08.03.1974
Neðri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

259. mál, skattkerfisbreyting

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., ber fyrirsögnina „frumvarp til laga um skattkerfisbreytingu“. Engu að síður er ljóst, að í sambandi við þetta frv. gefst tilefni til og reyndar nauðsyn að ræða nýgerða kjarasamninga atvinnurekenda og ASÍ, einnig verðlagsþróunina í landinu og loks efnahagsmálin í heild. Allt er þetta nátengt. Að sjálfsögðu mun ég ekki fara út í þessi atriði öll. En engu að síður þykir mér ástæða til að fara nokkrum orðum um nýgerða kjarasamninga, vegna þess að þeir eru beint tilefni til þess frv., og enn fremur að fara nokkrum orðum um þá verðbólgu, sem tröllríður nú þjóðfélaginu, áður en ég kem að sjálfu frv., sem hér er til umr.

Eins og kunnugt er, voru nýlega gerðir kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins til tveggja ára og virtist árangurinn vera harla fagur. Fyrir utan margvíslega sérsamninga fyrir einstök verkalýðsfélög var það álit margra, að almenn kauphækkun verkafólks í landinu nálgaðist allt að 20%. En jafnframt þessu greiddi núv. ríkisstj. fyrir samningum með því að gera samkomulag við samninganefnd ASÍ um lagfæringu á tekjuskattinum og úrbætur í húsnæðismálum. En um þetta má segja, að ekki er allt gull, sem glóir. Strax að lokinni samningagerð lýstu fyrirsvarsmenn bæði Alþýðusambands Íslands og atvinnurekenda yfir því, að hér væri um verðbólgusamninga að ræða, atvinnuvegirnir gætu ekki borið uppi þessa kauphækkun og launabæturnar hlytu að koma fram í hækkuðu verðlagi. Á þetta sjónarmið virtist ríkisstj, raunar hafa fallist og þannig voru allir aðilar: samninganefnd ASÍ, atvinnurekendur og reyndar ríkisstj. á einu máli um, að kaupbæturnar færu fljótlega eða nánast strax út í verðlagið, árangurinn yrði þá lítill sem enginn og gengisfelling jafnvel á næstu grösum. Þó má geta þess, að hagspekingar tala um nýja tegund gengisfellingar, sem á að gerast í smáskömmtum, smáskammtalækningar, en ekki í stórum stökkum, og eru það mikil fagnaðartíðindi í stjórnarherbúðunum.

Og verðhækkanirnar létu ekki á sér standa. Það hefur tekið marga mánuði að fá fram nýja kjarasamninga og launabætur, en áður en blekið var þornað á samningunum og áður en vikukaupsmenn höfðu notið hinna nýju launabóta, var tilkynnt um mikla hækkun búvöruverðs, sem ekki nam minna af hundraði en sjálf grunnkaupshækkunin, og jafnframt hringdi svo dýrtíðarbjallan og glumdu í eyrum almennings nýjar og nýjar hækkanir á vörum og þjónustu, farmgjöld, fluggjöld, rafmagn, hitaveita, bensin o.s.frv., o.s.frv., endalaus röð af verðhækkunum, sem ekki voru mældar í 1 og 2%, heldur í tugum prósenta og jafnvel upp í 40–50%. M.ö.o.: margra mánaða kaupgjaldsbarátta verkafólks í landinu hverfur eins og dögg fyrir sólu á nokkrum vikum eða jafnvel á nokkrum dögum. Eftir sitja svo launþegar með sárt ennið, og atvinnurekendur stynja þungan og telja, að rekstrargrundvöllur fjölmargra fyrirtækja sé jafnframt brostinn eða nálega brostinn.

