08.03.1974
Neðri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

259. mál, skattkerfisbreyting

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., um skattkerfisbreytingu, hefur ýmsa kosti og galla og öllu meiri galla en kosti. En þó hefur það vissa kosti, m.a. þann, að með þessu frv. liggur það ljóst fyrir, að launþegasamtökin í landinu hafa knúið hæstv. ríkisstj. til þess að breyta að nokkru leyti um stefnu í skattamálum. Þetta er meginkostur þessa frv. Annar kostur þessa frv. er sá, að hér er hreyft í fyrsta sinn hugmynd að skattafsláttarkerfi. Þó að það kerfi sé að minni hyggju gallað, eins og það kemur fram í þessu frv., er þetta allrar athygli vert, og vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að ef þetta yrði lögfest, mundi Ísland vera fyrsta landið í heiminum, sem hefði slíkt kerfi.

En megingallar frv. eru þeir, að hér er um allt of litla kerfisbreytingu að ræða, hér er gengið allt of skammt í því að breyta um frá tekjusköttum yfir í neysluskatta, eyðsluskatta. Að vísu er nægilega langt gengið, — og ég mun sýna fram á það hér, — í að taka upp neysluskatta og söluskatta, en allt of lítil breyting gerð á tekjusköttunum. Það er stefnt með þessu frv., álít ég, að stórfelldri heildarskattheimtu, og skattafsláttarkerfið er ófullkomið, eins og ég benti á áðan. Ég vil benda á það í sambandi við það mál, að ég fæ ekki almennilega skilið, hvernig hægt er að framkvæma það kerfi á sæmilega skynsamlegan hátt öðruvísi en að tekið sé upp staðgreiðslukerfi skatta. Skattafsláttarkerfið, ef það er tekið upp eins og er gert ráð fyrir í frv., þá verkar það árið eftir að viðkomandi hefur haft það litlar tekjur, að hann fær skattafslátt. Nú getur málið staðið þannig af sér, að hann hefði haft þörf á því frekar að fá þessa aðstoð á því ári, sem hann varð svona tekjulítill, og öfugt, þannig að það er afskaplega mikill galli á þessu kerfi, ef það yrði tekið upp, að ekki er staðgreiðslukerfi. En hv. þm. er kunnugt um, að það mál er mjög flókið og erfitt viðureignar.

Þá er annar galli við þetta skattafsláttarkerfi, að inn í það er ekki tekið fjölskyldubótakerfið og ýmsar tryggingabætur, en það væri í rauninni það, sem þyrfti að gera, ef ætti að taka upp slíkt kerfi af einhverju viti.

Þegar ég fékk þetta frv. í hendur, — kl. 4 í fyrradag, held ég, að hafi verið, — þá vaknaði sú spurning með mér, hvort ekki væri verið að endurtaka hér söguna frá 1972. Þá lagði hæstv. ríkisstj. fyrir frv. um skattamál, og í þeim frv. var fólgin skattkerfisbreyting að sögn ríkisstj. og í þeim var í raun fólgin skattkerfisbreyting, þ.e.a.s. það voru felldir niður nefskattar, sem kallaðir voru svo, að nokkru, en teknir upp verulegir tekjuskattar, og það var hugvitssamlega útreiknað þá, að þetta kerfi mundi létta allverulegum sköttum af þjóðinni. Ég held, að það sé rétt munað hjá mér, að í nál. hv. meiri hl. fjhn. þessarar hv. d. hafi komið fram, að með þessu kerfi yrði létt 370 millj. kr. skattbyrði af þjóðinni. Reynslan varð nokkuð önnur, eins og við hv. þm. reyndum að benda hæstv. fjmrh. á á þeim tíma. Og ég held, að það sé að endurtaka sig sama sagan nú. Þá var gamla kerfið, sem kallað var, metið á þann hátt, að það var miðað við skattvísitölu 106.5, en hefði verið sanngjarnt að meta það miðað við skattvísitölu 121.5, og með þessum reikningskúnstum fann hæstv. ráðh. það út, að það væri verið að létta sköttum af þjóðinni. Hann hefur sennilega ekki áttað sig á því gullvæga heilræði, sem hv. þm. Björn Pálsson gaf honum einu sinni, að ef hann setti vitlausar tölur inn í tölvu, þá fengi hann áreiðanlega vitlausa útkomu.

