01.11.1973
Neðri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

8. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Málin, sem hér liggja fyrir sem dagskrárliðir 1 og 2, frv. um skólakerfi á þskj. 8 og um grunnskóla á þskj. 9, eru nátengd. Þessi mál hafa áður tvívegis komið fyrir Alþ. og í bæði skiptin við 1. umr. verið rædd saman og ekki verið gerðar aths. við, að sá háttur væri á hafður. Ég mun því fara í sama far hér við þessa 1. umr., gera bæði málin að umtalsefni í senn, eftir því sem tilefni gefst til.

Frv. um skólakerfi og um grunnskóla voru rædd ítarlega við 1. umr. hér í hv. d. 26. febr. í ár, fyrir 8 mánuðum. Frv. dagaði uppi við þingslit í vor. Ég mun af þessum sökum ekki hafa ýkjalanga framsögu fyrir þessum málum að þessu sinni. Það er fyrir mestu að mínu áliti, að hafist geti nákvæm yfirferð yfir þessi mál í n. Hún er á þessu stigi gagnlegri en endurtekning á atriðum, sem áður hafa komið fram í almennum umr. Þó vil ég ekki láta hjá líða að leggja á ný áherslu á meginmarkmiðið, sem sett er með frv. um skólakerfi og um grunnskóla. Þar er um að ræða jöfnun námsaðstöðu og kennsluskilyrði um allt land og að laga skólastarfið, eftir því sem kostur er, að þörfum hvers og eins nemanda. Markmiðið er að færa byggðarlögin, sem nú eru lakast sett hvað varðar aðbúnað að fræðslumálum á skyldustigi, til jafns við þau byggðarlög, þar sem betur er búið að undirstöðunámi. Kveðið er á um framkvæmd þessarar stefnu við hin erfiðu búsetuskilyrði, sem ríkja í okkar stóra og víða strjálbýla landi. Við það er miðað, að allir, sem geta notið almennrar fræðslu, hljóti fyllsta stuðning á námsbrautinni. Þar á að taka tillit til þess, hversu misjafnlega menn eru til náms fallnir, og gera þeim, sem hratt geta farið yfir, fært að fylgja hæfileikum sínum eftir og ljúka skyldunámi á sem skemmstum tíma, en jafnframt búa svo að þeim, sem hægar verða að fara yfir, að þeim sé sinnt eins og þeir eiga kröfu til.

Meginástæðan til, að nú er stórátaks þörf í þessum málum, er fyrirsjáanleg þróun í fræðslumálum og atvinnuháttum. Það er bæði félagsleg nauðsyn og réttlætismál gagnvart einstaklingunum, að svo sé búið um hnúta, að enginn sé vegna búsetu eða efnahags í uppvexti útilokaður frá að afla sér fullgildrar almennrar menntunar og jafnframt aðgangs að sérhæfingu til þess starfs, sem hann kann að kjósa sér. Leiðin til að tengja þetta tvennt, jafna námsaðstöðu án tillits til uppruna og efla almenna fræðslu sem samsvarar kröfum nútímans til sérhæfingar og endurhæfingar að síbreytilegum störfum, er að gera ráðstafanir til, að allir, sem almennrar kennslu geta notið, eigi kost á námi að því marki, að sérhæfing og framhaldsnám sé þeim opið að hinni almennu undirstöðufræðslu lokinni. Ég veit ekki til að menn greini á um þetta meginmarkmið, en misjafns mats gætir á, hversu því verði komið í framkvæmd. Það er verkefni Alþingis að fjalla um leiðirnar, sem á er bent í frv. um grunnskóla og um skólakerfi.

Við þessa umr. vil ég benda sérstaklega á, að í jafnmargslungnu máli og hér er um fjallað þarf að gæta þess sérstaklega vel, að meginmarkmiðið, tilgangurinn að jafna námsaðstöðu og efla almennt fræðslukerfi, hverfi ekki í skuggann af einstökum atriðum í framkvæmdinni.