Ég hef gert hér smáathugun á kaupmætti verkafólks í sambandi við verð á búvöru, eins og það var í upphafi valdaferils núv. ríkisstj. og eins og það er í dag. Ég vil biðja hv. þm. að hafa á þessu tilhlýðilegan fyrirvara, en mér hefur reiknast dæmið á þessa lund:

Þetta er um kaupmátt vikukaups Dagsbrúnar samkv. 5. taxta, hafnarvinna. Er hér getið í dæminu 100 14. júlí 1971, þegar ríkisstj. tók við völdum. Þá var vikukaup samkv. þessum taxta 3859 kr., en er nú 8304 kr. samkv. sama taxta, hvort tveggja reiknað með fullri vísitölu og með fullri starfshækkun. Gagnvart búvöru er kaupmáttur Dagsbrúnartaxtans nú þessi, og tel ég þá hér kaupmáttinn 100 14. júlí 1971:

Nýmjólk, 1 lítra hyrna kostaði 14. júlí 1971 12.60, nú kostar hún 4. mars 32.60 kr. Það merkir, að kaupmátturinn er 83.2. Skyr, 1 kg kostaði 14, júlí 1971 27.30, nú kostar það 73 kr., kaupmáttur 80.5. Rjómi, 1 lítra ferna kostaði 119.20 1971, núna 266 kr., kaupmáttur 96.4. Smjör, 1 kg, 1. fl., 130 kr. 1971, nú 464 kr., kaupmáttur 60.3. Ostur, 45%, 14. júlí 1971 122 kr., nú 313 kr., kaupmáttur 83.9. Dilkakjöt, 1. flokkur, 101.50 1971, núna 269 kr., kaupmáttur 81.2. Súpukjöt, 1 kg, 112 kr. 1971, nú 290 kr., kaupmáttur 83.1. Léttsaltað, 1 kg, 137 kr. 14. júlí, nú 341 kr., kaupmáttur 86.5. Og loks kartöflur, 5 kg pokinn kostaði 14. júlí 1971 50 kr., nú kostar hann 182 kr., kaupmáttur 59.1. — Þetta er ömurlegur lestur.

Flestum þeim mönnum, sem komnir eru til vits og ára, er ljóst, að hér stefnir í fullkomið óefni. Má vel vera, að hæstv. fjmrh. teljist ekki í þeirra tölu. Stjórnin virðist láta gersamlega reka á reiðanum, og þegar málin eru komin í þetta, þá er vert, að þm. spyrji, og raunar öll þjóðin: Hvar eru úrræði ríkisstj. til þess að reyna að hefta eða draga úr þessari óheillaþróun? Enginn ætlast til þess, að ríkisstj. geti stöðvað verðbólguna, enda er hún öðrum þræði alþjóðlegt fyrirbæri. En ríkisstj. ber vissulega skylda til að reyna að draga úr innlendum forsendum til verðbólgumyndunar. Mér virðist þvert á móti flestar aðgerðir hennar hafa verið af þeim toga að kasta olíu á verðbólgubálið, og ríkisstj. er í raun og veru með stefnu sinni komin inn í einhvers konar vitahring. Ríkisstj. eyðir og eyðir, pumpar stöðugt meiru og meiru fé út í þjóðfélagið, sem auðvitað glæðir verðbólguna og eykur þar af leiðandi kostnaðinn. Þess vegna þarf ríkisstj. meira og meira fé í ríkissjóð. Og þess vegna hefur það orðið hið ömurlega hlutskipti þessarar ríkisstj., að það er eitt meginverkefni hennar að reyna að ná í meira og meira fé af almenningi, ná með öllum hugsanlegum leiðum fé af almenningi, meiri og meiri skattheimtu, þannig að þetta er nátengt, eyðsla og skattheimta, þetta er vitahringur og er orðið eitt helsta auðkenni núv. ríkisstj. Og verðbólgan er samkv. opinberum skýrslum á árinu 1973 28% á ári hér á Íslandi. Það er eitt land í Evrópu, sem hafði svipaða verðbólgu, og ríkisstj. til mikillar ánægju get ég nefnt það land, það er Grikkland. tunnur ríki voru með verðbólgu frá 7 og upp í 12%. Og nú eru horfur á því, að verðbólgan verði um 40% á árinu 1974, ef ekkert er að gert. Þess vegna spyr ég aftur: Treystir ríkisstj. sér í raun og veru að láta þetta dankast áfram endalaust?

