08.03.1974
Neðri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

259. mál, skattkerfisbreyting

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er til of mikils ætlast af hæstv. forseta, ef hann gerir ráð fyrir því að skera niður umr. um þetta mál. Þetta mál er svo stórt, að það er fullkomin ástæða til þess að ræða það hér í sölum Alþ. (Gripið fram í.) Það er sama, hvort það er 1. umr. eða ekki, það er ástæða til þess að ræða þetta mál, áður en það fer til n., og fá upplýsingar, sem nauðsynlegar eru, til þess að alþm. geti tekið raunhæfa afstöðu í málinu.

Þetta frv. hefur sennilega verið samið á Loftleiðahótelinu, og hæstv. fjmrh, hefur látið sér sæma að segja við alþm.: Ef þið samþykkið ekki frv. óbreytt, verður ekkert gert, sem ætlast er til í sambandi við skattabreytingu, sem hirtist í þessu frv. — Það er ekki sæmandi að fara þannig að, og um það hefur verið rætt hér áður og á það bent. Enda er ekki nokkur hætta á því, að hæstv. ráðh. standi við þessi stóru orð. Mikið held ég, að hann hafi verið feginn í gær, þegar hv. 7. þm. Reykv. gaf næstum því tilboð, en þó ekki bindandi, að mér skildist, að Alþfl. væri nú tilbúinn til þess að samþykkja 31/2 % söluskattshækkun. Ég er alveg sannfærður um, að hæstv. fjmrh, gleypir þrátt fyrir stóryrðin við þessu, þegar hann á kost á því.

En nú er það með hv. 7. þm. Reykv. eins og aðra, að hann á vitanlega rétt á því að endurskoða afstöðu sína í réttu ljósi, þegar upplýsingar liggja fyrir um það, hver tilgangurinn er með þessu frv. umfram kerfisbreytinguna. En tilgangurinn er að moka fjármunum í ríkissjóð langt umfram það, sem ætlað er að gefa til baka. Hv. 5. þm. Norðurl. e. minntist á það hér áðan, að tekjuskattslækkunin væri raunverulega ekki nema 1700 millj., ef um það væri að ræða, að skattvísitalan væri í samræmi við tekjuhækkun á milli ára, eins og oftast hefur verið. En skattvísitalan hefur verið ákveðin, og það er áreiðanlegt, að hæstv. fjmrh. ætlar sér ekki að breyta henni. Þess vegna er ekki um annað að ræða í þessu dæmi heldur en 2700 millj. Og það er rétt, að menn geri sér ljóst, að raunverulega hefði hæstv. fjmrh. með þessu, að ákveða skattvísitöluna 154 í stað 166, haft einn milljarð af skattborgurunum umfram það, sem réttlætanlegt er.

En þetta frv. á sína sögu, eins og kunnugt er og kynnt hefur verið. Það er sagt, að það sé byggt á samkomulagi við launþegasamtökin. Launþegasamtökin hafi óskað eftir kerfisbreytingu í skattamálum. Launþegasamtökin hafa stunið undan skattabyrðinni eins og aðrir landsmenn. Í Reykholti s.l. sumar var stefnan mörkuð af launþegasamtökunum. Skattabyrðin hefur alltaf verið að þyngjast, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Það er eðlilegt, að launþegarnir, sem gerðu sér í fyrstu háar vonir um þessa hæstv. ríkisstj., vilji nú fylgja fast eftir að fá skattbreytingu og skattalækkanir. En forustumenn launþeganna höfðu ekki aðstöðu til á Loftleiðahótelinu að skyggnast inn í leyndardóma fjármálanna, og þess vegna er hætt við, að þeir hafi látið blekkjast af hæstv. fjmrh., þegar þeir féllust á 5% söluskattshækkun fyrir þá tekjuskattslækkun, sem þeim var gefinn kostur á.