Eins og grein var gerð fyrir á síðasta þingi, þegar þessi mál voru til umr., fór fram mjög rækileg kynning á málunum, áður en og jafnframt því sem þau voru lögð fyrir þing. Haldnir voru hartnær tveir tugir almennra funda um land allt, þar sem nm. úr n., sem undirbjó frv., gerðu grein fyrir þeim, kynntu þau, svöruðu spurningum og greiddu úr þeim atriðum, sem fundarmenn óskuðu frekari skýringa á. Auk þessara almennu funda voru haldnir allmargir fundir með þeim hópum, sem einkum láta sig þessi mál varða. Þar var bæði um að ræða sveitarstjórnarmenn og ýmis kennarasamtök.

Eftir að kynningunni á þessum fundum var lokið, voru menntmn. hv. d. sendar till. til breytinga á nokkrum atriðum frv. Þessar brtt. voru samdar og undirbúnar í ljósi þess, sem fram hafði komið á kynningarfundunum. Þessar brtt. hafa nú verið felldar inn í frv. um grunnskóla. Ég vil víkja sérstaklega að þeim þessara till., sem ég tel þýðingarmestar.

Í 4. gr. frv. um grunnskóla er rætt um útibú frá stærri skólum fyrir yngstu árganga grunnskólans. Í frv., eins og það var lagt fyrir, er gert ráð fyrir, að þessi útibú geti sótt 7 og 8 ára börn. Því hefur verið breytt í þeirri gerð frv., sem nú er lögð fyrir, í 7, 8 og 9 ára börn. Óskir hafa komið fram um, að þessi útibú nái einnig til 10 ára barna, en það er álit okkar, sem undirbúið höfum frv., að við 10 ára aldur verði kennsla að fara að greinast svo í grunnskólanum, að ekki sé fært að ætlast til, að börn, sem sækja lítil útibú með fámennu kennaraliði til 10 ára aldurs, geti þar hlotið jafna fræðslu og þau, sem sækja stærri skólana, þar sem kennslugreiningin getur hafist vegna betri aðstöðu og meira kennaraliðs.

5. gr. er breytt í þýðingarmiklu atriði, sem er í samræmi við þann höfuðtilgang frv. að létta undir með þeim fræðsluhéruðum, sem erfiðast eiga uppdráttar fjárhagslega. Þar er lagt til að á fjárl. sé ár hvert veitt sérstök fjárhæð, er nemi 5% af árlegu framlagi ríkissjóðs til byggingar mannvirkja vegna grunnskólanna. Þessi tuttugasti hluti af árlegu framlagi skal ganga til þess að veita lán þeim sveitarfélögum, sem standa að byggingarframkvæmdum, en eiga við verulega fjárhagsörðugleika að etja vegna fólksfæðar, sérlega lágra tekjustofna eða annarra gildra orsaka. Þessu fé skal úthlutað af samstarfsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga að fengnu samþykki fjvn. Alþ. Í umr. um þessi mál hefur þess allmjög gætt, að fólk í strjálbýli hefur óttast, að þrátt fyrir framgang frv. væri ekki nægilega fyrir því séð, að fræðsluhéruðin þar gætu risið að sínum hluta undir framkvæmd þess fræðslukerfis, sem ráð er fyrir gert. Með þessu ákvæði um lánasjóð í þágu sveitarfélaga, sem verst eru á vegi stödd fjárhagslega, er leitast við að tryggja, svo sem kostur er, að þessi agnúi verði ekki til þess að framlengja mismunun í skólahaldi milli strjálbýlis og þéttbýlis.

Í 11. gr. frv., eins og það kom fyrir síðasta þing, var ákveðið, að fræðsluráð skuli skipað 5 mönnum. Í þessari gerð frv. er sú breyting gerð á, að fræðsluráð skuli skipað 5 eða 7 mönnum, kjörnum af viðkomandi landshlutasamtökum. Hér er einnig komið til móts við óskir úr dreifbýlinu. Á það hefur verið bent, að í sumum fyrirhuguðum fræðsluhéruðum standi svo á, að þéttbýlisstaðir séu í svo yfirgnæfandi meiri hl., að í 5 manna fræðsluráði mætti búast við, að þeir ættu alla fulltrúana. Með því að opna fyrir fjölgun er greitt fyrir því, að þar geti einnig komið inn fulltrúar frá fámennari sveitarfélögum.