Að sjálfsögðu munu margir þm. úr stjórnarherbúðunum, sem ég taldist einu sinni til, bera mér á brýn, að ég sé að bregðast stjórninni, og það er náttúrlega pólitískur málflutningur þeirra. En ég hygg satt að segja, að það sé ríkisstj., sem hafi hlaupist frá stefnumálum sínum. Og til þess að sanna það ætla ég nú að koma með örlítið innskot í þennan málflutning minn, þm. til ánægju og sérstaklega hæstv. fjmrh., og lesa örlítið upp úr Ólafskveri, þ.e.a.s. stefnuskrá ríkisstj., til þess að sjá, hvernig stefnumiðin koma heim við þá stefnu, sem rekin er hér í efnahagsmálum. Þannig segir í dæmi 1 með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur ríka áherslu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum.“ — Það var nú það. — „Í því skyni mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti.“ — Hvar er þetta niður komið ? — „Til þess að ná þessu marki vill stjórnin hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekenda um ráðstafanir í efnahagsmálum.“

Mér eru þær gerókunnar, þessar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem eiga að leggjast gegn verðbólguþenslu í þjóðfélaginu. Þetta var þáttur 1. Þáttur 2, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þeirra kjarabóta, er að framan greinir, telur ríkisstj., að með nánu samstarfi launafólks og ríkisstj. sé mögulegt að auka í áföngum kaupmátt launa verkafólks, bænda og annars láglaunafólks um 20% á næstu tveimur árum, og mun hún beita sér fyrir, að því marki verði náð.“

Ef ég fer með rétt mál varðandi kaupmátt verkafólks gagnvart búvöruverði, hefur ekki kaupmáttur launa vaxið um 20%, heldur rýrnað verulega.

3. þáttur, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í efnahagsmálum: Að söluskattur á ýmsum nauðsynjavörum verði felldur niður.“

Þetta er meira að segja tekið orðrétt upp úr stefnuskrá Framsfl., og það var eitt helsta baráttumál núv. hæstv. fjmrh. að berjast gegn hækkun söluskatts, þegar hann var í andstöðu við ríkisstj. Nei, nú á ekki að fella niður söluskatt á ýmsum nauðsynjavörum, heldur koma söluskattinum upp í þær upphæðir, sem varla er hægt að teygja sig til.

Og síðan kemur 4. atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gagnger athugun fari fram á núgildandi verðlagningu á sem flestum sviðum í því skyni að lækka verðlag eða hindra verðlagshækkanir.“

Svo mörg eru þau orð. Ég spyr: Eru svona orð án framkvæmda tekin upp úr Speglinum eða stefnuskrá núv. ríkisstj. á Íslandi?

Af þessum sökum leyfi ég mér að draga þá ályktun, að það sé enginn fótur fyrir því, þegar er verið að bera þær ádeilur á mig, að ég hafi brugðist ríkisstj. í efnahagsmálum, þvert á móti. Það er ríkisstj., sem hefur ekki haft tök á því eða ekki getu til þess að fylgja fram þeim málefnasamningi, sem ég stóð að í upphafi ásamt öðrum stjórnarþm. En af þessu hefur leitt, að ég á ekki lengur samleið með núv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Ég vil orða þetta eins og hv. þm. Björn Pálsson gerir stundum: Ég tek ekki þátt í svona hringavitleysu. Þess vegna er nú málum komið svo hér á Alþ.,ríkisstj. hefur ekki þinglegt bolmagn til þess að seilast frekar ofan í vasa almennings, og þá eru góð ráð dýr.

Jú, ein leið var til. Það var að fá samtakamátt alþýðusamtakanna til þess að samþykkja skattbreytingu og þannig reyna að koma með þessi mál inn um bakdyrnar, ef svo mætti segja. Áður en ég kem að vandamálinu um það, að hve miklu leyti Alþingi Íslendinga beri að taka tillit til samþykkta af þessu tagi, vil ég aðeins koma með smáforsögu.

Ég las það í blöðum, að ríkisstj. hefði á vissu stigi samningaviðræðnanna borið upp þá till. við samninganefnd Alþýðusambands Íslands, að hún samþykkti tollalækkanir, en jafnframt samþykkti þá ASÍ 1% söluskattsstig í staðinn. M.ö.o.: ríkisstj. Íslands hafði ekki haft bolmagn til þess að koma þessu fram á þingi rétt fyrir jól. en þá á að fara að ræða þessi mál við fulltrúa samninganefndar Alþýðusambands Íslands, hvort samninganefndin fallist á tollalækkanir og 1% söluskattsstig á móti. Hvað er hér verið að gera? Þetta er beinlínis svívirðing við Alþ. sem stofnun. Hugmyndin er sú hjá ríkisstj., að því er virðist, að reyna að fá svona samþykkt og reyna svo að standa í þeirri trú, að þm. séu gungur og samþykki svona hluti, af því að það kemur með stuðningi forustumanna Alþýðusambands Íslands. Hér átti m.ö.o. að nota þessa stöðu til þess að knýja þm. til þess að samþykkja eitt söluskattsstig, sem ekki hafði þingfylgi. Ef þetta er rangt meðfarið hjá mér, þá leiðréttir hæstv. fjmrh. það, en þetta las ég í blöðum oftar en einu sinni og hef það fyrir satt, meðan ég veit ekki betur. (Gripið fram í: Hvaða blöðum?)

