07.03.1974
Neðri deild: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

259. mál, skattkerfisbreyting

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel rétt að hefja mál mitt með því að leiðrétta þann mjög villandi málflutning hæstv. fjmrh. í Ríkisútvarpinu í gærkvöld og raunar einnig við önnur tækifæri, að hann hafi ástæðu til að ætla, að þingflokkur Alþfl. styðji þetta frv., eins og það er. Hann hefur rætt málið við fulltrúa þingflokks Alþfl. og Sjálfstfl., en af einhverjum ástæðum virðist hann hins vegar ekki hafa rætt málið við þm. Frjálslyndaflokksins. Ég veit auðvitað ekki, hvað farið hefur á milli hæstv. fjmrh. og fulltrúa þingflokks Sjálfstfl. En ég veit hins vegar, hvað farið hefur á milli hæstv. fjmrh. og fulltrúa þingflokks Alþfl. Við höfum sagt hæstv. fjmrh. skýrt og skorinort, þannig að ómögulegt hefur verið að misskilja, að við mundum styðja lækkun tekjuskattsins, eins og ráð er fyrir henni gert í frv., og jafnframt skattafsláttarkerfið. Við höfum enn fremur sagt honum í framhaldi af þeirri afstöðu okkar, að við værum reiðubúnir til þess að styðja þá hækkun á söluskatti, sem við teldum, að nauðsynleg væri vegna kerfisbreytingarinnar. Við höfum tekið það skýrt fram við hæstv. fjmrh., að við teldum 5 stiga hækkun söluskatts óþarfa í sambandi við skattkerfisbreytinguna og við mundum því ekki samþykkja hana.

Þetta höfum við raunar ekki aðeins sagt við hæstv. fjmrh., heldur einnig oftar en einu sinni í fjölmiðlum. Það er því vægast sagt í hæsta máta undarlegt, að hæstv. fjmrh. skuli enn vera að gera því skóna, að þetta frv. í heild eigi í vændum stuðning þingflokks Alþfl. Það er óraunhæfari óskhyggja en nokkur fjmrh. má leyfa sér.

Ég vil ekki bera hæstv. fjmrh. á brýn, að málflutningur hans sé visvítandi rangur eða óheiðarlegur, en hann er engu að siður rangur. Hann á að vita betur. Hann á að vita, að þm. Alþfl. munu ekki samþykkja 5 stiga hækkun á söluskattinum. Við höfum að vísu ekki sagt honum, hversu mikla hækkun söluskattsins við séum reiðubúnir til þess að samþykkja, en fyrir því mun ég gera grein í ræðu minni hér á eftir.

Á s.l. hausti fluttu þm. Alþfl. till. til þál., þar sem mörkuð var ný stefna í íslenskum skattamálum. Hugmyndir till. voru þær, að tímabært væri orðið að gera gagngera breytingu á skattkerfinu á Íslandi. Kjarni breytinganna skyldi verða sá, að horfið skuli frá því, að meginþorri einstaklinga greiði tekjuskatt til ríkisins af tekjum sínum, heldur greiði gjöld sín til hins opinbera í staðinn í formi óbeins skatts, söluskatts. Þeim, sem hafa mjög háar tekjur, var þó ætlað að greiða áfram stighækkandi tekjuskatt, og sömuleiðis var lagt til, að áfram yrði greiddur stighækkandi tekjuskattur af hagnaði af atvinnurekstri. Á hinn bóginn var gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun, sem verja átti til að hækka tekjur þeirra, sem lægstar tekjur hafa og ætla mætti, að greiða mundu meira vegna hækkunar söluskatts en þeir hefðu greitt í tekjuskatt. Hér var m.ö.o. sett fram hugmyndin um svonefndan neikvæðan tekjuskatt.

