08.03.1974
Efri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2628 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

208. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess að taka aðeins þátt í þessum umr., því að þetta mál og húsnæðismálin raunar almennt snerta landsbyggðina mikið, og er mjög þýðingarmikið, að hreyft sé við þessari löggjöf í því skyni að auka fjármagn til bygginga úti um landsbyggðina.

Ég vil taka undir það, sem hv. fyrri flm. þessa frv. tók fram áðan, að á fundum landshlutasamtaka sveitarfélaga, hefur byggðanefnd, milliþn. í byggðamálum, kynnt rækilega þessi mál og fengið um þau á þingum sveitarstjórnarmanna í landinu mjög haldgóðar upplýsingar um, hversu víðtækt þetta vandamál er um landsbyggðina. Og eins og hann tók fram áðan, hafa þessi landshlutasamtök enn ítrekað það, að þau telja, að þetta frv. miði í rétta átt. Ég vil hins vegar taka undir það, sem 5. þm. Vestf. sagði hér áðan, að að sjálfsögðu gengur þetta ekki nægjanlega langt. Um það getum við allir sjálfsagt verið sammála. Ég vil segja það hér, að mér finnst till. hans um húsnæðismál, sem hér liggur fyrir, vera mjög æskileg á margan hátt, ef mögulegt væri að framkvæma hana, þ.e.a.s. ef nokkur hugsanlegur möguleiki væri á því að fá fjármagn til að framkvæma þá hugsun, sem á bak við hana hýr. En því miður er ástandið þannig í okkar málum og hefur verið um margra ára bil, eða frá því fyrst var sett löggjöf um húsnæðismálastofnun, að fjármagn hefur alltaf skort, og raunverulega er það mergur málsins, því miður, að við komumst sjaldan nægjanlega langt á þessu sviði einmitt vegna þess, að fjármagnið er ekki til.

Í sambandi við verkamannabústaðina vil ég segja það, úr því að því hefur verið hreyft hér í framsögu og grg. með þessu frv., að það, sem landsbyggðin hefur fyrst og fremst haft út á löggjöfina um verkamannabústaði að setja, er, að minni sveitarfélög í landinu hafa ekki getað hagnýtt sér þessa merku löggjöf, sem allir eru sammála um, að hefur verið það frá fyrsta degi og hefur komið mörgu góðu til leiðar í sambandi við húsnæðismál í landinu. En minni sveitarfélögin hafa ekki getað hagnýtt sér þetta, vegna þess að þann áfanga, sem lögin gera ráð fyrir og væri nauðsynlegt að framkvæma, hefur ekki tekist að fjármagna með framlagi sveitarfélaganna. Ef það væri hægt að koma þeirri breytingu inn í lögin, að hluti ríkisins til byggingar verkamannabústaða í smærri sveitarfélögunum yrði hækkaður í allt að því, sem hv. 5. þm. Vestf. leggur til, þá væri það spor í rétta átt.

Ég vil benda á það, að í grg., sem fylgir þessu frv., er í 6 liðum farið inn á málefni byggingamálsins í heild. Allir þessir liðir hafa verið mjög til umræðu á vegum sveitarfélaganna í landinu, og einmitt þar er minnst á þau atriði, sem hafa gert þessi mál mjög erfið.

Ég held, að það sé rétt tekið fram, að sveitarstjórnarmenn, sem mest fjalla nú um þetta í landshlutunum, hafa verið sammála um, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé spor í rétta átt til þess að leysa þetta vandamál. Ég vil þess vegna leggja á það áherslu, að ég tel, að það sé nauðsynlegt, að þetta frv. nái fram að ganga. Jafnframt vil ég undirstrika, að það er alveg hárrétt, sem hv. 5. þm. Vestf. segir, að það er ekki hægt að una við það öllu lengur, að lán til húsbygginga almennt skuli ekki ná þeirri fjárhæð, sem hækkun byggingarvísitölu gefur til kynna á hverjum tíma. Það væri út af fyrir sig mikil framför í sambandi við lánveitingar til húsbygginga, ef það væri hægt að koma því í framkvæmd, að lán til húsbygginga hækkuðu sjálfkrafa í samræmi við byggingarvísitölu á hverjum tíma.

Ég vil svo í sambandi við Breiðholtsframkvæmdirnar, sem eru margrætt mál, lýsa því, að það var óréttur gagnvart landsbyggðinni á sínum tíma, þegar þetta fyrirkomulag var tekið upp, að það skyldi ekki hafa verið séð um, að það næði einnig út á landsbyggðina. Ég tel, að þess vegna sé enn brýnna en áður, að við fáum í staðinn framkvæmdir og lánafyrirgreiðslu, sem jafnar þessi met, sem óneitanlega eru mörgum byggðarlögum nú þegar til stórtjóns. Ég trúi því, að ef menn leggjast á eitt og hv. alþm. vilja í raun og veru leiða þetta mál fram til hins betra fyrir landið í heild, hljóti að vera hægt að finna tök á því að gera hinum dreifðu byggðum, mörgum byggðarlögum, sem þetta stendur fyrir þrifum, mögulegt að greiða fyrir húsbyggingum, svo sem er mjög brýnt, eins og nú er háttað.