Nú er komið að miklu vandamáli. Það er, að hve miklu leyti samþykktir, sem gerðar eru milli ríkisstj. og samninganefndar ASÍ, eigi að hafa áhrif á gerðir alþm? Um þetta má margt segja, en ég vil þó í upphafi segja það, að sú þróun að draga inn í samningagerð við verkafólk úrbætur í skattamálum og húsnæðismálum er óeðlileg. Úr því að hér situr við völd ríkisstj., sem kallar sig stjórn vinnandi fólks, ber henni þá ekki skylda til að leysa þessi mál sjálfstætt? Þarf virkilega kaupgjaldsbaráttu verkalýðsins, til þess að ríkisstj. hefjist handa um úrbætur í húsnæðismálum eða skattamálum? Auðvitað ber ríkisstj., sem vill bera nokkra ábyrgð, að reyna að leysa þessi mál eftir félagslegum leiðum í anda hins vinnandi fólks í landinu og þá jafnvel kanna, ef hún vill, hvaða óskir þessi máttugu félagssamtök hafa í þessum efnum. Hún á að leysa þessi mál sjálf. Eða hvaða vit er í því að sitja mestmegnis auðum höndum í húsnæðismálum á þriðja ár og þá allt í einu fara að tala um úrbætur í húsnæðismálum í sambandi við launabaráttu verkafólks og meira að segja gefa úrbætur upp sem einhvers konar víxil fyrir næstu stjórn: þetta á að gerast í tíð næstu stjórnar? Og í sambandi við skattamálin, ég spyr, á ekki ríkisstj. að reyna að leysa skattamálin og hafa skattheimtuna þannig, að hún sé viðunandi fyrir verkafólk í landinu? Þarf samtakamáttur verkalýðsins að koma til, svo að stjórn hins vinnandi fólks lagfæri skattamálin? Mér er spurn. Og svo þegar vinnubrögð eru af þessu tagi og ríkisstj. gerir þessa samninga við verkafólk, þá telur hæstv. fjmrh., að það sé óvirðing við alþýðusamtökin, ef Alþ. samþykkir ekki einróma þessa skattbreytingu, sem hér um ræðir.

Ég vil benda á eitt: Verkafólk og launþegar óskuðu eftir því að lækka tekjuskattinn. En verkafólki og launþegum kemur ekki ýkjamikið við í reynd, á hvern hátt það er gert. Það er í raun og veru ekki samningsatriði, og það er Alþingis að ákveða slíka hluti. Það eru ekki hagsmunahópar úti í hæ, sem búa hér til löggjöf. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa fullt samstarf og fulla samvinnu við alþýðusamtökin, en hitt, að afhenda löggjafarvaldið til ákveðinna hópa, það er ekki gerlegt, enda ekki ætlunin, og ég tala nú ekki um, þegar forustumenn verkalýðsins virðast eins gersamlega sneyddir viti á skattamálum og verðbólgumálum og kemur fram í þeirri skattbreytingu, sem hér um ræðir.

M.ö.o.: ég vil leggja áherslu á það, að löggjafarvaldið er á hinu háa Alþ., og það er gagnslaust að beita þeirri aðferð við þm. að gera samning við Alþýðusambandið og telja svo, að Alþ. sé að sýna alþýðusamtökunum óvirðingu, þó að forustumenn alþýðusamtakanna séu svo vitlausir að gera svona samninga eins og um skattatilfærsluna.

