01.11.1973
Efri deild: 11. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

60. mál, hjúkrunarlög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hver sú aðgerð, sem miðar að því að styrkja og efla stöðu hjúkrunarkonunnar innan heilbrigðiskerfisins, er örugglega til bóta. Hjúkrunarstéttin er svo stór þáttur og svo mikill hornsteinn góðrar heilbrigðisþjónustu, að ekki er vafi á því, að hvert það atriði, sem styrkir hennar stöðu, það eflir alla heilbrigðisþjónustuna. Hinn mikli skortur á hjúkrunarkonum, sem hefur verið hjá okkur landlægur nú alllengi, hefur háð okkar heilbrigðisþjónustu, og því er ekki að leyna, að okkar dýrustu og verðmætustu heilbrigðisstofnanir hafa ekki getað starfað með fullum afköstum og ekki getað sinnt hlutverki sínu á fullnægjandi hátt, a. m. k. öðru hverju, vegna hins mikla skorts á hjúkrunarkonum.

Árið 1971 voru samþ. hér lög um nýjan hjúkrunarskóla á Íslandi, hjúkrunarskóla í tengslum við Borgarspítalann, og ég verð að segja, að við væntum okkur allmikils af þeim auknu möguleikum, sem þar sköpuðust. Því miður er ég ekki viss um, að enn þá hafi þetta notið sín svo sem skyldi, og koma þar vafalaust til húsnæðiserfiðleikar og aðrir byrjunarörðugleikar. En ég vona þó, að með þeirri aðstöðu, sem þá skapaðist, og með þeirri aðstöðu, sem er að skapast við Háskóla Íslands í kennslu í hjúkrunarfræðum, megum við eiga von á því, að bætt aðstaða skapist á þessu sviði. Mikils virði er, að staða sjúkraliða er ákveðin í þessari löggjöf. Sjúkraliðar hafa óneitanlega hjálpað mjög mikið upp á sakirnar á undanförnum árum, nám þeirra hefur verið aukið og starfsemi þeirra innan sjúkrastofnananna hefur vaxið. Þetta hefur verið til mikilla bóta og í raun og veru bjargað því, að ýmsar heilbrigðisstofnanir hafi getað starfað eðlilega.

Ekki virðist óeðlilegt, að að því líði fyrr eða síðar, að sérstakur skóli verði stofnaður fyrir heilbrigðisstéttirnar í landinu. Margar þeirra mundu geta notið sameiginlegrar fræðslu á vissu stigi námsins, og að auki yrðu þetta tiltölulega mikil kynni fyrir þessar stéttir, sem eiga að vinna saman í framtíðinni. Mér finnst líklegt, að stefna beri að því, að heilbrigðisstéttirnar fái sinn sérskóla, og mundi ekki af veita, að farið yrði að hugsa rækilega til þess máls. Það er með hjúkrunarkonur eins og aðrar stéttir, að nám þeirra verður sífellt yfirgripsmeira og starf þeirra sérhæfðara og vandasamara. Þess vegna er gleðilegt, að hjúkrunarkonur, sem afla sér náms erlendis, sérhæfa sig erlendis, geta fengið viðurkenningu, þegar þetta frv. er orðið að lögum.

Ég tel, að það sé mikil nauðsyn fyrir okkur, að bætt verði aðstaða til þess, að hjúkrunarkonur geti á fleiri sviðum öðlast hér sérnám en nú er. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta frv. til hjúkrunarlaga vera mikils vert framlag í þessu efni og styð það eindregið.