Það er eðlilegt, að um þessi mál sé rætt, og það er nauðsynlegt fyrir hv. alþm. að gera sér glögga grein fyrir stöðu ríkissjóðs og fyrir því, hvað ríkisstj. ætlar í rauninni að innheimta og leggja í nýjum sköttum á skattborgarana og hvað það er, sem hún ætlar sér að gefa til baka. Það má merkilegt heita, að hæstv. ríkisstj. skuli endilega þurfa á hverju ári að auka álögur á fólkið í landinu. Þessi hæstv. ríkisstj. tók við góðu búi á miðju ári 1971, eins og kunnugt er, og enginn efast um, að svo hafi verið, eftir að hæstv. forsrh. gaf skriflegt vottorð þar um í sölum Alþ. haustið 1971. Hæstv. forsrh. sagði, að eftir athugun á þjóðarbúinu og stöðu atvinnuveganna hefði ríkisstj. talið sér fært að lofa 20% kaupmáttaraukningu á tveimur árum, styttingu vinnuvikunnar og ýmsum öðrum fríðindum launþegum til handa. Góðæri hefur verið, síðan hæstv. ríkisstj. komst til valda. Þess vegna hefði verið eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hefði staðið við þau loforð, sem gefin voru í upphafi valdaferils hennar. En það er nú flestum ljóst, að hæstv. ríkisstj, hefur brugðist þeim loforðum, sem hún hefur gefið. Nú er það svo, að þegar menn hittast og taka tal saman, ef annar hefur verið stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., þá er gjarnan að því spurt: Ert þú enn þá stuðningsmaður ríkisstj.? — Og sumir segja: Já, ég er það enn þá. — Aðrir segja eins og hv. þm, Bjarni Guðnason: Nei, það er ég ekki. — Það er enginn vafi á því, að nú er svo komið, að hæstv. ríkisstj. verður að gera sér grein fyrir því, að hún er að missa það fylgi, sem hún hefur haft í landinu. Þjóðin treystir ekki þessari ríkisstj. lengur, vegna þess að hún hefur brugðist þeim loforðum, sem hún hefur gefið, og vegna þess, að í því stjórnleysi, sem nú ríkir í landinu, er beinlínís háski á ferðum.

Ég tel rétt, að það sé athugað rækilega, hversu mikið ríkisstj. þarf raunverulega að innheimta, ef það verður sett í lög að gefa eftir 2700 millj. af tekjuskatti, miðað við þá skattvísitölu, sem nú hefur verið ákveðið, og miðað við þær 650 sem ríkisstj. telur nauðsynlegt að taka með í reikninginn til bóta fyrir þá, sem ekki hafa greitt tekjuskatt. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir þessu. Ég get sagt eins og einhver sagði hér áðan: Það er sjálfsagt að hafa allan fyrirvara á slíkum dæmum. Þau eru vitanlega til endurskoðunar. En ég vil benda á, að í fjárl. fyrir árið 1974 er áætlað, að kauphækkun milli áranna 1972 og 1973 hafi verið 26%. En raunveruleg hækkun mun hafa verið 32 eða allt upp í 34%. Ég reikna aðeins með 32%. Þá er hækkun frá því, sem áætlað var, 23%. Tekjuskattur einstaklinga í fjárl. 1974 er áætlaður 5806 millj. kr. 23% hækkun gefur 1335 millj. kr., sem tekjuskatturinn ætti að hækka samkv. þessum útreikningi umfram það, sem hann er áætlaður í fjárl. Innflutningur mun verða mikill á árinu, því að það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í gær, að kaupæði hefur gripið fólkið. Flestir búast við gengislækkun og hækkuðu vöruverði og flýta sér því að kaupa það, sem talið er þörf á að eignast, ef mögulegt er að útvega fjármagn til þess.