Ég lít svo á, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé af tvennum toga spunnið: Í fyrsta lagi að lækka tekjuskattinn, sem full nauðsyn er á og ég hef hvað eftir annað vakið máls á og reynt að berjast fyrir. Ríkisstj. hefur ekki hlustað á það fyrr en fyrst núna, að verkalýðurinn þarf með samtakamætti sínum að knýja ríkisstj. til þess. Og svo er það hinn þátturinn í þessu frv., að reyna um leið að seilast til meira fjármagns en tekjulækkuninni nemur, og það held ég, að sé eitt meginatriðið í þessu frv. þrátt fyrir allt.

Varðandi frv. sjálft verð ég að segja það, að það er illt yfirferðar og torlæsilegt. Í fyrsta lagi ægir þarna saman ýmsum breytingum: breytingum á tekjuskatti, breytingum á söluskatti og launaskatti, allt í einni bendu. Mér er óskiljanlegt, hvað veldur því, að hækkun launaskatts er tekin inn í þetta frv. Mér skilst, að frv. heiti „frumvarp til laga um skattkerfisbreytingu“. Ég fæ ekki séð, að það sé verið að breyta launaskattinum neitt nema bara hækka hann, ekki er það skattkerfisbreyting. Það er sagt, reyndir þm. segja mér, að þetta tíðkist. En engu að síður er þetta mesti óskapnaður, því að hér ægir öllu saman. En hinn pólitíski tilgangur mun væntanlega vera sá, að ef 5 söluskattsstigin verða felld, þá eigi hin mikla ábyrgð að hvíla á öxlum hinna sömu þm., að þá verði engin tekjuskattslækkun og ekki fáist meira fé í Byggingarsjóð ríkisins. Þetta er þvingun, þetta er þvingunartækni, sem beitt er við þm. Hún hefur tíðkast áður, ég þykist vita það, en þetta er þvingunartækni, sem tíðkast kannske hér í stjórnmálunum.

Ég hef lengi talið nauðsynlegt, eins og ég sagði áður, að lækka tekjuskattinn, enda hefur hann í tíð núv. ríkisstj. hækkað um 320%. En ég hef líka talið, að hin eðlilega og einfalda lækkun væri fólgin í því að skera niður ríkisútgjöldin, t.d. 5% af fjárl. eða þá um 1.5 milljarða. Þetta vekur og leiðir hugann að því, að ég hygg, að það sé nauðsynlegt við gerð fjárl. að ríkisstj. ákvarði, hve há fjárlög mega vera miðað við forsendur þjóðarbúskaparins. Ég hygg, að það sé óverjandi lengur að fara að safna verulega í sarpinn og vera í óvissu um, hverjar verða niðurstöðutölur fjárl. Ég hygg, að það hljóti að verða að taka upp skipulegri hætti í þessum efnum. Það er annað líka, þessi leið dempar verðbólguna, sem er að mínu viti eitt höfuðatriðið, en söluskattshækkunin beinlínis örvar verðbólguna, jafnvel þó að söluskatturinn fari ekki inn í kaupgjaldsvísitöluna.

Verkalýðshreyfingin hefur óskað eftir lagfæringu á tekjuskattinum, og það ber að hafa fullan skilning á því. Hins vegar er það ekkert samningsatriði við Alþýðusamband Íslands,hvernig ríkisstj. stendur að þessari tekjuskattslækkun. Það hlýtur að vera meginatriði fyrir verkafólk og launþega að fá tekjuskattslækkun. En ég sé ekki, að það sé neitt atriði í þessu sambandi og e.t.v. samningsatriði, þó að tekjuskattslækkunin sé gerð með öðrum hætti en að hækka söluskattinn um 5 stig.

Ég skal nú ekki ræða meira um almenn atriði, aðeins taka nokkur atriði um sjálft frv.