Í 22. gr. frv., eins og það var lagt fram á síðasta þingi, var gert ráð fyrir nemendaráði, sem starfaði í grunnskóla og væri fulltrúi nemenda gagnvart skólastjóra og skólastjórn. Í þessu frv., sem hér er lagt fyrir, er bætt við ákvæði um, að formaður nemendaráðs eigi rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs svo og á kennarafundum með málfrelsi og tillögurétti. Gert er ráð fyrir, að nemendaráð sé kjörið af þrem elstu bekkjum grunnskólans.

Á svipaðan hátt er gerð breyting á gr. um foreldrafélög, 21. gr. Þar er nú ákvæði um, að fulltrúi foreldrafélags eigi rétt til setu á kennarafundum með málfrelsi og tillögurétti.

Við 37. gr. er bætt því ákvæði, að heimilt sé að ráða í einni eða fleiri kennslugreinum kennara fyrir tvo eða fleiri grunnskóla samtímis til þess að fullnægja kennsluþörf, ef ekki er fullt verkefni fyrir kennara í þeirri grein við annan hvoru skólann. Hér er um að ræða hagkvæmnisatriði og jafnframt við það miðað að efla kennslu skólanna með því, að þeir geti skipst á um sérhæfða kennara, ef hvor um sig hefur ekki fullt verkefni fyrir þá. Í sömu gr. er einnig ráð fyrir því gert, að við sérstakar aðstæður megi ráða sérstakan heimavistarstjóra við heimavistargrunnskóla, en ella er gert ráð fyrir, að almenna reglan sé sú, að skólastjóri sé jafnframt heimavistarstjóri.

42. gr., sem fjallar um árlegan starfstíma grunnskólans, hefur verið breytt verulega, enda var hún ein af þeim gr., sem mest voru ræddar á kynningarfundunum úti um landið. Eftir sem áður er miðað við, að reglulegur starfstími grunnskóla sé 9 mánuðir að jafnaði, frá 1. sept. til loka maímánaðar. En í skólahverfum, þar sem svo stendur á, að helmingur nemenda eða meira verður að aka til eða frá skóla eða dveljast í heimavist, er skólanefnd að fengnum meðmælum fræðsluráðs og fræðslustjóra heimilað að stytta árlegan starfstíma skólans allt að því lágmarki, sem sett er í gr. Meginbreytingin á gr. er sú, að svigrúmið til að stytta skólatímann á ári hverju er aukið. Þó er ekki gert ráð fyrir, að grunnskóli geti staðið skemur en í 7 mánuði. En heimild til 7 mánaða skólahalds er í þessu frv. veitt í 1.–3. bekk. Í frv., sem kom fyrir síðasta þing, var miðað við, að sú stytting gæti aðeins átt sér stað í 1. og 2. bekk. Þá er lagt til, að heimild til að stytta árlegan skólatíma í 7½ mánuð skuli ná til 4., 5. og 6. bekkjar. Í fyrra frv. var sú stytting miðuð við 3. og 4. bekk, en 5. og 6. bekkur höfðu þar heimild til styttingar árlegs skólatíma í 73/4 úr mánuði. Loks er heimiluð stytting á skólastarfinu í 7.–9. hekk í 81/4 úr mánuði, en í fyrra frv. var heimiluð stytting í 7. bekk í 73/4, en í 81/2 mánuð í 8. og 9. bekk. Þessi heimild er ekki alfarið bundin við skóla, þar sem meira en helmingur nemenda sætir heimanakstri eða dvelur í heimavist. Jafnframt er tekið fram, að í öðrum skólahverfum, sem eiga við erfiðar umhverfisaðstæður að búa, er teljast verulega tálma 9 mánaða skólahaldi, geti menntmrn. að ósk skólanefndar heimilað styttingu árlegs skólatíma allt að því lágmarki, sem ég áður greindi frá.

