07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

257. mál, hússtjórnarskólar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til þess að fagna því, að frv. af þessu tagi skuli borið fram hér á hinu háa Alþ. Eins og okkur er öllum kunnugt, hafa húsmæðra skólarnir nú um langt árabil átt við mjög mikla örðugleika að stríða, sem vafalaust má fyrst og fremst rekja til þess, að þeir hafa ekki haft stöðu innan íslenska menntakerfisins að öðru leyti en því, sem varðar Húsmæðrakennaraskólann, og þeir hafa ekki heldur veitt nemendum sínum atvinnuréttindi af neinu tagi, eins og sést strax í 1. gr. þessa frv. Er þar gert ráð fyrir því að marka húsmæðraskólunum, sem nú á að kalla heimilisfræðaskóla, bás með því, að þar séu nemendur búnir undir framhaldsnám í æðri skólum, t.d. kennaraskólum, félagsmálaskólum, fóstruskólum, hjúkrunarskólum, hótelskólum o.fl.

Það má lengi hugleiða, hvers konar markmið eðlilegt sé að veita skólum af þessu tagi, og má kannske segja, að í þessa upptalningu vanti starfsgreinar, eins og að ein grein í heimilisfræðaskóla gæti verið að undirbúa nemendur undir ráðskonustörf eða matsveinastörf á fiskibátaflotanum eða eitthvað því um líkt. Húsmæðraskólarnir hafa upp á síðkastið beitt sér á þessum vettvangi og hafa haldið námskeið í því skyni að undirbúa menn undir störf af því tagi. Ég vil í því sambandi m.a. nefna mjög góðan árangur, sem orðið hefur í húsmæðraskólanum á Akureyri, sem var lokaður um margra ára skeið, þangað til farið var að reka hann með nýju sniði nú fyrir nokkrum árum. Vegna mikils dugnaðar og góðra hugmynda forstöðukonunnar og stjórnarinnar tókst að koma nýjum grundvelli undir skólann, þannig að hann hefur nú miklu hlutverki að gegna.

Ég sé ástæðu í sambandi við þetta frv. að gera aths. við 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að próf skuli vera samræmd í ákveðnum fjölda námsgreina, sem menntmrn. ákveður hverju sinni. Það er skoðun mín, að sú reynsla, sem orðin er af samræmdu prófunum, sé ekki nægilega góð, og ég álít, að það þurfi mjög athugunar við, áður en slík samræming er tekin upp á fleiri sviðum. Það hefur t.d. komið fyrir í sambandi við samræmdu prófin, að ný gerð af prófum hefur verið undirbúin í samráði við kennarana hér í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu, en hins vegar hafa kennarar úti um land átt erfiðara með að fylgjast með nýjungum á því sviði. Og áreiðanlega hafa prófkröfur stundum komið kennurum úti um land í opna skjöldu. Það er skoðun mín, að það sé nauðsynlegt að gefa skólunum nokkurt svigrúm til þess að þróast nokkuð hver á sinn hátt, þó innan ákveðins ramma, og ég tel t.d., að það komi mjög til greina einmitt í sambandi við heimilisfræðaskólana, þar sem verið er að reyna að skapa þeim nýjan grundvöll, að opna möguleika fyrir því, að þeir geti nokkuð þróast hver á sinn hátt, en þó þannig, að prófkröfur og próf verði háð samþykki fræðsluyfirvalda eða menntmrn. Mér finnst óþarfi að binda það með þessum hætti í lögum að prófin skuli vera samræmd, og mundi fella míg miklu betur við, ef það væri sett í vald hæstv. menntmrh. að ákveða það hverju sinni, hvort þannig skuli farið að, og eins, hvort rétt þyki, að próf í öllum skólunum verði samræmd með sama hætti.

Það má vera, að þetta þyki smáatriði. Ég hygg — þó, að það hafi orðið mjög til góðs fyrir íslenskt fræðslukerfi á sínum tíma, að t.d. menntaskólarnir allir þróast hvor með sínum hætti og halda sínu námsefni nokkuð hver með sínu sniði, þó að ég viðurkenni, að því fylgi að sjálfsögðu þeir kostir að samræma námsefni og prófkröfur sem mest, að nemendur eiga þá betra með að flytja á milli skóla, ef um slíkt er að ræða.

Ég álít sem sagt, að við eigum að stefna að því, að heimilisfræðaskólar hafi meira svigrúm í námsefni og í kennslu en gert er ráð fyrir í 6. gr. Ég vil óska þess, að þetta sé athugað, hvort ekki sé hægt að hafa þarna rýmra orðalag.

Í sambandi við V. kafla, Handíðaskóla, langar mig til að varpa fram þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort það hafi komið til tals, að þessi handíðaskóli verði staðsettur annars staðar en í Reykjavík. Það er mjög mikill áhugi á því nú að reyna að dreifa ríkisstofnunum sem víðast um landið, og ég held, að það gæti verið gott í þessu tilfelli að hugleiða, hvort ekki væri t.d. hægt að staðsetja þennan skóla á Akureyri, en þar er, eins og við vitum, rótgróinn iðnaður einmitt í þessum greinum og mikil spurning, hvort ekki væri rétt að hafa þennan skóla þar.

Ég vil svo aðeins að lokum ítreka ánægju mína yfir því, að þetta frv. skuli fram komið. Þar er áreiðanlega um mikla bót að ræða frá núverandi skipulagi, þar sem húsmæðraskólarnir hafa orðið út undan, eins og aðsóknin að þeim sýnir. Ungt fólk nú á dögum sættir sig ekki við það að ganga í skóla, án þess að skólagangan hafi markmið og komi því til góða síðar á lífsleiðinni, t.d. í auknum atvinnuréttindum, og þess vegna held ég, að þetta frv. sé mjög tímabært.