Ég tel, eftir því sem ég fæ best séð, að 5 söluskattsstig gefi meira fé í ríkissjóð en sú tekjuskattslækkun, sem ríkisstj. hefur í huga. Það er viðurkennt í grg., að 5 stig gefa á ári 4000 millj. en hin raunverulega tekjuskattslækkun er 2700 millj. Ég vil leyfa mér að vísa til rökstuðnings hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, um þetta efni, þar sem hann benti réttilega á, að ekki væri rétt að telja tekjurnar af söluskattinum eingöngu á þessu ári, vegna þess að söluskatturinn er ekki álagður eingöngu fyrir þetta ár, heldur líka fyrir árið 1975 og framvegis. Menn verða að lita á heildarmyndina. Þetta er ekkert einstakt dæmi um þetta eina ár, 1974, heldur verða menn að taka mið af heildartekjum söluskattsins á næstu árum og sjá, hvernig það fellur inn í mótun efnahagslífsins. Ég fæ því ekki séð annað en hér sé um stórvægilega auknar álögur að ræða, sem verða þeim mun meiri sem lengra líður. Ég vil minna á, að árið 1971, þegar núv. ríkisstj. kom til valda, taldist söluskattsstigið vera um 450 millj. Nú telst það gefa 800 millj. Það er mjög líklegt, að söluskattsstigið verði um 900 millj. síðla árs, og ég er sannfærður um, að það verður yfir 1 milljarð, þegar komið verður fram á árið 1975 með óbreyttri stefnu, þannig að menn verða að átta sig á því, hvaða álögur menn eru að leggja hér á þjóðina.

Þá kemur það mér mjög spánskt fyrir sjónir, þegar hæstv. fjmrh. vill ekki taka með næsta desembermánuð inn í söluskattsdæmið, af því að hann bókstaflega kemur fram á árinu 1975. Ég tel þetta bara spaug. Dettur hæstv. fjmrh. ekki í hug, að við þurfum að borga söluskatt hér í des., þó að ríkissjóður bókfæri þetta í jan? Svona röksemdir verða náttúrlega bara til uppi í fjmrn.

En það, sem ég tel alvarlegast í þessu dæmi, er verðbólguaukningin, sem fylgir þessu. Ég vil minna á það, að Svíar voru að lækka núna virðisaukaskattinn um 21/2 stig, og ég heyrði það í hádegisútvarpinu í dag, að sérfræðingar Breta í þessum málum voru að ráðleggja Wilson, að helsta ráðið til þess að draga úr verðbólgunni væri að draga úr skattheimtunni. Þetta hljómar undarlega hér á Íslandi. En þetta er satt engu að síður, því að aukin skattheimta og aukin eyðsla spenna upp verðbólguna.

Annars verð ég að segja það, að útreikningar þeir, sem fylgja frv., eru harla merkilegir, en um þá má náttúrlega deila eftir því, hvaða forsendur menn gefa sér. En það, sem mér þótti skemmtilegast við útreikninginn, var í raun og veru, að það á að lækka tekjuskattinn um 2700 millj. Til þess að gera það og leggja 550 millj. í einhvers konar jöfnunarsjóð, þá þarf að auka álögurnar á almenning um 550 millj., til þess að koma fram kerfisbreytingunni. En allir græða. Ég skil þetta ekki almennilega. Það þarf að leggja 550 millj. á þjóðina, til þess að kerfisbreyting geti átt sér stað, en allir græða, nema bara vesalings ríkissjóðurinn náttúrlega. Allir græða, þó að álögurnar verði meiri. Ef maður les hér um einhleypinga, foreldri með börn, allar mögulegar tekjur, græða allir, — þó að álögurnar aukist, græða allir á breytingunni. Þetta verður bara til uppi í fjmrn. A.m.k. á ég mjög erfitt með að átta mig á svona útreikningi. Hverjir eiga þá að borga þetta? Hverjir eiga að borga gróðann? Annars ætla ég ekki að ræða þessa töflu meira, því að ég tel, að þetta sé allt saman meira og minna reist á sandi. Ég vil benda á t.d. til gamans, að hér er sagt, að tekjuskattur hjóna með tvö börn og árstekjur 800 þús. lækkar um 51500, söluskatturinn hækkar um 25 þús. M.ö.o.: beinir peningar, beinar og harðar krónur og drjúgar í vasann 26500 kr. Þetta væri nú gott og blessað. En ég get ekki látið vera að minna á, að hvað skyldi nú húsnæðið hækka á árinu, hæstv. fjmrh.? Lítil íbúð, sem kostar 2 millj., það er líklega kjallaraíbúð, mér er ekki kunnugt um það, kostar líklega í árslok 3.5 millj. Íbúðarhúsnæði tvöfaldaðist á síðasta ári. Og þetta heldur áfram, svo að það er von, að hæstv. fjmrh. sé stoltur yfir að geta náð í 26 þús. Hér er nefnilega komið að kjarna málsins. Það er sjálf verðbólgan, sem er viðfangsefnið, en ekki svona gutl.