Meginástæða þess, að þingflokkur Alþfl. setti á s.l. hausti fram víðtækar till. um nýtt skattkerfi, var sú, að ljóst var orðið, að byrði beinna skatta væri orðin óbærilega þung og álagning þeirra að mörgu leyti mjög ranglát. Álagningarkerfið hefur undanfarin ár orðið óeðlilega flókið og veitt skilyrði til margháttaðra undanbragða undan réttlátri skattgreiðslu, bæði löglegra undanbragða og ólöglegra.

Eftir þá breytingu, sem núv. ríkisstj. gerði á skattalögum, skömmu eftir að hún tók við völdum, hefur hlutfall tekjuskatts af tekjum orðið svo hátt, að almennir launþegar eru farnir að greiða frá þriðjungi og allt að helmingi tekna sinna í beina skatta af tekjum sínum. Þessi óhóflega skattheimta hefur í mörgum tilfellum orðið og verður í æ fleirum fjötur á framtakssemi og vinnuvilja, hefur þannig beinlínis orðið hemill á heilbrigðan og eðlilegan vöxt þjóðartekna.

Gallar mjög víðtæks og flókins tekjuskattskerfis með mjög háum skattstigum eru ekki aðeins orðnir vandamál á Íslandi, heldur einnig í nálægum löndum, þar sem um er að ræða víðtæka og vaxandi gagnrýni á slíka skattheimtu. Þegar vitað er, að um eða yfir helmingur viðbótartekna fer til greiðslu tekjuskatts, getur ekki hjá því farið, að það hafi áhrif á allt viðhorf manna til tekjuöflunar, að ekki sé talað um þýðingu þess við hvers konar kjarasamninga. Þegar stighækkandi tekjuskattur var upphaflega lögfestur hér og annars staðar, var hann eitt helsta tækið, sem fyrir hendi var til þess að jafna tekjur. Síðan hafa fjölmargir aðrir möguleikar komið til skjalanna til þess að ná tekjujöfnunarmarkmiðinu, fyrst og fremst almannatryggingakerfið, en einnig ókeypis eða ódýr þjónusta af hálfu hins opinbera á fjölmörgum sviðum, einkum á sviði heilbrigðismála og skólamála, og enn fremur margs konar niðurgreiðslur á neysluvörum almennings. Er óhætt að fullyrða, að álagning stighækkandi tekjuskatta hafi minni áhrif til tekjujöfnunar hér á landi en almannatryggingakerfið, ókeypis menntunarskilyrði og niðurgreiðslur. Hins vegar er tekjuskattskerfið orðið lamandi afl í þjóðfélaginu, auk þess sem það er ranglátt, þar eð reynslan hefur sýnt, að fjölmargir aðilar koma sér undan að greiða þá skatta, sem þeim ber samkv. kerfinu, bæði með því að hagnýta heimild laganna til frádráttar, svo sem vaxtafrádráttar, með vafasömum hætti og með beinum undandrætti tekna.

Þegar óbeinn skattur eins og söluskattur er greiddur, ræður skattgreiðandinn meiru um það sjálfur, hversu mikið hann greiðir, með því að ákveða, hvað og hversu mikið hann kaupir umfram nauðþurftir.

Að síðustu má nefna, að framkvæmd tekjuskattsinnheimtu er óhemju dýrt og miklu dýrari en innheimta söluskatts. Mikill kostnaður mundi sparast við niðurfellingu þeirrar tekjuskattsheimtu, sem framkvæmanleg er. Enginn teljandi aukinn kostnaður er því hins vegar samfara að hækka hundraðstöluhlutfall söluskatts.