Hækkun erlendis hefur vitanlega mikið að segja auk innlendra ráðstafana til hækkana, en það má segja, að hæstv. ríkisstj. hafi gert ýmsar ráðstafanir til þess að hækka vöruverð og þjónustu innanlands. Má gera ráð fyrir a.m.k. 25% aukningu á innflutningi á þessu ári umfram það, sem áætlað er í fjárl. Í fjárl. eru innflutningstollar áætlaðir 8514 millj. kr. og 880 þús. 25% aukning á tollum gerir 2128 millj. 720 þús. kr. Söluskattur í fjárl., sem rennur til ríkissjóðs, er áætlaður 6702 millj. kr. Var reiknað með, að hvert stig gæfi til ríkissjóðs 609 millj. kr. Verður því mikill tekjuauki af 11% söluskattinum umfram það, sem áætlað var, þegar fjárlög voru samþ., hvort sem söluskattsstigið er áætlað gefa 800 millj. eða 900 millj., eins og hv. þm. Bjarni Guðnason sagði hér áðan. Ef óðaverðbólgan heldur áfram, er mjög líklegt, að söluskattsstigið gefi a.m.k. 900 millj. En sé söluskattsstigið reiknað á 800 millj., eins og gert er í þessum dæmum, verður tekjuaukning 4000 millj. kr. á ársgrundvelli.

Launaskattur er áætlaður á fjárl. 1200 millj. kr., og er þar tekið með 2.5% gjaldið. Launahækkunin milli ára mun hafa verið, eins og áður er sagt, 32% í stað 26%, og gefur 23% hækkun því 276 millj. kr. á þessum lið, launaskatturinn hækkar um þá upphæð.

Ég nefni ekki þá óvæntu hækkun, sem ríkissjóður fær vegna bensínhækkunarinnar, en innflutningsgjald af bensíni og söluskattur munu verða 360 millj. kr. hærri vegna verðhækkunarinnar heldur en áætlað er í fjárl. Þessi upphæð á ekki að ganga til ríkissjóðs, heldur í vegasjóð, sem nú er mjög fjárþurfi, og mörg hundruð millj. kr. mun vanta, til þess að unnt verði að sinna allra nauðsynlegustu verkefnum í vegagerð. Ég tek þess vegna ekki þessa upphæð inn í dæmið sem auknar tekjur fyrir ríkissjóð.

Ef þær upphæðir aðrar, sem ég hef nefnt, eru dregnar saman, verður það allmikil fúlga, sem tekjuaukning ríkissjóðs verður vegna verðbólgunnar umfram það, sem áætlað er í fjárl., auk hinna nýju gjalda, sem fyrirhugað er að lögfesta með þessu frv. Eru það rúmlega 9 milljarðar kr., þessar tölur, sem ég hef nefnt, samanlagt,

eða 9150 millj. kr. Ég hef ekki áætlað auknar tekjur af aukinni áfengis- og tóbakssölu, og það eru fleiri tekjuliðir í fjárl., sem ég hef ekki áætlað neina tekjuaukningu af, þó að um aukningu sé vitað. Ég tel rétt að hafa það í varasjóði fyrir auknum útgjöldum, sem ég kann að hafa ekki reiknað með, en ég hef reiknað með stærstu útgjöldum, sem kunna að aukast vegna verðbólgunnar.

Ég er sannfærður nm það, að þegar farið er ofan í þetta dæmi, mun mörgum sýnast, að tekjuaukningin verði meiri, jafnvel 10–11 milljarðar. En mér þótti vissara að vera í neðri kantinum í þeirri áætlun, sem ég hef hér gert. Það má auk þess minna á, að það eru ýmsir fleiri tekjuliðir í fjárl., sem hækka, eins og ég áðan nefndi. En ríkissjóður mun að sjálfsögðu verða fyrir auknum útgjöldum umfram það, sem áætlað er í fjárl., vegna hinnar miklu verðbólgu, sem geisar, auk skattkerfisbreytingarinnar, sem fyrirhugað er að lögfesta. Má ætla, að gjöldin aukist mikið, eða um 6550 millj. kr., og verður þá hækkun tekna umfram gjöld 2600 millj. kr. Í tekjuáætluninni er reiknað með 5% söluskatti, sem gæfi 4000 millj. kr., en tekjur umfram gjöld í áætluninni voru, eins og áður segir, 2600 millj. kr. En þá upphæð má draga frá fyrirhuguðum 5% söluskattstekjum, 4000 millj. kr. Mismunur á þessu dæmi verður þá 1400 millj. kr., eða tæplega sú upphæð, sem 2% söluskattur mun gefa. Það er því nægilegt að samþykkja 2% söluskattshækkun til þess að ná þeim tekjum, sem þarf vegna breytinga á skattakerfinu, sé miðað við frv. En við sjálfstæðismenn teljum, að tekjuskattur verði að lækka meira, ef mögulegt er að koma því við, og er það í samræmi við frv. sjálfstæðismanna um skattamál, sem lagt var fram í vetur.