En það var annar megingalli á því kerfi, sem þá var tekið upp, að það kom mjög illa við eldra fólk, ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Við nokkrir þm. reyndum að benda hæstv. ráðh. á þetta, og m.a. skrifaði ég grein um þetta í Morgunblaðið, sem hæstv. ráðh. hæddist sérstaklega að í umr. En ef hann hefði lesið þessa grein kvölds og morgna með málefnasamningnum sínum, hefði hann ekki þurft að gefa út brbl. tveim eða þrem mánuðum seinna til þess að létta sköttum af gamla fólkinu. En þetta er nú útúrdúr.

Hvað felst í raun og veru í þessu frv., sem hér er til umr.? Ég fæ ekki betur séð en það felist í því í fyrsta lagi, að tekjuskattslækkunin, sem í veðri er látin vaka í frv., sé allmiklu minni en þar segir. Hins vegar sé ég ekki betur en stefnt sé að stórfelldari skattálögum í óbeinum sköttum heldur en nokkurn fær í raun og veru órað fyrir, sem ekki gáir vel að, hvað er að gerast. Ég vil aðeins víkja að þessum fullyrðingum mínum og færa fyrir þeim nánari rök.

Þá vil ég fyrst nefna það, sem ég kalla skollaleikinn með skattvísitöluna. Þessi skollaleikur hæstv. ráðh. með skattvísitöluna ýkir stórlega raunverulega tekjuskattsívilnun, sem þetta frv. hefur í för með sér, eða er sagt, að það hafi í för með sér. Lauslega áætlað sýnist mér, að þessi skollaleikur auki á pappírnum þessa tekjuskattslækkun um 1000 millj. kr. Eftir stendur þá raunveruleg tekjuskattslækkun samkv. þessu frv. Hún er ekki 2700 millj., heldur 1700 millj. Þessi niðurstaða er ofur auðskilin. í fjárl. 1973 var skattvísitala ákveðin 128 stig, en 1974 aðeins 154 stig. Hækkun hennar og þar með auðvitað persónufrádrátta og skattþrepa hefði því einungis numið 20.3%, miðað við gildandi fjárlög og skattalög. Á hinn bóginn er óhætt að fullyrða, að bæði launatekjur og framfærslukostnaður hefði hækkað um ekki 20.3% á þessu tímabili, heldur 30% milli skattáranna. Sú ákvörðun ráðh., að skattvísitalan skyldi aðeins vera 154 stig fyrir árið 1974, merkir það, að ráðh. hefði seilst ofan í vasa skattborgara í landinu eftir tekjuskatti, sem væri um 1000 millj. kr. hærri en á árinu 1973. Þetta frv. verður því að metast þannig, að það sé leiðrétting á óréttlætanlegri skattvísitölu að því marki, 1000 millj. kr.

Ég vil geta þess, að ég hef borið saman persónufrádrátt í skattstiga gömlu, góðu tekjuskattslaganna og núv. hæstv. ríkisstj. og ákvæði þessa frv., miðað við það, sem ég vildi kalla réttlætanlega skattvísitölu árið 1974. Þessi vísitala er 166 stig eða 30% hærri en árið 1973. Niðurstaðan er þessi: Samkv. skattvísitölu 166 og lögum, sem eru í gildi, fengju einhleypingar 240 þús. í frádrátt, en fá samkv. frv. 238 þús. Þeir fá sem sagt 2000 kr. minna með þessu frv. heldur en væri eftir núgildandi l., ef rétt skattvísitala væri höfð. Hjón fengju 10 þús. kr. minna með þessu frv. í persónufrádrátt heldur en vera mundi með óbreyttum l., ef rétt skattvísitala væri viðhöfð. Barn fær 200 kr. minna og einstakt foreldri 3600 kr. minna. Persónufrádráttur er sem sagt í öllum tilvikum eftir þessu frv. ívið lægri en vera mundi, ef skattvísitala milli áranna 1973 og 1974 hefði hækkað um 30%, eins og sanngjarnt var og eðlilegt vegna bæði 30% hækkana á launum, sem talin er lágmarksáætlun, og hækkunar á framfærslukostnaði. — Ég vil í þessu sambandi minna á það, að hæstv. ráðh. getur vart haft nokkuð við þessa útreikninga að athuga og þeir stjórnarþm. fluttu á sínum tíma frv. um það, að skattvísitalan hækkaði eftir framfærslukostnaði. En hvað þýðir þetta, ef litið er á það á annan hátt? Það merkir í raun og veru, að launþegum er ætlað að greiða á annað prósentustig í söluskatti, í söluskattshækkun óbættri, til þess að fá fram þann sjálfsagða og eðlilega rétt sinn, að skattvísitala sé rétt metin á þessu ári. Það, sem veldur því, að tekjuskattar lækka engu að síður um 1700 millj. kr. vegna þessa frv. og miðað við rétta skattvísitölu, þótt persónufrádráttur yrði svipaður í báðum tilvikum, eru skattþrepin. Þau eru nokkru hagstæðari í þessu frv. skattgreiðendum heldur en vera mundi í gildandi l., þótt rétt skattvísitala væri viðhöfð. Skattstigarnir mundu verða þannig eftir gildandi l. og vísitölu 166: Skattskyldar tekjur frá 0–83 þús. yrðu skattlagðar með 25%, frá 83 þús. upp í 125 35% og frá 125 og þar yfir 44% skattálagning. En samkv. frv., eins og hv. þm. vita, er þessi stigi örlítið hagstæðari, og mestu munar um það, eins og kom hér fram í ræðu hv. þm. Bjarna Guðnasonar, að af tekjum yfir 200 þús. kr. eru tekin 40% í stað 44% af tekjum yfir 125 þús. kr., ef rétt væri með núgildandi lög farið.