Í till. Alþfl. var gert ráð fyrir því, að afnumin væri greiðsla tekjuskatts af launatekjum, sem hjá hjónum væri lægri en 750 þús. kr., og þá jafnframt gert ráð fyrir, að fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við framfærslubyrði með hliðstæðum hætti og gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Með þessu móti var til þess ætlast, að tekjuskattsgreiðsla félli niður hjá öllum þeim, sem hafa ríflegar miðlungstekjur. Hefði þá orðið um að ræða meiri hl. allra þeirra, sem greitt hafa tekjuskatt. Hins vegar var ekki talið eðlilegt, að tekjuskattur væri felldur niður hjá þeim, sem hafa hærri tekjur en ríflega miðlungstekjur, en gera ráð fyrir, að þeir einstaklingar greiði nú í ár um þriðjung tekjuskatts einstaklinga. Tekjutap ríkissjóðs af þessari niðurfellingu tekjuskatts, sem till. Alþfl. gerðu ráð fyrir, var í haust áætlað um 2700 millj. kr., miðað við fjárlög þess árs. Till. Alþfl. gerðu ráð fyrir að bæta ríkissjóði þetta tekjutap með hækkun á söluskatti, þ.e.a.s. fyrst og fremst með því að framlengja þau söluskattsstig, sem runnið hafa í Viðlagasjóð. En í haust var almennt gert ráð fyrir því, að ekki þyrfti að framlengja tekjuöflun í Viðlagasjóð og hækka söluskattinn umfram það, þannig að tekjur af honum næmu 2700 millj. kr. á ársgrundvelli. Jafnframt var í till. lagt til, að athugaðir yrðu möguleikar á því að undanþiggja brýnustu nauðsynjar söluskatti, en legg,ja hins vegar viðbótarsöluskatt á óhófsvörur.

Þá var í till. gert ráð fyrir því að framlengja nokkra tekjustofna, sem lögfestir höfðu verið í viðlagasjóðslögunum og áætlað var, að gefið gætu um 600 millj. kr. tekjur á ársgrundvelli. Var lagt til, að þessar tekjur rynnu í sérstakan sjóð, sem notaður skyldi til þess að auka tekjur þeirra, sem greiða mundu hærri söluskatt en því næmi, sem þeir spöruðu vegna lækkunar tekjuskatts, eða m.ö.o. til að standa undir kostnaði við svonefndan neikvæðan tekjuskatt eða skattafsláttakerfi.

Þessar till. Alþfl. vöktu mikla athygli á s.l. hausti. Þær voru í fullu samræmi við sjónarmið, sem uppi voru í verkalýðshreyfingunni í sambandi við undirbúning kjarasamninga. Forustumönnum launþega var orðið ljóst, að tryggasta kjarabótin mundi einmitt verða fólgin í því að koma í veg fyrir þá óhóflegu og ósanngjörnu tekjuskattsheimtu, sem einkum og sér í lagi hafði siglt í kjölfar skattalöggjafar núv. ríkisstj. Sem dæmi um það ranglæti, sem ríkt hefði í tekjuskattsheimtu, síðan síðustu skattalög voru samþ., má nefna, að barnlaus hjón, sem höfðu í fyrra 454 þús. kr. í hreinar tekjur, ættu í ár að greiða 55% af sérhverri krónu, sem væri umfram þær tekjur, í tekjuskatt og tekjuútsvar.

Hjón með þessar tekjur væru m.ö.o. komin í hæsta tekjuskattsstiga og þar með talin hátekjufólk. Ef hjónin ættu þrjú börn og hefðu í fyrra haft 593 þús. kr. í tekjur, yrðu þau að greiða 55% eða meira en helming af viðbótartekjum sínum í tekjuskatt og útsvar. Það þarf væntanlega ekki fleiri orðum um að fara, að slíkt kerfi er komið út í algerar öfgar og á í raun og veru ekkert sammerkt með skynsamlegri og réttlátri skattheimtu. Þetta var allur almenningur farinn að gera sér ljóst. Breyting á skattheimtu ríkisins var orðin augljós nauðsyn. Þess vegna féllu till. Alþfl. um þetta efni í góðan jarðveg.

Það er því í sjálfu sér fagnaðarefni, að ríkisstj., þótt að vísu of seint hafi verið, lýsti því yfir við fulltrúa launþega í kjarasamningaviðræðunum nú nýlega, að hún væri reiðubúin til þess að beita sér fyrir skattkerfisbreytingu, sem væri grundvölluð á sömu meginhugsun og till. Alþfl. á s.l. hausti, þ.e.a.s. lækkun tekjuskatts, hækkun söluskatts og skattafsláttarkerfi í því sambandi. Um þessi atriði fjallar frv. það til l. um skattkerfisbreytingu, sem nú er hér til 1. umr. Ég mun að sjálfsögðu ekki ræða frv. í einstökum atriðum við 1. umr., heldur aðeins meginatriði þess.