Hér er búið til nýtt kerfi, sem er kallað afsláttarkerfi, og það er myndað til þess að greiða þeim aðilum til baka fé, sem ekki hafa greitt tekjuskatt eða lítinn tekjuskatt. Þetta er einhvers konar jöfnunarsjóður, til þess að hinir tekjuskattslágu eða tekjuskattslausu fái líka ávinning af þessari kerfisbreytingu. Hugsunin á bak við þetta er allra góðra gjalda verð. Þarna er verið að reyna að ná tekjujöfnun á þennan hátt. Og ég skal ekki lasta það, síður en svo. En inn í þetta dæmi koma ýmsir hlutir, sem vekja mann til umhugsunar. Mér virðist, að með svona kerfi sé í raun og veru verið að hjálpa ríki og bæ til þess að ná inn vanskilasköttum láglaunafólks, sjúklinga og námsmanna og annarra, sem ekki hafa af ýmsum ástæðum getað greitt sín gjöld. Það er sagt í frv., að með þessu muni ráðstöfunartekjur aukast. En varla verður það hjá sumum aðilum, því að þetta er fé, sem viðkomandi gat hvort sem er ekki greitt, þannig að ráðstöfunartekjur hans á því ári munu ekki aukast. Ég vil benda á, að í þessari 4. gr. er meira að segja kveðið svo á: „til greiðslu ógoldinna þinggjalda mannsins frá fyrri árum“. Menn eiga að fara að greiða gamlar syndir út á þetta. Og það læðist að mér sá grunur um þessar 550 millj., sem eiga að fara í jöfnunarsjóðinn, að það muni stór hluti af þessum 550 millj. vera kyrr í kistunni hjá honum Halldóri. Mig grunar, að þetta verði m.ö.o. til þess að greiða að hluta vanskilagjöld, sem ríkissjóður hefur ekki haft bolmagn til þess að ná inn.

Þessar 550 millj. má kalla framfærslustyrk til ríkisins, þetta er eiginlega sveitarstyrkur færður yfir í skatt. Og það veldur líka öðru, mér sýnist hér verið að taka verkefni af Tryggingastofnuninni. Sú þróun hefur átt sér stað alls staðar, þar sem ég þekki til, að samræma tryggingastofnun ríkisins og skattkerfið, þannig að tryggingastofnun ríkisins sé jöfnunarstofnun, en ekki komíð með einhverja nýja tegund jöfnunarstofnunar innan skattkerfisins. Mér þætti gaman að vita, hvort hæstv. fjmrh. gæti bent á nokkur hliðstæð dæmi um þetta, úr sögu Íslendinga eða annarra þjóða, að taka upp svona kerfi. Það væri mjög fróðlegt að vita það. Ég fæ ekki betur séð en hérna sé bara enn verið að auka á ringulreiðina í tryggingamálunum. Það er bara verið að búa til skrifstofubákn og gera hlutina miklu flóknari en þörf er á. Verkefnið hjá íslendingum er að sjálfsögðu að færa tekjujöfnunarkerfið eingöngu til Tryggingastofnunar ríkisins. En með þessu er verið að koma með alveg nýtt tekjujöfnunarkerfi og ég held mjög óheppilegt og kostnaðarsamt.

En svo er líka annað í þessu. Eins og menn vita, hafa ýmsir sæmilega stæðir útgerðarmenn ekki greitt tekjuskatta til ríkisins, og þ. á m. eru ýmsir menn, umsvifamenn og umsýslumenn í þjóðfélaginu. Þá merkir það, að þeir þurfi að fá greiddan skattafsláttinn til baka. M.ö.o.: það á að taka á framfæri ýmsa mektuga útgerðarmenn, sem greiða ekki tekjuskatt, gera þá að þurfalingum á tekjuskattsframfæri hjá ríkinu. Ég vil nefna það, að einn mjög merkur verkalýðsforingi, meira að segja sérfræðingur skattanefndar ASÍ, mun ekki greiða háan tekjuskatt, svo að viðkomandi maður gæti líklega fengið eitthvað af þessu. M.ö.o.: snillin er fólgin í því að koma ýmsum mönnum, m.a. sæmilega stæðum útgerðarmönnum ýmsum duglegum verkalýðsforingjum á þurfamannatal, á skattframfæri hjá ríkinu. Og þetta er heldur óskemmtilegt. Ég held, að svona hugmyndir séu þess virði að kynna t.d. frændum okkar á Norðurlöndum þessar aðferðir. Þetta er alveg ný tækni, að fara að greiða stórríkum mönnum og verkalýðsforingjum uppbætur á tekjuskattinn, sem þeir greiða ekki. Ég tel, að þessi hugmynd hæstv. fjmrh. sé útsöluvara og það megi vafalaust koma henni einhvers staðar í fé. En ég er ekki viss um, að neinn vilji taka við henni.

