11.03.1974
Efri deild: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

65. mál, orlof

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af fsp. hv. 6. landsk. þm. í sambandi við framkvæmd orlofsins, þ.e.a.s. þess þáttar sem snýr að póstgíróþjónustunni.

Ég er ekkert undrandi yfir því, þó að um þetta sé spurt, því að á sjálfum mér hafa dunið fsp. af svipuðu tagi, og það er alveg rétt, sem kom fram hjá honum, að menn hafa verið uggandi yfir því, að þetta fyrirkomulag blessaðist ekki eins og til var ætlast.

En þar er þá fyrst til að taka, að merkjakerfið hafði gefist mjög illa og reyndar því verr sem lengur hafði liðið, vegna þess sérstaklega, að mjög fáir virtu það. Meiri hluti atvinnurekenda var farinn að greiða orlofsfé út með kaupi og jafnvel á sumum miklum atvinnustöðum á landinu var það svo til eingöngu. Sem dæmi um þetta man ég það, að t.d. í Vestmannaeyjum komu fram merki fyrir um 50 þús. kr. á ári. Sjá þá allir, hvernig það kerfi hefur gengið þar. Og þó að það hafi kannske verið af lakari endanum, þá var ábyggilegt, að þetta kerfi var ekki í lagi að því leyti, að það fé, sem átti að kosta menn til þess að geta tekið sitt sumarfrí með eðlilegum hætti, var ekki fyrir hendi. Það hafði komið með kaupinu og horfið með kaupinu í venjulegar nauðþurftir.

Það var því orðin ákaflega brýn nauðsyn á að breyta þarna til. Og það, sem gert var, var gert í samráði við verkalýðssamtökin og þá n., sem undirbjó orlofslögin í þeirri mynd, sem þau eru núna. Lögunum var breytt 1972, eins og menn muna, eftir kjarasamningana þá, og þá var horfið að því ráði og samkomulag allra aðila um, að þetta skyldi sett í póstgírókerfi. Reynslan af því hingað til hefur verið að sumu leyti góð og að sumu leyti slæm. Hún hefur verið góð að því leyti, að það er greinilegt, að það kemur mörgum sinnum meira fé í gegnum þetta kerfi heldur en merkjakerfið. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki fjarri lagi, að giska á það, að þegar orlof kemur fyrst til greiðslu í vor í maímánuði, þá muni orlofssjóðurinn, sem stofnunin hefur með höndum, verða um 700 millj. kr. á móti innan við 200 millj. kr., sem fóru í gegnum merkjakerfið. Að þessu leyti er alveg greinilegt, að um stórkostlega mikla framför er að ræða.

En það er líka rétt, og það er kannske aðalerfiðleikinn, sem fram hefur komið fram að þessu, að grg. frá póstgíróþjónustunni eru ekki nægjanlega fljótar að fara í gegnum kerfið, þannig að menn fá ekki upplýsingar um orlofsgreiðslur sínar nægilega snemma, til þess að það sé traustvekjandi. Það er einnig rétt, sem kom fram hjá hv. 6. landsk. þm., að það hafa líka komið fram verulegar skekkjur, sem hefur þurft að leiðrétta. Ég hef margrætt þetta við póst- og símamálastjórnina og sérstaklega við þann mann, sem ber þarna mesta ábyrgð og hefur forstöðu fyrir þessari stofnun, og eftir því sem mér er tjáð, tel ég fyrst og fremst um byrjunarörðugleika að ræða, sem góðar vonir standa til, að hægt sé að bæta úr. Hér er m.a. um það að ræða, að vélar, sem eru nauðsynlegar í sambandi við gagnavinnslu og skýrslugerðir, hafa ekki verið fyrir hendi fyrr en nú fyrir mjög stuttum tíma, fyrir nokkrum vikum, og það hefur tekið tíma bæði að kenna fólki að fara með þessar vélar og eins hafa komið fram byrjunarörðugleikar í sambandi við notkun þeirra. En allt er þetta þess eðlis, að menn gera sér góðar vonir um, að þetta komist í lag, og ég tel mig hafa gert það, sem í mínu valdi hafi staðið, með því að liðka til með það, að nægilegt starfslið vinni við þetta, og eins í sambandi við útvegun á nægilegum vélakosti. Geri ég mér vonir um, að hér sé ekki um neina óyfirstíganlega erfiðleika að ræða og að þessir hlutir verði komnir í lag um það leyti eða helst fyrr en sumarfrí hefjast.

Hitt er svo annað mál, að einn örðugleika hefur mönnum sést yfir, sem er ekki enn komin niðurstaða um, hvernig farið verður með, og ég tel alveg ástæðulaust að leyna, þó að hann hafi ekki verið orðaður hér, en það er vegna þess, að orlofsárið er eftir núgildandi lögum, ef ég man það rétt, frá 30. apríl til 1. maí, menn geta farið í sumarfrí strax í byrjun maímánaðar. En það er algerlega útilokað, að greiðsla, sem er tæplega gjaldfallin á mánaðamótum, geti verið komin í gegnum kerfið, hversu gott sem það væri. Þarna kann að þurfa að koma til einhver lagabreyting í sambandi við þetta, því að einhver tími verður auðvitað að líða, frá því að atvinnurekandi greiðir og þangað til það er komið í gegnum kerfið og í því tilfelli, að menn séu að taka sitt sumarfrí, í hendurnar á viðtakanda. Menn hafa ekki gætt þess fullkomlega, að þegar skipt yrði yfir í þetta kerfi, þá er þarna vandamál á ferðinni, sem ráða verður fram úr í tæka tíð. Ég hef gert ráðstafanir til þess að samtök launþega og vinnuveitenda ræði þetta mál og geri tillögur um það, á hvern hátt með þetta sérstaka vandamál verði farið.

En um tæknilegu hliðina vil ég segja það, að ég ber a.m.k. þá von í brjósti, að hún verði komin í sæmilegt og helst gott lag með vorinu. Ég veit ekki betur en að því sé unnið af kappi og áhuga, að þarna verði ekki árekstrar, sem hljóta að verða, ef þessir hlutir komast ekki í betra lag en þeir hafa verið fram að þessu.