Þá hverf ég frá skollaleiknum með skattvísitöluna, sem er hliðstæður þeim, sem hv. þm. kynntust 1972 í umr. hér á hv. Alþ. og þjóðin ásamt hæstv. ríkisstj. hefur sopið seyðið af síðan. Ég vík þá að öðru meginatriðinu, sem ég vildi ræða og ræddi áðan, en það er sú stórfellda aukna skattheimta, sem ríkisstj. stefnir að í óbeinum sköttum. Á sama hátt og um skollaleikinn með skattvísitöluna er einkar ljóst, hvað ríkisstj. hyggst fyrir í þessu efni. Verðbólgustefna hennar, sem hefur verið geigvænleg og batnar ekki á þessu ári, að því er séð verður, m.a. vegna áhrifa nýrra kjarasamninga og stórhækkunar á innflutningsverðlagi, — það er verðbólgan, sem er lykillinn að þessum auknu skattpíningaráformum. Dæmið lítur þannig út:

Ef innflutningur eykst í krónutölu eins á árinu 1974 og reynslan varð á árinu 1973, er tekjuáætlun fjárl. vanreiknuð um 750 millj. kr. í tolltekjum, og hefur þá verið dregin frá 400 millj. kr. tollívilnun samkv. nýju frv. um tollskrá. — Herra forseti. Ætli hæstv. ráðh. sé einhvers staðar nálægur? Mér þætti skemmtilegra, að hann sýndi d. þá virðingu að vera viðstaddur umr. (Forseti: Hann hefur þurft að bregða sér frá. Ég geri ráð fyrir, að hann komi að vörmu spari. Ég skal láta kanna það.)

Ef söluskattsstofn hækkar eins á árinu 1974 og reynslan varð 1973, eru tekjur af 11% söluskatti vantaldar í fjárl. um 780 millj. kr. Ef laun hækka um 30% frá síðasta ári í stað þess, að það var miðað við 25–26% í fjárl., þá er launaskattur vantalinn um 300 millj. kr. Ef hækkun á áfengi og tóbaki verður á árinu 1974 svipuð og verið hefur, má varlega áætla, að tekjur ríkissjóðs á þeim lið séu vantaldar um nálega 600 millj. kr. Þetta eru samtals 2430 millj. kr., og eru þá ótaldar vanáætlaðar tekjur af innflutningi bifreiða, sem vafalaust verða miklar vegna kaupæðis, tekjur vegna hækkunar á eigin húsaleigu, sem talin er gefa ríkissjóði um 150 millj. kr. í tekjuskatt umfram áætlun fjárlaga, bensínhækkunin er þá ótalin og hækkun tolltekna af þeim sökum o.s.frv., o.s.frv. Því lætur nærri, að áætla megi, að tekjur ríkissjóðs vegna óbeinna skattálaga aukist sjálfkrafa a.m.k. um 3000 millj. kr. umfram áætlun fjárl., þegar allt er talið, ekki síst ef haft er í huga, að innflutningsverðlag hækkar stórlega frá fyrra ári og veltuhraðinn og aukningin í þeirri óðaverðbólgu, sem nú ríkir, verður vafalítið meiri á yfirstandandi ári en á árinu í fyrra.

