eða jafnvel miklar sveiflur. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess og það eru margir fleiri, að það verði sett hliðstætt kerfi í mjölsöluna og á sér stað í freðfiski, saltfiski og fleiri greinum, að verksmiðjurnar störfuðu saman að sölumálum og tryggðu sér meira öryggi en gert er með slíkri „spekúlasjón“ eins og reynslan sýnir, að hefur átt sér stað undanfarið.