06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég drap á tvö atriði í minni fyrri ræðu, sem ég tel, að standi algerlega óhögguð.

Hið fyrra var, að áhrif af setningu 5% útflutningsgjalds af fob.- verðmæti loðnuafurða jafngiltu breytingu á hlutaskiptum. Það kemur í einn og sama stað niður, hvort tekin er ákveðin upphæð eða ákveðið hlutfall af aflaverðmætinu óskiptu og afhent að meginhluta til útgerðarmanna, eins og í þessu tilfelli, áður en aflanum er skipt, og svo hins vegar að breyta hlutaskiptareglunum. Það voru ekki mín orð, að 1968 hefðu sjómenn verið rændir einu eða neinu, né heldur voru það mín orð, að svo væri verið að gera nú með þessu útflutningsgjaldi. Hins vegar minnist ég þess, að hæstv. sjútvrh. taldi verið að ræna sjómenn með breytingu á hlutaskiptareglum 1968. Ef hann hafði rétt fyrir sér þá, er eins verið að ræna sjómenn nú. Það er ósamkvæmni hæstv. ráðh., sem ég var að benda á.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að hann eða ríkisstj. hefði ekki skuldbundið sig til að tryggja fiskiskipaflotanum óbreytt olíuverð eða til þess að gera aðrar ráðstafanir þess í stað. En hann las upp yfirlýsingu ríkisstj., sem tók af öll tvímæli að þessu leyti og sannar, að það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, er rétt. Auðvitað er hér um samkomulag að ræða milli útgerðarmanna, sjómanna og verksmiðjueigenda, sem svo er staðfest af þeim nefndum, sem ákveða fiskverð. En þetta samkomulag var bundið ákveðnu skilyrði. Þetta samkomulag hefði ekki verið gert, nema ríkisstj. hefði gefið út ákveðna yfirlýsingu, skuldbundið sig til ákveðinna aðgerða. Auðvitað er það ekki nein veruleg skuldbinding, sem í því felst, að stefna beri að því, að rekstrargrundvöllur þorskveiðibáta raskist ekki í meginatriðum frá því, sem við er miðað við fiskverðsákvörðun um áramótin 1973–1974. Hafi sú fiskverðsákvörðun haft við rök að styðjast og verið sanngjörn og eðlileg, má búast við því, að hér sé um sjálfsagðan hlut að ræða. En það er framhald yfirlýsingarinnar, sem hér skiptir máli og staðfesta orð mín í minni fyrri ræðu. Þar segir: „Hækki olíuverð frá því, sem miðað er við um áramót, umfram það, sem fiskverðshækkun, annar tekjuauki eða létting gjalda fyrir útgerðina getur staðið undir með eðlilegum hætti, þyrftu að koma sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur þorskveiðiskipa, sem landa afla sínum hérlendis á síðari helmingi ársins, og munu verða gerðar ráðstafanir í þeim efnum, eftir því sem nauðsynlegt kann að reynast.“ Það er þessi skuldbinding, sem ég spurði hæstv. ráðherra, hvað hann mæti mikils í fjárupphæð. Talið var af hálfu útgerðarmanna, að hér væri um að ræða 350–100 millj. kr. að öðrum atriðum óbreyttum, og ég held mig við þá tölu, meðan aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir. En eftir þessa yfirlýsingu getur hæstv. ráðherra ekki komið hér í ræðustól og sagt, að ríkisstj. hafi ekki lofað óbreyttu olíuverði fyrir útgerðina eða öðrum samsvarandi ráðstöfunum. Það er einmitt það, sem hæstv. ríkisstj, hefur skuldbundið sig til, og spurt er: Hvað er talið nú, að þessi skuldbinding þýði í útgjöldum fyrir ríkissjóð, fyrir Verðjöfnunarsjóð eða í annarri fjáröflun á vegum hins opinbera.