En þessu til viðbótar ætlar hæstv. ríkisstj. að taka 5% stiga hækkun á söluskatti, sem hún segir sjálf að gefi 4000 millj. kr. á ársgrundvelli, og hækka launaskatt um 600 millj. kr., sem auðvitað lendir meira eða minna á almenningi í skertu svigrúmi atvinnuveganna til kaupgreiðslna og kemur auk þess niður í hækkuðu vöruverði. Það er mál út af fyrir sig, sem sýnir, hvað einblínt er á hag ríkissjóðs í þessu frv., að reiknað er einungis með innheimtum söluskatti á árinu 1974, en ekki þeim söluskatti, sem almenningur greiðir á árinu, þótt hann verði ekki kominn í ríkiskassann, og engin grein er gerð fyrir því, hvort ætlunin er að lækka söluskatt um næstu áramót, en á árinu 1975 gæfi 5 stiga söluskattshækkun ekki einungis 4000 millj., heldur miklu, miklu hærri tölu en það.

Að sjálfsögðu hækka útgjöld ríkissjóðs á móti öllum þessum álögum vegna verðbólgunnar. En hversu mikið hækka útgjöld ríkissjóðs? Er virkilega þörf á öllum þessum hækkunum í hítina til þess að fá fram raunverulega tekjuskattslækkun, sem nemur einungis 1700 millj. kr., og 550 millj. kr. á ársgrundvelli í nýtt skattafsláttarkerfi? Eru þetta ekki spurningar, sem krefjast afdráttarlausra svara, áður en Alþ. er fært um að taka raunsæja afstöðu til þessa máls?

Að sjálfsögðu höfðu forustumenn launþegasamtakanna enga aðstöðu til að meta þetta í því margflókna samningaþófi, sem þeir stóðu í. Á hinn bóginn á Alþ. skýlausa kröfu á því að fá þessar upplýsingar í hendur, og það er skylda þess að meta það í ljósi tiltækra upplýsinga um afkomu ríkissjóðs, hve langt á að ganga í hækkun söluskatts og launaskatts eða hvort yfirleitt er þörf á slíku við þær aðstæður, sem nú ríkja.

Þessar tölur um auknar óbeinar skattálögur ríkissjóðs umfram tekjuáætlun fjárl. eru miðaðar við reynslu s.l. árs, eins og ég veit best, að hún hafi verið, og það frv., sem hér er til umr. Það hefur auðvitað ekki gefist langur tími til að grandskoða þetta dæmi. Ég fullyrði þó, að sú mynd, sem ég hef hér brugðið upp af tekjuhlið ríkisfjármálanna og áhrifum þessa frv., sýnir, svo að ekki verður um villst, að það væri algert glapræði að hrapa að afgreiðslu þessa frv. og alger lágmarkskrafa, að hæstv. ráðh. geri Alþ. grein fyrir ríkisfjármálunum í heild, áður en frv. verður afgreitt.

Það, sem ég hef sagt hér að framan, verður að skoðast á þeim bakgrunni, hvernig ríkisstj. hefur staðið að skattheimtu á undanförnum árum. Um það hef ég tekið saman nokkrar tölur, sem lýsa vel þessu skattæði, ef svo mætti að orði kveða. Álagður tekju- og eignarskattur var 1971 einungis 1525 millj. kr., 1972 var hann 4449 millj. kr., 1973 var hann kominn í 5759 millj. kr., en þetta er 377% hækkun í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Á fjárl. 1974 er þessi skattur áætlaður 7190 millj., og ef dregin er frá sú lækkun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en bætt við þeirri skattahækkun, sem verður, vegna þess að álagningarstofninn var vanáætlaður, — ef þetta er reiknað út, kemur samt tekju- og eignarskattur í ríkissjóð á árinu 1974 þrátt fyrir þetta frv. að upphæð yfir 5000 millj. kr., sem er 337% hækkun frá síðustu fjárl. fyrrv. ríkisstj. — En það er ekki bara þessi skattur, sem hefur hækkað svona. Hæstv. ráðh. segir vafalaust við þessu: En man hv. þm. ekki eftir því, að nefskattarnir voru felldir niður, persónuskattarnir, og það hefði gefið 3300 millj. kr. í ríkissjóð á þessu ári, að mig minnir, að hann segði í umr, við afgreiðslu fjárl. Víst man ég eftir því. En það eru fleiri skattar, sem hæstv. ráðh. hefur hækkað, heldur en bara tekjuskatturinn. Hann hélt 11/2% af launaskatti, hann hækkaði innflutningsgjöld af bílum, og hann hefur, eftir því sem við hv. þm. höfum komist næst, hækkað áfengi og tóbak nokkrum sinnum, síðan hann kom í ráðherrastól, þannig að ef teknar eru allar þessar skattahækkanir hæstv. ráðh., þá fer nú glansinn að fara af lækkun svonefndra persónuskatta. Enda er það svo, þegar maður athugar aðrar skattálögur ríkisstj., aðrar en tekju- og eignarskatt, að aðflutningsgjöld hafa hækkað um 219% í tíð þessarar ríkisstj., söluskattur hefur fram til þessa hækkað um 278% og mundi, ef þetta frv. yrði að l., hækka upp í 330%. Persónuskattarnir eru — viti menn — nokkurn veginn nákvæmlega þeir sömu hjá þessari hæstv. ríkisstj. og hinni fyrri, og það er öll niðurfelling persónuskattanna. En launaskatturinn hefur hækkað um 426%, ef þetta frv. verður að lögum. Söluskatturinn verður þá kominn í 11 milljarða á ársgrundvelli og launaskatturinn í 1800 millj. kr., en söluskatturinn var aðeins 3241 millj. árið 1971 og 422 millj. launaskattur. Þannig hefur verið staðið að skattheimtunni í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., og menn verða að virða sumum til vorkunnar, þó að þeir fórni ekki höndum og blessi ríkisstj. fyrir þetta frv., sem hún er að leggja hér fram og er afskaplega óveruleg breyting á þeirri stefnu, sem hún hefur haft, að því er varðar tekju- og eignarskatta, en stórfelld, — ég fullyrði það, — stórfelld áform um hækkun á söluskatti fram yfir það, sem hún hugsar sér að lækka tekjuskattinn um.

