07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

238. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 405 flyt ég frv. til l. um breyt. á lögum nr. 30 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins. 1. gr. frv. hljóðar svo:

„4. málsgr. A-liðar 8. gr. l. orðist svo: Húsnæðismálastjórn er heimilt að verja allt að 120 millj. kr. árlega til lánveitinga til kaupenda eldri íbúða og til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja. Ráðh, setur með reglugerð ákvæði um úthlutun, lánstíma og trygginga slíkra lána, að fengnum till. húsnæðismálastjórnar.“

Breytingin er í því fólgin að hækka um 50% heimildina til lána vegna kaupa á eldri íbúðum og vegna endurbóta á eigin húsnæði öryrkja, þ.e.a.s. svonefnt B-lán.

Sú nýbreytni, sem tekin var upp 1970, að heimila að veita lán til kaupa á eldri íbúðum, hefur mælst mjög vel fyrir og komið að miklu haldi. Ekki er hér síst um að ræða hjálp fyrir ungt fólk, sem hefur ekki efni á að leggja í byggingu eða kaup á hinum nýtískulegu íbúðum, sem við búum yfirleitt í, og verður að láta sér nægja til að byrja með að kaupa eldri íbúðir, en þær þurfa þá oft endurbóta við. Og ekki síst nú á tímum er nauðsynlegt að eiga kost á nokkurri lánsfjárhæð til þess að geta fest kaup á húsnæði.

Enn fremur er það svo, að enda þótt seint hafi gengið að setja reglugerð um það ákvæði, er sett var inn í þessa löggjöf 1972 um heimild til að lána til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja, er augljóst, að sú heimild getur komið að miklu haldi. Hins vegar er það svo, að síðan þessi lög voru samþ., hefur orðið mikil breyting á kostnaði við húsnæðiskaup og endurbætur á húsnæði, og eins og við höfum heyrt í blöðum undanfarið, er það svo, að fasteignir hafa hækkað í verði um 48% á einu ári. Þær höfðu á árinu á undan hækkað um 30–40%, og má því segja, að síðan þessar greinar tóku gildi hafi orðið svo stórfelld hækkun á kostnaði við húsnæðiskaup og endurbætur, að það, sem hér er farið fram á, nægi ekki einu sinni til þess, að lánin geti haldið sama verðgildi og þau höfðu upphaflega, þá er lögin voru sett. En vegna þess að við heyrum svo mikið þessa dagana um örðugleika Húsnæðismálastofnunarinnar og erfiðleikana við að fjármagna hennar skyldur, vildi ég ekki fara hærra en svo að hækka þetta úr 80 millj. og upp í 120 millj.

Frá því farið var að lána út á kaup á eldra húsnæði, er það svo, að það virðist aldrei vera hægt að sinna þessu eins og til stóð. Ætlunin var og heimildin, að þessi lán yrðu allt að helmingi E-lánanna, þ.e.a.s. 400 þús. kr. út á hverja íbúð nú. En þetta hefur einhvern veginn ekki verið hægt, og meðalupphæð, sem lánuð hefur verið út á eldra húsnæði, mun vera á milli 150 og 200 þús. kr. Hér hefur þegar í upphafi verið of hægt af stað farið og þessi heimild kemur ekki að þeim fullu notum, sem þyrfti að vera. Enn fremur er sýnilegt, að vegna þeirra miklu verðbreytinga, sem verða jafnan hjá okkur á byggingarkostnaði, er nauðsynlegt að gera breytingu á húsnæðismálastjórnarlögunum, þannig að þetta ákvæði fylgi hækkunum á E-lánum, þessi lán geti hækkað til jafns við E-lánin, þ.e.a.s. þegar þau hækka upp í 1 millj. kr., þá verði heimild til að lána 500 þús. út á eldra húsnæði. Er þá einnig nauðsynlegt að hækka heildarupphæðina þess vegna. En vegna þess að það hefur sýnt sig, að þetta kemur í mjög góðar þarfir og hefur komið mörgum að miklu og góðu haldi, finnst mér nauðsynlegt að draga ekki að fá þessa breytingu fram.

Ég vonast svo til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði þessu frv. vísað til hv. félmn.