Þá er tekið fram í 42. gr., að fræðsluráð geti, ef skólanefnd óskar, heimilað 5 daga kennsluviku. Eins og mönnum mun kunnugt, er það mjög misjafnt nú þegar, hvort skólastarf stendur 5 eða 6 daga á viku hverri, og er nokkuð umdeilt mál á sumum stöðum a. m. k. Frv. gerir ráð fyrir, að fræðsluráð í hverju fræðsluumdæmi kveði endanlega á um, hvort stytting í 5 daga skólaviku skuli eiga sér stað.

Þá er í 42. gr. þýðingarmikið ákvæði og nýmæli um, að hluta af námsskyldu nemenda grunnskóla megi fullnægja með sumarskóla. Í frv., sem lagt var fyrir síðasta þing, var gert ráð fyrir, að sumarskólahald að hluta næði til 1.–3. bekkjar. Eins og ég tók fram í framsögu fyrir málinu í vetur, tel ég, að þarna megi gjarnan lengra ganga, ef vilji er fyrir hendi. Að kynningarfundunum loknum og fenginni þeirri vitneskju, sem þar kom fram, var ákveðið að heimila sumarskólahaldið ekki aðeins fyrir 1.– 3. bekk, heldur fyrir 1.–6. bekk grunnskólans. Gert er ráð fyrir, að sumarskóli nái yfir helmingi stærra aldurssvið en í fyrra frv.

Þá hefur gr., sem fjalla um sérkennslu þeirra barna, sem víkja frá eðlilegum þroskaferli, 51.–53. gr., verið breytt allverulega. Þar er ekki um stórkostlegar efnisbreytingar að ræða, en að öllu leyti við það miðað að búa sem rækilegast um hnútana, svo að þeir, sem ekki geta fylgt jafnöldrum sínum með góðu móti í grunnskóla, hljóti þá sérkennslu, sem þekking og mannafli gera fært að veita þeim. Í því efni er eins og áður viðmiðunin, að skert námsgeta, af hverju sem hún stafar, nýtist nemendunum eins og kostur er, annaðhvort í grunnskólanum sjálfum, ef ekki er um mjög mikla líkamlega eða andlega bæklun að ræða, eða þá í sérstofnunum, sem sniðnar eru sérstaklega fyrir þá nemendur, sem alls ekki geta grunnskóla sótt.

Í 86. gr. er bætt ákvæði um, að heimilt sé menntmrn. að greiða sinn hluta viðhaldskostnaðar skólahúsa jafnóðum og hann fellur á, eftir því sem fjárveitingar leyfa. Hér er um það að ræða, að viðhaldskostnaður getur verið geysimisjafn hjá skólahéruðum og getur orðið sveitarstjórnum afar þung byrði, þegar viðhaldið er umfangsmest, ef ekki er heimild til að greiða kostnaðarhluta ríkisins jafnóðum og á fellur, þegar sérstök ástæða er til.

Loks er bætt við 91. gr. þýðingarmiklu ákvæði. Eins og ég gat um áðan, hefur gætt nokkurs uggs um það hjá fólki í strjálbýlinu vegna reynslu, sem það hefur hlotið af fyrri fræðslulöggjöf, að þótt sett verði lög um grunnskóla og skólakerfi, sem veki vonir og gefi fyrirheit um miklar umbætur í skólamálum dreifbýlisins, þá verði framkvæmdin svo dræm, að þeir, sem verst eru á vegi staddir, þurfi að bíða miklu lengur eftir umbótunum en nokkurt hóf er á. Því er bætt við 91. gr. því ákvæði, að að því skuli stefnt, að ákvæði l. um síðasta ár skólaskyldu komi til framkvæmda samtímis á landinu öllu 6 árum eftir gildistöku l. En í fyrri gerð frv. var við það miðað, að fyrirkomulag, sem kveðið er á um í frv. um grunnskóla og skólakerfi, geti komið á að fullu að 10 árum liðum.

Hvert sem álit manna er á einstökum atriðum frv., held ég, að ekki geti farið milli mála, að þau hafi hlotið óvenju vandaðan undirbúning. Ég vil því láta í ljós þá ósk, að n., sem fær þan til meðferðar, taki til óspilltra málanna, svo að þetta þýðingarmikla mál hljóti loks þinglega afgreiðslu eins skjótt og efni standa til.

Ég legg svo til. herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málunum vísað til 2. umr. og menntmn.