Að lokum vil ég svo koma inn á eitt mál í sambandi við þetta, sem ég tel einna alvarlegast, þegar skoðuð eru skatta- og efnahagsmál okkar. Ef það er rétt, sem ýmsir halda fram, að það muni ekki verða samdráttur í innflutningi á þessu ári, — en fjárlög eru miðuð við það, að innflutningurinn aukist einungis um 15–16%, og viðskiptajöfnuður okkar við útlönd er miðaður við það, — ef það er rétt, að innflutningurinn jafnvel vaxi á þessu ári frá því, sem var í fyrra, þá verður viðskiptahalli okkar ekki bara 4100 millj. eða 4400 millj. kr., eins og sérfræðingar hafa spáð, heldur mundi hann verða nær tvöfalt meiri, eða 8000–10000 millj. kr., að óbreyttum þeim útflutningi, sem menn búast við að verði á þessu ári. Þegar þetta er skoðað í ljósi þeirrar geigvænlegu skuldasöfnunar erlendis, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, metgóðærisárum, þá er vissulega vá fyrir dyrum. En þetta leiðir hugann að því, að það er í raun og veru algerlega útilokað að taka raunsæja afstöðu til slíks frv. eins og hæstv. ríkisstj. hefur hér lagt fyrir Alþ., nema fyrir liggi upplýsingar um ástand efnahagsmálanna yfirleitt og áform ríkisstj. til að stemma stigu við því verðbólguflóði, sem eykst nú dag frá degi og hv. þm. Bjarni Guðnason lýsti hér áðan. Þetta tel ég, að sýni ljóslega, að það er meira en hæpin fullyrðing hjá hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, að þetta frv. beri að ræða og skoða í þeim þrönga skilningi að bera saman krónu í tekjuskattslækkun á móti krónu í söluskattshækkun. Verðbólgan og væntanleg kollsteypa í efnahagsmálum, ef ekki er að gert, margfalda söluskattsálögur ríkisstj., en tekjuskattslækkunin er ákveðin, vegna þess að menn borga skatta af launum sínum, sem eru þegar orðin, og jafnframt er auðvelt að taka þessa tekjuskattslækkun aftur í skollaleik skattvísitölunnar á næsta ári, ef hæstv. ríkisstj, býður svo við að horfa. Þó að ekki væri af öðru en þessu, er svo þröng umr. og athugun á þessu máli ósamboðin hv. Alþ.

En ég vil svo aðeins að lokum spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann telji ekki þörf á því núna að gera almennar ráðstafanir í efnahagsmálum til þess að hamla við þeirri óðaverðbólgu, sem ekki hefur fundist orð yfir. Hæstv. ráðh. notaði þetta orð í tíð fyrrv. ríkisstj., og það hafa ekki fundist orð yfir þá verðbólgu, sem hefur verið, á meðan hann hefur setið í ráðherrastóli. En ég nota nú þetta orð engu að siður, það má kannske segja: bandóð verðbólga. Telur hæstv. ráðh. ekki ástæðu til þess að gera einhverjar ráðstafanir til að sporna við þeirri þróun, og er það virkilega svo, að ríkisstj. áformi ekkert í því efni? Og hvenær verða þá þær till., sem ríkisstj. hefur í pokahorninu, ef hún hefur einhverjar í þessum efnum, lagðar fyrir hv. Alþingi?