Gert er ráð fyrir minnkun á tekjum ríkissjóðs vegna lækkunar tekjuskatts um 2700 millj. kr. Skattafsláttarkerfið er talið munu kosta um 550 millj. kr., þannig að tekjur þær, sem ríkissjóður þyrfti að fá bættar, nema um 3250 millj. kr. Til þess að vega upp á móti þessu gerir frv. ráð fyrir hækkun söluskatts um 5 stig.

Í fjárl. þessa árs er söluskattur í ríkissjóð áætlaður 6700 millj. kr. eða sem svarar 610 millj. kr. á hvert söluskattsstig. Auðvitað er um gerbreyttar aðstæður að ræða, síðan þessi áætlun var gerð, ekki hvað síst vegna nýgerðra kjarasamninga. Er þetta að sjálfsögðu játað í grg. frv. Þar er gert ráð fyrir því, að nú megi telja hvert söluskattsstig svara til um það bil 800 millj. kr. á yfirstandandi ári, og er það áreiðanlega mjög varlega reiknað. Rökstuðningur frv. fyrir nauðsyn á 5 söluskattsstiga hækkun er byggður á því, að á þessu ári muni ekki innheimtur söluskattur nema í 9–10 mánuði, í ár muni því hækkun söluskattsteknanna ekki nema 4000 millj. kr. vegna 5 stiga hækkunar, heldur 3100–3200 millj. kr. og sé það nokkurn veginn sú upphæð, sem ríkissjóður þurfi á að halda í ár. Hér er hins vegar um að ræða veigamestu villuna í sambandi við gerð þessa frv. Frv. heitir „Frumvarp til laga um skattkerfisbreytingu“, og meginatriði þess fjalla um það grundvallaratriði að breyta álagningu tekjuskatts í innheimtu söluskatts ásamt tilteknum tekjujöfnunarráðstöfunum. Þessari skattkerfisbreytingu er ekki einungis ætlað að gilda á árinu 1974, heldur um ófyrirsjáanlega framtíð. Frv. fjallar ekki um fjármál ríkisins á árinu 1974, um það fjalla gildandi fjárlög. Engu að síður ber ríkisstj. í grg. frv. saman álagðan tekjuskatt á ársgrundvelli annars vegar og innheimtan söluskatt í 9–10 mánuði hins vegar. Slíkt er augljóslega rangur samanburður, fyrst um kerfisbreytingu til frambúðar er að ræða.

Ef ræða ætti fjárhagsafkomu ríkisins á yfirstandandi ári, ætti að sjálfsögðu ekki einungis að ræða um áhrif þessarar skattkerfisbreytingar á þær tölur, sem standa í fjárl. yfirstandandi árs, heldur einnig allar þær breytingar aðrar, sem orðið hafa á aðstæðum í þjóðfélaginu, síðan fjárlög voru samin, og hljóta að hafa víðtæk áhrif á tölur fjárl. Horfur varðandi innflutning hafa auðvitað breyst verulega síðan fjárl. voru samin og þar af leiðandi mat á væntanlegum tolltekjum, að söluskattstekjum meðtöldum. Um breyttar forsendur er og að ræða á fjölmörgum öðrum sviðum.

