06.03.1974
Neðri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

253. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hóf mál sitt á því að átelja okkur þm., sem tekið höfum þátt í þessum umr., fyrir að drepa þessum umr. á dreif. Hæstv. ráðh. gekk lengra í þessu efni en aðrir, sem hér hafa tekið til máls, og hann gerði það einnig í sinni fyrri ræðu. Það, sem ég sagði í sambandi við, að við skyldum ekki hrapa að þessum skipulagsbreytingum og að við skyldum skoða betur og fresta afgreiðslu þeirra til næsta þings a.m.k., var m.a. sagt með tilliti til þess frv., sem hér liggur fyrir til umr., og þess frv., sem var á dagskrá hér næst á undan. Auðvitað er rétt, að inn í það fléttast einnig jarðalagafrv., frv. um heykögglaverksmiðjur ríkisins og ábúðarlagafrv.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðh., að undirbúningur jarðalagafrv. er orðinn alllangur, og ég skal ekki kasta neinum steinum til þeirra manna, sem staðið hafa að samningu þess, eða varpa rýrð á þá á nokkurn hátt. Þeir hafa sínar skoðanir og eru þess fullfærir að standa fyrir þeim. Hitt verða þeir að skilja, að aðrir kunna að hafa að einhverju leyti aðrar skoðanir, og þannig eru skoðanaskipti byggð upp í okkar lýðfrjálsa landi.

Í sambandi við jarðalagafrv. tek ég undir það, að það er rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að þar er við mikinn vanda að stríða, sem sé þann að finna ráð til þess, að eignarráð á landbúnaðarlandinu séu sem mest í höndum þeirra manna, sem búrekstur stunda, og að öðru leyti í höndum þeirra, sem eru heimilisfastir í hverju byggðarlagi. Þetta er vandi, sem þarf að leysa og þarf að taka á, og mér er kunnugt um það, að jarðalagafrv. var samið í þeim tilgangi að reyna að taka á þessum vanda. Því miður tel ég, að það hafi ekki tekist sem skyldi og að fjölmargt í því frv. sé með þeim hætti, að ég geti ekki fellt mig við, og það snertir þó ekki nákvæmlega allt tilraunir til úrbóta á þessu vandamáli. Það er önnur saga, og við hæstv. ráðh. vil ég aðeins segja það: við skulum ræða þetta mál, þegar og ef það kemur á dagskrá þessarar hv. d. En vegna þessa kafla í ræðu ráðh., sem hann talaði af nokkrum þjósti og í ávítunartón til okkar, sem tekið höfum þátt í þessum umr., get ég aðeins sagt, að enda þótt ég viðurkenni vandamálið og að þörf sé að taka á því, þá er ekki þar með sagt, að rétt sé að gleypa allt það, sem fram kemur og fer í bága við þá skoðun, sem ég tel að þurfi að hafa í heiðri í sambandi við þessi mál.

Hæstv. ráðh. minntist aðeins á heykögglaverksmiðjurnar, og ég drap á þær aðeins einnig í minni fyrri ræðu. Með því frv. er stefnt að því að koma á fót nýrri ríkisstofnun, nýju „apparati“ í ríkiskerfinu í stað Landnáms ríkisins, sem á að leggja niður, og hæstv. ráðh. talar um það á þann hátt, að þetta sé nauðsynlegt að gera til þess að koma á einhverri heildarstjórn þessara mála. Hæstv. ráðh. ætti að vita það eins og aðrir, að heildarstjórn á meðferð grænfóðurverksmiðjanna er nú í höndum Landnáms ríkisins, og enda þótt hún sé færð í hendur nýrrar ríkisstofnunar með miklu sterkari tökum rn. en er í gildandi lögum, er það ekki gert til þess að koma á einhverri heildarstjórn þessara mála. Hún er fyrir hendi. Það er gert einungis vegna þess, að það er árátta þessa hæstv. ráðh., að Landnámið skuli lagt niður. Þá verður auðvitað að koma á fót nýrri ríkisstofnun til þess að fara með þennan þátt mála. Verði Landnámið ekki lagt niður, er þetta frv. gersamlega óþarft.

Um skipulagsmálin sagði ráðh., að auðvitað þyrfti að hafa samráð við sveitarstjórnirnar og auðvitað þyrfti að hafa samráð við búnaðarsamtökin, eins og nú er gert í gegnum landnámsnefndirnar. En það er einmitt þetta, sem ég er að gagnrýna, að með því skipulagi, sem verið er að koma á fót, er ætlunin að meira eða minna leyti að fara fram hjá þessum aðilum. Það þýðir ekki að koma hér á eftir og segja: Auðvitað þarf að hafa samráð við þessa aðila. — Hæstv. ráðh. segir, að það þurfi að koma sterkari tökum yfir þessi mál, væntanlega með því að færa þetta í hendur rn. sjálfs, eins og hann raunar gat um og upplýsti, að þar væri þegar til staðar sérmenntaður maður til að fást við þetta viðfangsefni. Ég held, að tryggilegra sé að hafa á það skipulag, sem vel hefur reynst að flestra dómi, sem þurft hafa við það að búa. Ég held, að það væri ágætt fyrir ráðh. að hafa tal af þeim mönnum, sem t.d. störfuðu fyrir hönd heimamanna að gerð Inn-Djúpsáætlunar, og vita, hversu þeim hefur þótt um afskipti Landnáms ríkisins af þessum málum. Ég hygg, að þar verði starfsmönnum Landnáms ríkisins ekki borin illa sagan.