Það kemur vissulega til álita, hvort þörf er á að samþykkja nokkra söluskattshækkun, hvort ekki væri eðlilegra nú í verðbólgunni að stefna að því að lækka útgjöld ríkissjóðs og draga úr eyðslu og ríkisútgjöldum vegna þenslu í ríkiskrefinu. Tölur þær, sem ég hef hér nefnt, er sjálfsagt að endurskoða, þótt þær séu byggðar á allnákvæmum áætlunum.

Skattrán ríkisstj. hefur orðið mörgum þungt í skauti, bæði einstaklingum og atvinnurekstrinum. Verðhólgustefna ríkisstj. brennir upp gjaldmiðilinn, rýrir kaupmátt launanna og íþyngir atvinnurekstrinum og einstaklingunum. 5% söluskattshækkun gerir atvinnurekstrinum erfiðara fyrir og hækkar allt vöruverð og þjónustu í landinu. Allt efni til iðnaðar hækkar. Samkeppnisaðstaða atvinnuveganna versnar. Iðnaðurinn horfir nú til erfiðra tíma. Fyrir landbúnaðinn er hár söluskattur mjög óþægilegur og kostnaðarsamur. Ein dráttarvél til heimilisþarfa hækkar um nálægt 30 þús. kr. við 5% söluskattshækkun. Allar vélar, varahlutir, viðgerðir o.fl. hækka við söluskattsaukninguna. Sjávarútvegur, samgöngur og allar atvinnugreinar verða að taka á sig nýjar byrðar með fyrirhugaðri söluskattshækkun. Söluskatturinn fer út í verðlagið og hækkar vöruverðið og öll þjónustustörf.

Hér geisar óðaverðbólga. Það er öllum ljóst nema e. t. v. hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. kyndir undir og hangir í valdastólunum án þess að stjórna. Hún situr aðgerðalaus og horfir á, hvernig efnahagsmálin fara úr skorðum og atvinnuvegunum er ógnað í verðbólguflóðinu. Ríkisstj. virðist ekki hugsa um atvinnuvegina eða lífskjör almennings í landinu. Hún bætir stöðugt auknum byrðum á almenning og atvinnuvegina.

Þetta frv. boðar hækkun launaskatts. Hefur Félag ísl. iðnrekenda mótmælt launaskattshækkuninni kröftuglega.

Þegar söluskatturinn hækkar stöðugt, er ekki sanngjarnt að ætlast til, að hann verði innheimtur að kostnaðarlausu. Innheimtunni fylgir kostnaður og aukin ábyrgð með hækkuðu gjaldi. Þegar skatturinn var greiddur ársfjórðungslega til ríkissjóðs, höfðu fyrirtækin skattinn í rekstrinum um þriggja mánaða skeið. Var það nokkurs virði og sparaði vaxtagreiðslur af rekstrarfé. Nú er ekki um það að ræða, eftir að skattinum er skilað mánaðarlega. Ábyrgðin er mikil, sem fylgir innheimtunni, þar sem brot gegn réttum reglum geta varðað allt að 6 ára fangelsi eða 10 millj. kr. sekt, eins og lagt er til að lögfest verði með þessu frv. Það getur ekki verið sanngjarnt að ætlast til, að þjakaðir atvinnuvegir taki að sér að vinna umfangsmikil ábyrgðarstörf án sanngjarnrar þóknunar. Það þarf að breyta frv. á þann veg, að sanngjörn greiðsla komi fyrir innheimtu og skil á söluskattinum.