En þetta mál getur ekki verið til umr. hér og nú í þessu sambandi. Um afleiðingar gerbreyttra viðhorfa síðan fjárlög voru samin, verður að ræða sérstaklega og í öðru sambandi. Það, sem hér er til umr., er skattkerfishreyting, sem standa á til frambúðar. Þá verður að sjálfsögðu að meta þá tekjurýrnun, sem ríkissjóður verður fyrir vegna tekjuskattslækkunarinnar á ársgrundvelli, þann útgjaldaauka, sem hann verður fyrir vegna skattafsláttarkerfis á ársgrundvelli, og þá einnig þá tekjuaukningu, sem hann hlýtur, vegna hækkunar söluskatts á ársgrundvelli. Allur annar reikningur er rangur. Ef reiknað er eins og ríkisstj. gerir í grg. frv., er engu líkara en hún ætlist til, að skattkerfisbreytingin gildi einvörðungu á árinu 1974. Það getur þó ekki verið tilætlun ríkisstj. Þess vegna er rökstuðningurinn í grg. rangur.

Ef ríkisstj. telur sig vanta tekjur á árinu 1974, á hún að leggja það vandamál fyrir Alþ. í heild og vitna ekki einungis til þess, að hún fái ekki tekjur af söluskattshækkun nema í 9–10 mánuði á móti niðurfellingu tekjuskatts á ársgrundvelli, heldur þarf hún þá um leið að endurmeta aðra tekju- og gjaldaliði fjárl. í ljósi hinna nýju aðstæðna. Það er með öllu óforsvaranlegt að ræða almenna skattkerfisbreytingu, sem gilda á til frambúðar, á grundvelli afkomu ríkissjóðs á árinu 1974 einvörðungu.

Ríkisstj. telur sjálf, að tekjumissirinn vegna lækkunar tekjuskattsins muni nema á ársgrundvelli um 2700 millj. kr. Hún telur sjálf, að eitt söluskattsstig svari nú til 800 millj. kr. tekna. Það er því einfalt reikningsdæmi, að 31/2 stigs söluskattshækkun svarar til tekjumissisins af tekjuskattslækkuninni.

Í till. Alþfl. hafði einmitt verið gert ráð fyrir því, að á móti lækkun tekjuskatts skyldi koma hækkun á söluskatti, að söluskattur skyldi hækka um nákvæmlega sömu upphæð og tekjuskattur lækkaði. Þar skyldi koma króna á móti krónu. Í till. Alþfl. hafði hins vegar verið gert ráð fyrir því, að tekna í skattafsláttarsjóðinn skyldi aflað með sérstökum hætti. Breyttar aðstæður hafa valdið því, að eðlilegt er að gera nú aðrar till. varðandi þetta efni en settar voru fram í haust. En þingflokkur Alþfl. heldur fast við það sjónarmið, að ekki eigi að nota tekjur af söluskatti sem tekjustofn fyrir skattafsláttarsjóðinn. Hann er einmitt hugsaður til þess að auka tekjur þeirra, sem söluskattshækkunin bitnar á. Það er því órökrétt og ranglátt að afla tekna í slíku skyni með viðbótarhækkun á söluskatti. Tekna í því skyni verður að afla með öðrum hætti.

