11.03.1974
Neðri deild: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

247. mál, skattaleg meðferð verðbréfa

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 458 er frv. til l. um skattalega meðferð verðbréfa o.fl., sem ríkissjóður selur innanlands. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að þegar fjárlög voru afgreidd hér fyrir jól s.l., var ákveðið, hvað ríkissjóður seldi mikið af verðbréfum innanlands. Hins vegar var ekki talið fært í fjárlögum að geta þeirra hlunninda eða réttinda, sem þessi verðbréf hafa á innlendum markaði. Með þessu frv. er hins vegar gerð grein fyrir þeim, en þau eru þau sömu og verið hefur. Frv. gengur hins vegar í þá átt, að framvegis nægir heimild í fjárlögum til útgáfu og sölu slíkra bréfa, því að ákvæðin um réttindi þeirra eru tryggð í þessu frv., ef að lögum verður, og verður svo, þangað til breyting kann að verða á því gerð.

Þetta frv. var flutt í hv. Ed. og fékk þar fljóta fyrirgreiðslu, og nauðsyn ber til, að það verði einnig í þessari deild. Um það hafa ekki orðið neinar umr., og ég leyfi mér að fara þess á leit við hv. fjh.- og viðskn., að hún taki þetta mál til meðferðar á fundi sínum í dag, svo að það geti orðið hér á dagskrá á morgun, og leyfi ég mér þá að fara fram á það við hæstv. forseta, að það verði tekið hér á dagskrá á morgun, þar sem nauðsyn ber til að ganga frá því sem lögum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.