Þjóðin hefur búið við mikið góðæri s.l. 3–4 ár. Aflabrögð hafa verið góð. Útflutningsverð sjávarafurða hefur stöðugt farið hækkandi. En þjóðin hefur ekki notið góðærisins sem skyldi vegna verðbólgunnar. Ríkisstj. lofaði því, að verðhækkanir hér á landi yrðu í samræmi við það, sem gerist í viðskiptalöndum okkar. En alþjóðlegar skýrslur sýna, að verðhækkanir í viðskiptalöndum okkar eru tæplega 1/3 af því, sem gerist hér. Á viðreisnarárunum frá 1960–1971 voru árlegar verðhækkanir til jafnaðar um 10%. Var það nokkru meira en gerðist í mörgum viðskiptalöndum okkar, en var mörg ár nærri því, sem þar var. Á árunum 1967–1968, þegar útflutningstekjur þjóðarinnar lækkuðu um nær 50%, voru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem ollu verðhækkunum á innfluttum vörum. Varð það til þess, að áðurnefnt meðaltal var 10–11 % á 12 ára tímabili. Árið 1972 var 20% verðbólga hér á landi, á s.l. ári 30%, og búist er við, að á árinu 1974 geti verðbólgan orðið 40–45%.

Ríkisstj. talar mikið um erlendar verðhækkanir, og ekki skal gert lítið úr þeim. Af þeim geta komið erfiðleikar. En það er staðreynd, að ekki meira en verðhækkananna hefur átt sér stað vegna erlendra áhrifa. 2/3 hækkananna eru því heimatilbúnir.

Ríkisstj. hefur ekki valdið verkefnunum og brugðist loforðum og fyrirheitum. Ríkisstj. hefur kallað sig „stjórn hinna vinnandi stétta“ og lofað að auka kaupmátt launa. Hvernig hefur það loforð verið haldið? Hefur ríkisstj. einnig svikið það loforð eins og flest önnur? Hvað segja launþegar um það? Verkamenn sögðu á s.l. hausti, þegar við þá var talað, hvort sem þeir voru á hafnarbakkanum í Reykjavík eða annars staðar á landinu, að þeir væru miklu fjær því nú en áður að geta lifað á 8 stunda vinnu, nú yrðu þeir að vinna 12–14 tíma á dag til þess að hafa fyrir brýnustu nauðsynjum. Þannig fór með kaupmáttaraukninguna, sem ríkisstj. lofaði, þegar hún tók við völdum. Vegna vanefnda ríkisstj. í þessum efnum höfðu launþegar á þessum vetri uppi kröfugerð um meiri kjarabætur en áður og áttu í hörðu stríði við ríkisstj. í marga mánuði. Og enn er ósamið við sjómenn og ýmsar fleiri launastéttir.

Á árinu 1973 hækkaði kaupgjald með vísitöluhækkuninni yfir 30%, en í því fólst ekki kjarabót. Verðbólgan tók allt til baka í hækkuðu vöruverði og hækkaðri þjónustu. Menn spyrja nú: Verða kjarabætur að nýgerðum samningum milli atvinnurekenda og launþega? Ekki reikna menn almennt með því. Verðbólguhjólið snýst hraðar en nokkru sinni fyrr. Málin horfðu öðruvísi við á viðreisnarárunum. Þá jókst kaupmáttur launa, þótt árferði væri ekki eins gott og það hefur nú verið. Á 13 mánaða tímabili, frá 1. júní 1970 til 30. júní 1971, jókst kaupmáttur launa um 19.5%. Þetta hefur verið staðfest í opinberum skýrslum og ekki rangt. Sýnir það, að ekki er sama, hvernig á málum er haldið, hvort spyrnt er gegn verðbólgunni eða hvort allt er látið reka á reiðanum, eins og nú virðist vera.

Menn óttast, að gengislækkun komi, nema aflabrögð stóraukist og útflutningsverð afurðanna hækki enn meira en orðið er. Almenningur nýtur ekki góðærisins vegna verðbólgunnar, sem grefur undan heilbrigðri atvinnustarfsemi. Hér hefur verið minnst á launþegana, sem kvarta undan vanefndum ríkisstj. vegna minnkandi kaupmáttar launa, þótt krónunum fjölgi. Í góðærinu ættu atvinnuvegirnir að eflast. Forustumenn vinnuveitenda hafa talað og lýst því yfir, að atvinnuvegirnir gætu ekki veitt grunnkaupshækkanir þrátt fyrir góðærið. Eigi að síður var samið um talsverðar grunnkaupshækkanir. Að loknum samningum létu samningamenn frá báðum aðilum í ljós ótta um, að samningarnir mundu ýta undir verðhækkanir, sem gætu leitt til gengisbreytingar.