Þingflokkur Alþfl. telur sér skylt að benda á tekjur, sem staðið geti undir þeim 550 millj. kr. útgjöldum, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir vegna skattafsláttarkerfisins. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á tvennt: Í fyrsta lagi er öruggt, að tekjuaukning einstaklinga milli ára 1972 og 1973 verður meiri en gert er ráð fyrir í fjárl. Tekjuskattur í ár verður því hærri en þar er reiknað með. Þótt ekki sé gert ráð fyrir nema 3% tekjuaukningu umfram það, sem fjárl. miða við, en það er mjög varlega áætlað, nemur það a.m.k. 350–400 millj. kr. aukningu á tekjuskatti umfram það, sem gert var ráð fyrir í fjárl. Í öðru lagi var mat eigin húsnæðis til tekjuskatts miðað við 2% af fasteignamati í tekjuáætlun fjárl. Þetta hefur nú verið hækkað í 3% við álagningu á þessu ári. Jafngildir það aukningu tekjuskatts um a.m.k. 150–200 mill,j. kr. Á þessum tveim liðum er því sannanlega um að ræða vantalda tekjuáætlun, sem nemur um 550 millj. kr. Þessar sannanlegu tekjur umfram fjárlagaáætlun ber ríkisstj. að nota til þess að standa undir skattafsláttarkerfinu. Með hækkun söluskatts um 31/2 stig og með ákvörðun um að nota væntanlegar umframtekjur af tekjuskatti vegna þessara tveggja ástæðna í sambandi við skattkerfisbreytinguna, væri þess vegna fullkomlega séð fyrir því, að jöfnuður væri á milli tekjumissis og útgjaldaauka annars vegar og tekjuauka hins vegar. Með þessu móti væri um að ræða sanngjarna og nauðsynlega skattkerfisbreytingu, þar sem tekjur og gjöld stæðust á miðað við ársgrundvöll, um þá ófyrirsjáanlegu framtíð, sem skattkerfisbreytingunni er ætlað að gilda. Öll skattheimta í formi hækkaðs söluskatts, sem væri umfram þetta, væri í raun og veru óskyld skattkerfisbreytingunni. Þar væri um að ræða söluskattshækkun, þ.e.a.s. tekjuöflun, sem væri tengd árinu 1974, og þó aðeins hluta af því dæmi öllu.

Búast má við, að því verði haldið fram af hálfu ríkisstj., að reikna þurfi með ýmsum útgjaldaauka ríkissjóðs á þessu ári, og er það meira en sennilegt, eins og á málum hefur verið haldið. Í framhaldi af því er eflaust spurt, hvernig þingflokkur Alþfl. telji, að mæta eigi slíkum útgjaldaauka. Um þetta er það að segja, að hér er um að ræða allt annað vandamál en það, sem þetta frv. fjallar um. Á tímum slíkrar óðaverðbólgu og nú ríkir hér á landi, er eflaust nauðsynlegt að endurskoða í reynd gildandi fjárl., og það meira að segja þegar fyrir miðbik þessa árs. En það verða ekki aðeins útgjöld fjárl., sem aukast í sambandi við aukna verðbólgu, heldur munu tekjurnar einnig aukast stórlega. Allt þetta dæmi, fjárlagadæmið í heild, er miklu stærra en dæmið, sem við er að etja í sambandi við skattkerfisbreytinguna, sem hér er til umr. Jafnvel þótt í ljós kæmi, að fjárhagsástand ríkissjóðs væri að verða með þeim hætti, að einhver ný skattheimta væri nauðsynleg, til þess að ríkissjóður væri ekki rekinn með miklum halla á mestu verðbólgutímum, sem um getur í sögu þjóðarinnar, nær engri átt að blanda umr. um það og ráðstöfunum í því sambandi saman við breytingu tekjuskatts í söluskatt og verða þess valdandi, að það dæmi sé rangt reiknað, þ.e.a.s. að almenningi sé talin trú um, að skattkerfisbreytingu sjálf kosti miklu meira en hún kostar í raun og veru. Með því væri verið að blekkja allan almenning og gera skattkerfisbreytinguna tortryggilegri og minna vinsæla en efni standa til og rétt er.

Þegar fjármál ríkisins í heild eru rædd, er að sjálfsögðu ekki aðeins nauðsynlegt að ræða endurskoðun á tekjuliðum og gjaldaliðum vegna breyttra aðstæðna í sambandi við óðaverðbólguna, heldur ber einnig sannanlega að taka til athugunar möguleika á lækkun útgjalda og frestun framkvæmda. Á það verður að minna í þessu sambandi, að fjárlög hafa þrefaldast á skömmum tíma. Ef aðstæður væru eðlilegar, ætti því að vera svigrúm til þess að draga úr útgjöldum eða fresta einhverjum framkvæmdum. Ef ríkissjóður er í raun og veru í miklum greiðsluerfiðleikum, væri slíkt að sjálfsögðu miklu eðlilegri og hyggilegri leið en að auka á þær drápsklyfjar óhóflegrar skattheimtu, sem hvílt hafa á herðum almennings nú um nokkurt skeið.

