06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Jón Árnason:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú farið á allmiklu breiðara svið en felst í þessu frv., sem hér er til umr., og segja má, að það sé út af fyrir sig eðlilegt. Þegar við erum að ræða um einhvern þátt í sjávarútveginum, er ekkert óeðlilegt, að fleiri þættir komi inn í heildarmyndina, sem verið er að ræða hverju sinni.

Í sambandi við frv., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það fyrir mitt leyti, að ég tel, að það hafi verið samkomulag um það, sem efnislega felst í þessu frv., á milli sjómanna, útvegsmanna og fiskimjölsverksmiðjueigenda, þeirra aðila, sem hér eiga sérstaklega hagsmuna að gæta. Það er skoðun mín, að það hafi náðst samkomulag um þetta, og ég tel, að það samkomulag, sem náðist, hafi verið rétt að gera, og ég mun fyrir mitt leyti fylgja þessu frv., þegar það kemur til afgreiðslu síðar í þessari deild.

Hitt er svo annað mál, og það er ekkert óeðlilegt, þegar rætt er um þessar ráðstafanir, að þá komi upp í hugum manna nokkrar áhyggjur í sambandi við áframhaldið. Það er mjög skammt eftir af þeim tíma, sem þessar ráðstafanir ná, eða í lok maímánaðar, það eru rúmir 2 mánuðir þangað til. og hvað tekur þá við? Það er ekki óeðlilegt, að það sé farið að hugsa eitthvað um þá erfiðleika, sem þá hljóta að eiga sér stað og verður að sjá fyrir einhverri úrlausn á.

Ég tel, að það sé rétt, sem hér kom fram hjá hæstv. sjútvrh., að verulegur hluti af því verðmæti loðnuaflans, sem fer í þennan olíusjóð, hefði gengið í Verðjöfnunarsjóðinn. Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er tiltölulega nýtt fyrirkomulag hjá okkur Íslendingum til að mæta miklum verðsveiflum í verðlagi. Það er enginn vafi á því, að þó að hér sé ekki um ráðstafanir að ræða, sem eiga að langa reynslu að baki, þá höfum við Íslendingar séð, að við höfum farið þar inn á réttar leiðir á sínum tíma, þegar viðreisnarstjórnin beitti sér fyrir því að koma þessari löggjöf á. Þessar ráðstafanir hafa þegar í dag sannað sitt gildi.

Hitt er svo annað mál, þegar maður fer að hugsa um sjávarútvegsmálin í heild, hvernig staða þeirra er, að það hlýtur að vekja mikinn ugg hjá mönnum, nú þegar búið er að ganga frá kaupgjaldssamningum, sem fela í sér 50–60% hækkun á kaupgjaldi. Fiskverðið var hækkað um 15% nú í byrjun vertíðar. Ýmsar neysluvörur sjávar

útvegsins, svo sem umbúðir, hafa hækkað, og — t.d. olían, sem flestar vinnslustöðvarnar í landi þurfa á að halda, hefur stórhækkað í verði til þeirrar orku, sem vinnslustöðvarnar þurfa á að halda. Allir þessir liðir koma að sjálfsögðu inn í myndina og verður að mæta. Svo kemur til viðbótar, — við skulum vona, að það eigi ekki við rök að styðjast eða að framtíðin beri annað í skauti sér, — að fréttir berast um það frá okkar aðalviðskiptaþjóð, Bandaríkjunum, að fiskflök hafi lækkað um 10 kr. kg nú síðustu vikurnar og stöðvun hafi komist á afhendingu á frystum afurðum, sem liggja í Bandaríkjunum, nú á undanförnum vikum. Þetta allt gefur manni fyllstu ástæðu til þess að vera áhyggjufullur í sambandi við afkomu sjávarútvegsins. Við vitum, að þau vertíðarskil. sem næst eru fram undan, bera ekki í sér neinar vonir um auknar tekjur af því, sem þá tekur við. Við vitum líka, að vetrarvertíðin hefur alltaf verið sá kjarni í heildarúthaldi fiskiskipanna, sem hefur orðið að bera uppi verulegan hluta af heildarkostnaðinum yfir árið, eða a.m.k. hefur orðið að leggja miklu meiri hluta á útgerðar- og fiskvinnslukostnaðinn á vertíðinni heldur en bara sem nemur því tímabili, sem vetrarvertíðin sjálf stendur yfir. Við vitum, að þetta er fyrst og fremst af því, að á vetrarvertíðinni berst meginhluti þess afla — þorskafla sérstaklega, sem aflast á bátaflotann yfir allt árið, og öll úthöld á öðrum árstímum eru veigaminni og miklu minni vonir um góða afkomumöguleika á þeim heldur en yfirleitt hefur verið á vetrarvertíðinni. Ég segi: Þetta eru mál út af fyrir sig, sem ekki koma því máli við, sem við erum að ræða hér í dag, en þetta hefur spunnist inn í umr., og má segja, að sé ekkert óeðlilegt. Það vill oft verða svo, þegar verið er að ræða um einn þátt, að þá eru aðrir skyldir þættir, sem koma inn í myndina um leið.

En ég vil segja í sambandi við það, sem fram kom hjá hv. 5, þm. Reykn. áðan, þegar hann var að tala um fjórfalt hærra verð hjá togurunum en hjá bátunum hér heima, — þeim togurum, sem sigla út, að ég tók eftir því og mér þótti það athyglisvert, sem kom fram í blöðunum nú nýlega. Þar var skýrsla yfir togarana, sem hafa siglt með aflann út að mestu leyti, og svo aðra togara, smærri togarana, 500 tn. togaranna og þar um bil, sem hafa að mestu leyti látið afla sinn á land hér, að það er hvort tveggja, að aflinn var ekki miklu minni hjá þeim, sem bestum árangri hafa náð, eins og einum Ísafjarðartogaranum, sem tilgreindur var, og hann skilaði líka miklu verðmæti. Til viðbótar kemur svo vinnsla á þessum fiski. Ég er alveg sannfærður um, að fyrir þjóðarbúið í heild er tap að þessum siglingum. Það er svo mikið, sem dregst frá, bæði í tollum og löndunarkostnaði erlendis og ýmsum öðrum aukakostnaði, að ég álit, að það ætti að taka til sérstakrar athugunar, hvort það er ekki einmitt þjóðhagslega óhagstætt að halda uppi útgerð á þessum skipum með þeim hætti, sem verið hefur. Mér finnst, að það, sem var upplýst þarna og kom fram í blöðunum nú nýlega, bendi til þess, að við eigum að athuga þessi mál nánar og gera okkur betur grein fyrir því en gert hefur verið, hvort það er ekki meiri hagsýni í því, að verulega meira magn af togaraaflanum verði unnið hér á landi, en ekki sent og selt sem hráefni, eins og hefur verið gert á undanförnum árum.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta mál. Ég hef sagt um það sjálft það, sem ég vildi segja, en ég taldi líka rétt, af því að þetta mál hefur farið inn á víðara svið í þessum umræðum, að segja nokkur orð í sambandi við það.