Forustumenn iðnaðarins í flestum greinum hafa talað og lýst áhyggjum sínum. Forustumenn annarra atvinnuvega hafa tekið í sama streng. í landbúnaðinum hefur verið góðæri síðustu 4 ár. Árið 1970 hækkuðu tekjur bænda um 40%, árin 1971, 1972 og 1973 hefur afkoma landbúnaðarins verið sæmileg, en ekki eins góð og ætla mætti í góðærinu vegna verðbólgunnar og stöðugt hækkandi rekstrarvara. Alltaf hefur vantað nokkuð á, að bændur fái tekjur í samræmi við aðrar stéttir. Eftir 1960 batnaði hlutur bændanna með breyttri landbúnaðarlöggjöf. Þá var tekið í lög að ábyrgjast verð útfluttra landbúnaðarvara, og hefur það tryggt bændum miklu betri kjör en áður var.

Árferði var gott frá 1960–1965, og hættu bændur hag sinn mjög á þeim árum. Þeir hyggðu upp íbúðarhús, peningshús og ræktuðu meira en nokkru sinni fyrr. Þeir tóku tæknina og vélarnar í þjónustu sína í mjög ríkum mæli. Árið 1964 höfðu tekjur bænda hækkað mikið frá því, sem áður var, og voru það ár 84.3%, miðað við þær tekjur, sem aðrar stéttir, iðnaðarmenn, verkamenn og sjómenn, höfðu það ár. 1965 voru tekjur bænda 86.2% af tekjum áðurnefndra stétta. Á kal- og harðindaárunum lækkaði tekjuhlutfallið og var árið 1970 76.8%, en 1972 nokkru meira, 78.9%. Hvert tekjuhlutfall bænda var 1973, liggur ekki enn fyrir. Óvíst er, að það hafi hækkað frá því 1972. Mikið vantar á, að bændur hafi náð því tekjuhlutfalli, sem var í góðærinu 1965. Er það ekki bændum eða forustumönnum þeirra að kenna, heldur því stjórnarfari, sem allir þjóðfélagsþegnar búa við og gjalda fyrir. Það er verðbólgunni að kenna.

Ríkisstj. virðist vera rúin öllu trausti. Eigi að síður ætla ráðh. að sitja í stólunum án þess að stjórna, vera aðgerðalausir, meðan verðbólguhjólið snýst með auknum hraða. Það er þjóðarnauðsyn að efna sem fyrst til alþingiskosninga og mynda starfhæfa ríkisstj., sem styðst við ríflegan þingmeirihluta og hefur getu og vilja til þess að rétta við það, sem nú er úr skorðum gengið. Þjóðarhag verður ekki þjónað, nema það verði gert sem allra fyrst.

Eins og ég áðan sagði, er það reikningsdæmi, sem ég las hér upp, til endurskoðunar. Ég kemst að þeirri niðurstöðu, að þótt frv. verði ekkert breytt, sé ríflegt að samþykkja 2% söluskattshækkun. Ég tel einnig, að það sé vel til athugunar, hvort ekki beri að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, draga úr eyðslunni og þenslunni í ríkiskerfinu. Hv. fjhn. þessarar d., sem fær frv. til athugunar, hlýtur að endurskoða frv. og öll þau gögn, sem fyrir liggja. Og það er nauðsynlegt að komast að raunhæfri niðurstöðu í þessu máli. Það er engin meining í því að leggja hærri álögur á þjóðina en nauðsyn ber til. Og það er vitanlega algerlega rangtúlkað, þegar sagt er, að það sé móðgun við launþegastéttirnar, Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin, að samþykkja ekki þetta frv. algerlega óbreytt. Við skulum vera sammála um, að launþegastéttirnar vilji fá þessa kerfisbreytingu. En við getum einnig verið sammála um, að launþegastéttirnar vilja helst fá þessa breytingu án þess, að söluskatturinn eða aðrar álögur verði auknar á alþýðu manna.