Í sambandi við þetta frv. vil ég að síðustu minna á tvennt, sem um var fjallað í till. okkar Alþfl.-þm. í haust, en ekki er fjallað um í þessu frv. Annars vegar var þar fjallað um nauðsyn þess að endurskoða reglurnar um skattgreiðslu hjóna og minnt á till. Alþfl. um að gera hvort hjóna að sjálfstæðum skattþegn án tillits til þess, hvort hvor aðilinn um sig aflaði sér sjálfstæðra tekna eða ekki, þ.e.a.s. ynni utan heimilis eða á heimili. Sú nauðsyn verður æ brýnni að bæta úr því ranglæti, sem samsköttun hjóna hefur í för með sér. Þá er og í till. Alþfl. minnt enn á nauðsyn þess að gera ráðstafanir til réttlátari skattheimtu en á sér stað. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanbrögð undan skatti, bæði söluskatti, tekjuskatti, útsvörum og eignarskatti, eru alvarlegt þjóðfélagsmein á Íslandi og valda gífurlegu fjárhagslegu misrétti. Í þessu frv. eru engar ráðstafanir gerðar í þá átt. En við höfum í till. okkar í haust lagt sérstaka áherslu á, að samfara kerfisbreytingunni verði gert alvarlegt og víðtækt átak til réttlátari skattheimtu en á sér stað.

Niðurstaða þingflokks Alþfl. varðandi þetta frv. um skattkerfisbreytingu er því sú, að við munum styðja ákvæði þess um lækkun tekjuskatts og skattafsláttarkerfi. Hins vegar teljum við okkur sýna fram á það með fyllstu rökum, að ekki sé þörf á 5 stiga hækkun söluskatts í þessu sambandi. Við teljum, að tekjumissi ríkissjóðs vegna tekjuskattslækkunar eigi að bæta með hækkun á söluskatti. Samkv. þeim tölum, sem ríkisstj. sjálf miðar við, duga 31/2 stigs hækkun á söluskatti til þess að bæta ríkissjóði tekjumissinn vegna tekjuskattslækkunarinnar. Við munum því ekki samþykkja meiri hækkun á söluskatti en því nemur. Við munum greiða atkv. gegn ákvæði frv. um 5 stiga hækkun söluskattsins.

Við sýnum einnig fram á, að með því að ráðstafa tekjuskattsauka, sem sannanlega verður umfram það, sem gert var ráð fyrir við samningu fjárl., til skattafsláttarkerfisins megi tryggja því þær tekjur, sem ríkisstj. sjálf telur nauðsynlegar, þ.e.a.s. 550 millj. kr. Þessi afstaða þingflokks Alþfl. er bæði raunhæf og ábyrg. Hann er eindregið fylgjandi þeirri skattkerfisbreytingu, sem hér er um að ræða. Hann var fyrstur þingflokka til að setja fram hugmynd um slíka skattkerfisbreytingu, og er sannfærður um, að hún mundi leiða til hagsbóta fyrir launþega í landinu. En því aðeins verður hún til hagsbóta, að hún sé ekki jafnframt notuð til þess að lauma auknum álögum, óþörfum álögum, á bak launþega, eins og ríkisstj. virðist því miður hafa í huga. Það er von Alþfl., að ríkisstj. sjái sig um hönd í þessum efnum og hverfi frá óeðlilegum fyrirætlunum sínum um að hækka söluskattinn um 5 stig. Það er von okkar, að ríkisstj. reynist fús til þess að standa að heiðarlegri og heilbrigðri framkvæmd skattkerfisbreytingarinnar. Slík framkvæmd væri fólgin í því að lækka tekjuskattinn, taka upp skattafsláttarkerfi og hækka söluskatt um 31/2 stig. Slíka skattkerfisbreytingu vill Alþfl. styðja. En hann mun greiða atkv. gegn óþarfri hækkun á söluskattinum. 5 stiga hækkun á söluskattinum er óþörf í sambandi við skattkerfisbreytinguna.