Svo er eitt atriði í þessu, sem ég hef ekki komist hjá, og það er, að hátekjumennirnir græða mest. Það á að lækka hæsta skattþrepið úr 44% niður í 40%. Hvað merkir það? Það merkir það, að hátekjumennirnir græða mest á þessari breytingu, þeir fá 4% lækkun. Þeir menn, sem eru með 3 millj. í tekjur, hagnast bara á þessari lækkun upp undir 120 þús. kr. Væri nú ekki betra að líta betur á þessa hluti, áður en er farið út í svona lagað?

Ég er nú víst búinn að vera allmargorður um þetta. En ég vil segja það, að ég tel. að tekjuskattslækkun sé nauðsynleg, en ekki gerð á þennan hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Það, sem skiptir þó mestu máli, er það, að ég vil beina því eindregið til ríkisstj. og geri það af góðum hug, að hún reyni nú að fara að taka á þessum verðbólgumálum, á dýrtíðarmálunum. Mér virðast ýmis úrræði koma til greina. Ég tel t.d. koma mjög til greina verðtrygging inn- og útlána, að verðtryggja sparifé almennings og fá jafnvægi á peningamarkaðnum. Ein meginorsök verðbólgunnar er eftirsókn eftir fjármagni, þar sem menn greiða miklu minna en þeir fá í hendur af verðmæti, og þess vegna ráðast menn í framkvæmdir, sem ekki eru nauðsynlegar, veita sér ýmsa hluti, sem ekki eru nauðsynlegir, því að það er gefið fé að fá lánað. Hins vegar rýrnar sparifé manna, og það eru eigendur þess, sem borga. Ég held, að það ætti að athuga það mjög gaumgæfilega, hvort ekki ætti að taka upp verðtryggingu sparifjár. Að vísu þyrfti þá að gera ýmsar hliðarráðstafanir í sambandi við húsnæðismarkaðinn, því að einhvern veginn þarf að styðja við bakið á ungu fólki, en þá verður að taka það upp sem sérstakt verkefni við hliðina á þessum hlutum. Ég held, að við hljótum að þurfa að fara að gera eitthvað í þessum málum. Mér er óskiljanlegt annað. Og það er annað: Ef okkur tækist að verðtryggja sparifé, þá munum við fá traust „kapítal“ í landinu. Það hagar þannig hjá okkur, að við þurfum alltaf að sækja til erlends lánamarkaðar til þess að fá fjármagn. Skuldirnar við útlönd aukast stöðugt og náttúrlega í erlendum gjaldeyri. Væri nú ekki ráð að reyna að mynda og verðtryggja hér einhvern „kapítal“—markað, og þá væri unnt að fjármagna ýmis verkefni með innlendu fjármagni? Ætli það væri ekki dálítið meira vit í því?

Hér er varla hægt að snúa sér við með einhverja hluti, án þess að allir séu með lántökur erlendis, og menn vita, hvaða áhrif það hefur á þjóðarbúið og verðbólguna. Hér þarf auðvitað margt að koma til, ekki aðeins verðtrygging innlána og útlána. Það þarf að gera úttekt á ríkisbákninu, það þarf niðurskurð á útgjöldum til ríkis og sveitarfélaga, það þarf ýmsar samræmdar aðgerðir til þess að hægja á verðbólgunni. Þetta hygg ég, að sé meginatriðið, og þetta er skylda hverrar ríkisstj., að reyna að bregðast við vandanum eftir bestu getu, en ekki láta reka á reiðanum.

Ég mun nú láta þetta nægja að sinni, enda er þetta 1. umr. Það má vel vera, að ég þreyti hv. þm. með því að taka aftur til máls um þetta frv.