Hæstv. ráðh. taldi, að sparnaður hefði orðið í rekstri Stofnlánadeildar landbúnaðarins, og taldi það sönnun þess, að þessi skipulagsbreyting væri til hins betra og hún hefði hagkvæmni í för með sér. Nú er það svo, að meginhlutinn af þeim viðfangsefnum, sem flutt hafa verið frá Landnámi ríkisins til þessa, eru í höndum Búnaðarfélags Íslands, og eins og ég sagði áður, má vel vera, að það henti, að t.d. öll framlögin séu greidd út á einum stað. En það hefur engin breyting orðið á í sambandi við samskipti Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Landnámsins, svo að hér er ekki um neina sönnun að ræða í þessu efni, það er alveg út í hött.

Hæstv. ráðh. vék sér undan að svara því, hvort það væri stefna hæstv. ríkisstj. að halda framlögunum í sama horfi og verið hefur þrátt fyrir verðhækkanir. Hæstv. ráðh. sagði eitthvað á þá leið: Ég man nú ekki viðreisn, og það má vel vera, að það megi finna þar einhverjar vanrækslusyndir. — Hann vonast raunar til, að það takist, vegna þess að þar mætti þá kannske finna afsökun fyrir því, að svo slælega er á málum haldið, eftir að hann kemur í þetta embætti. En ég gæti rakið það fyrir hæstv. ráðh., að þegar íbúðarhúsaframlögin voru fyrst tekin í lög 1957, þá voru þau ákveðin 25 þús. kr. Með stofnlánadeildarlögunum 1962 voru framlögin ákveðin 40 þús., með breytingu á þeim lögum 1963 hækkuð í 50 þús. kr., 1964 hækkuð í 60 þús. kr. Síðan verður alllangt bil, enda voru þá sérstakir erfiðleikar í þjóðfélaginu, eins og menn muna, en 1971 voru þessi framlög til íbúðarhúsa í sveitum færð í 120 þús. kr., og þar við situr enn. Dettur þó engum í hug að segja, að sérstakir erfiðleikar hafi verið í þjóðfélaginu nú eða að þess vegna hafi þurft að kreppa að í sambandi við aðstoð hins opinbera til landbúnaðarins á þessu sviði, og hið sama gildir alveg nákvæmlega um framlög til gróðurhúsa.

Út af íbúðarhúsalánunum, sem hæstv. ráðh. kom inn á og kvaðst ekki muna með vissu, þá leitaði ég upplýsinga Stofnlánadeildar landbúnaðarins, og hún gaf mér þau svör, að 1971 hefðu verið veitt lán út á byggingu íbúðarhúsa í sveitum 600 þús. kr. Hvort ákvörðun var tekin fyrir eða eftir stjórnarskipti, það því miður láðist mér að spyrja um og man ekki til hlítar. Það skiptir ekki heldur höfuðmáli, vegna þess að á þeim tíma, 1971, þegar þessi hús eru reist, er byggingarvísitala 1. júlí 535 stig, en er 1. nóv. 1973 komin í 913 stig, svo að það skiptir ekki máli, hver var við stjórnvölinn, þegar lánin voru ákveðin þetta. Tölurnar breytast ekki við það, og verðlagsþróunin hefur sannanlega orðið þessi í tíð hæstv. ríkisstj. Ég hlýt því að taka það sem ákvörðun og vilja núv. hæstv. landbrh. og ríkisstj. í heild, að þessum þætti af aðstoð hins opinbera til landbúnaðarins sé haldið niðri með þeim hætti, sem birtist í þeim frv., sem hér liggja fyrir. Ég vænti þess þó, að í meðferð Alþingis sýni hv. alþm. þá sanngirni og þann manndóm að fara ekki að vilja ríkisstj. í þessu efni, heldur afgreiða þetta með þeim hætti, sem skaplega megi við una fyrir bændastéttina.

Hæstv. ráðh. gat þess, að það þyrfti ekki að kvarta fyrir hönd landbúnaðarins, afkoma bænda væri betri nú 2–3 ár heldur en oftast áður og mætti finna um að ummæli frá hinum ýmsu bændaleiðtogum. Ég er ekkert að draga úr þessu. Afkoma landbúnaðarins hefur verið með betra móti. En það hefur líka gerst annað, sem hæstv. ráðh. lét undir höfuð leggjast að minnast á. Veðurfar og árferði hefur verið með eindæmum gott á þessu tímabili, og það þökkum við forsjóninni og drottni, en ekki þessari hæstv. ríkisstj. Það er fjarri mér að óska þess, að breyting verði í því efni. Allir óskum við þess, að árferði megi reynast gott áfram, svo sem verið hefur 2–3 ár, og það er sama, hver heldur um stjórnvölinn. En færi svo, að brygði til hins verra, þá dugði ekki annað en standa betur í ístaðinu fyrir landbúnaðinn en nú er gert, og það hygg ég, að þessi ríkisstj. mætti reyna, ef svo brygði við, meðan hún situr að völdum.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vænti þess, að það verði vandlega skoðað, ekki einungis af hæstv. ráðh. og þeim mönnum, sem honum standa næstir, heldur einnig af öðrum þeim, sem styðja þessa ríkisstj. eða stutt hafa til þessa, hversu með skuli fara þessi frv., sem hér hafa verið rædd, og hvort ekki muni reynast heillavænlegast að fresta afgreiðslu þeirra á þessu þingi, annað tveggja fella þau eða vísa þeim að nýju til ríkisstj.