08.03.1974
Efri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

208. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það mun vera rétt hjá hv. 5. þm. Vestf., að hann flytur á þessu þingi frv. um svipað mál, húsnæðismál dreifbýlisins. Ég hélt satt að segja, að hann hefði þegar haldið framsöguræðu og hún jafnvel birst í Morgunblaðinu, og ég sé ekki ástæðu til þess, að þessu máli hafi verið frestað svo mjög til þess eins að koma þeirri ræðu aftur á framfæri. Ég heyrði sáralítið nýtt.

Ég get raunar að flestu leyti vísað til hv. síðasta ræðumanns. Hann svaraði ágætlega fyrir hönd milliþn. í byggðamálum, og þarf ég ekki að hafa mörg orð um það. Því miður gat, að því er virtist, hv. 5. þm. Vestf. ekki verið inni og hlustað á það, en ég vísa honum þá á Alþingistíðindi. Hann getur lesið það þar, þannig að ég get sleppt að svara að verulegu leyti.

Ég vil aðeins leggja áherslu á það, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að hér er að sjálfsögðu um að ræða frv., sem milliþn. allra flokka í byggðamálum stendur að. Á það er lögð áhersla í grg. N. var vel kunnugt að sjálfsögðu um frv. hv. 5. þm. Vestf. En líklega hefur n. ekki talið það raunhæft, svo að hún taldi þess vegna nauðsynlegt að flytja þetta mál.

Ég vil vekja athygli á því, sem kom raunar einnig fram hjá hv. þm. Helga Seljan, að hér er aðeins um að ræða einn þátt í þeirri leiðréttingu, sem þarf að gera og er verið að gera á íbúðamálum landsbyggðarinnar. Bygging 1000 leiguíbúða er að hefjast, þar sem sömu kjör eru boðin og við Breiðholtsframkvæmdirnar. Þar er um ákaflega mikilvægan þátt í þessari leiðréttingu að ræða. Auk þess kemur fram í þeirri grg., sem fylgir þessu frv., og kom einnig fram í framsöguræðu minni, að milliþn. í byggðamálum hefur vakið athygli ráðamanna á ýmsum öðrum þáttum og fengið mjög góðar undirtektir hæstv. félmrh. N. er sannfærð um, að þeim málum verður hreyft við endurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni, sem er væntanleg, og þar mun enn fást mikilvæg leiðrétting á þessu máli.

Ég get út af fyrir sig skilið það ákaflega vel, að fyrir hv. þm., sem átti hlut í Breiðholtsframkvæmdunum, sem bundnar voru í lögum við Reykjavík eina, sé knýjandi að standa á leiðréttingum á þeim órétti, sem landsbyggðinni var með þeim gerður.

Ég vil loks einnig geta þess, að þetta frv. hefur verið samið að viðhöfðu samráði við landshlutasamtökin utan Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins. Milliþn. í byggðamálum hefur átt fundi með öllum þessum samtökum, á öllum þeim fundum hafa húsnæðismálin mjög verið rædd, og á öllum þessum fundum komu fram þær hugmyndir, sem fram koma í frv. Þetta kemur enn fram í samþykkt eða ályktunum, sem samstarfsnefnd Vestfirðinga, Austfirðinga, Norðlendinga og Vestlendinga gerði á fundi á Hótel Sögu 6.–7. mars 1974, þ.e.a.s. í gær. Þar er minnst á þetta frv. — þetta frv. eitt — og lögð á það rík áhersla, að frv. þetta fái afgreiðslu á þessu þingi. Þarna kemur því fram, að það nýtur mjög mikils stuðnings þessara samtaka.

Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um verkamannabústaðina og fleira. Þeir koma til umr. síðar og þar verður gerð breyting á, það er ég sannfærður um. Þá fást tækifæri til að ræða þau mál nánar.

Ég vil aðeins endurtaka það, að ég harma, að dráttur hefur orðið á afgreiðslu þessa máls hér í d. En ég treysti því, að málið fái hins vegar skjóta afgreiðslu í n., enda er ljóst af því, sem ég vísaði til áðan, að það nýtur almenns stuðnings.