01.11.1973
Neðri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

8. mál, skólakerfi

Pálmi Jónason:

Herra forseti. Frv. um skólakerfi og frv. til l. um grunnskóla eru nú lögð fram hér á hv. Alþ. í þriðja sinn. Þrátt fyrir það að ég ræddi þessi frv. nokkuð hér á Alþingi í fyrravetur og lýsti þar skoðunum mínum á ýmsum þáttum þessara mála, langar mig enn til að segja örfá orð.

Hæstv. menntmrh. ræddi í sinni framsöguræðu þær breytingar, sem orðið hafa á frv. frá því á síðasta Alþingi, og vil ég segja um þær breytingar í heild, að þær eru ekki veigamiklar. Þær horfa a. m. k. sumar hverjar til bóta, en í þeim er ekki að finna neitt það, er hefur veruleg áhrif á meginuppbyggingu eða meginstefnu þessara frv.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh., að frv. eru byggð á þeirri meginhugsun í fyrsta lagi að jafna aðstöðu nemenda til náms með tilliti til fjárhagslegra aðstæðna og landfræðilegra aðstæðna. Í annan stað miða þau að því að auka menntun og þroska skólafólks. Þessi markmið eru að mínu mati sjálfsögð, og fram hjá þeim verður ekki gengið, þegar sett er löggjöf um undirstöðumenntun þjóðarinnar. Hitt má aftur mjög um deila, hvort þessum markmiðum verði best náð með þeim aðferðum, sem nánar eru útfærðar í þessum frv., eða hvort þar sé rangt að farið og aðrar leiðir megi velja. Það kom fram á síðasta Alþ., að ég er andvígur þeim stefnuatriðum þessa frv., sem boða það að lengja skólaskyldu og lengja árlegan skólatíma nemenda. Þessi afstaða mín er óbreytt, og vil ég leggja enn á hana aukna áherslu, enda þótt það hafi komið fram í ræðum mínum um þetta efni á síðasta Alþ.

Hér var af hv. 5. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. þm. nokkuð vikið að þessu efni hvort heillavænlegra væri að lengja skólaskyldu eða ekki Ég legg þann skilning í orðið „skólaskylda“, að þar sé átt við skyldu nemenda á ákveðnu aldursstigi til þess að sækja skóla, en í orðið „fræðsluskylda“ legg ég aftur þann skilning, að með því sé átt við skyldu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, til að halda uppi aðstöðu til þess, að nemendur geti sótt sér fræðslu og aflað sér þekkingar í skólum og valið þar þær námsbrautir, sem þeir telja mest við sitt hæfi. Á þessu er þannig nokkur munur. Ég vil taka fram, að það er eindregin skoðun mín, að það sé hyggilegra að lengja skólaskylduna frá því, sem þegar er orðið, en þess í stað að sinna því betur að halda uppi fræðsluskyldu þannig, að hún sé virk hvarvetna um landið.

Í grg. þessa frv. er vikið að þeim höfuðforsendum, sem höfundar þess telja, að liggi til þess, að þeir leggja til, að skólaskyldan sé lengd. Þar er frá því greint, að um 82% unglinga hafi stundað nám í 3. hekk gagnfræðastigs skólaárið 1968–1969, og athyglin beinist einkum að þeim 18% nemenda, sem hætt hafa skólasókn, eftir að skyldunámi lýkur eftir annan bekk gagnfræðastigs, enn fremur, að það hafi komið í ljós, að mjög verulegur hluti þessara 18% nemenda hafi verið úr strjálbýli og minni sjávarplássum. Þetta er svo aftur túlkað sem sönnun þess, að nauðsynlegt sé að lengja skólaskylduna um eitt ár til þess að tryggja, að þessir nemendur haldi áfram námi, og með því er sagt, að verið sé að, jafna aðstöðu skólafólks til menntunar um landið.

Ég vil enn á ný ítreka það, sem fram kom hjá mér á síðasta Alþ., að ég lít á þetta sem mjög veigalítil rök, ef ekki hrein falsrök. Það er vegna þess, að þrátt fyrir það að ríki og sveitarfélög hafi unnið í rauninni stórvirki á undanförnum árum í því að byggja upp skólamannvirki víðs vegar um landið, þá er þó enn mikið ógert og sú aðstaða hefur ekki verið sköpuð hvarvetna um landsbyggðina, sem þarf til þess, að nemendur geti aflað sér þekkingar og sótt nám á miðskólastigi, eins og þeir kjósa, í sinni heimabyggð eða nálægt sinni heimabyggð. Þetta er að mínum dómi orsökin til þess, að mikill munur á skólasókn nemenda í strjálbýli og þéttbýli kemur fram í þessum skýrslum. Hér er miðað við skólaárið 1968–1969, og gefur það vitaskuld rétta mynd af því skólaári, en ég hygg, að þessi munur sé nokkuð að minnka, eftir því sem tímar hafa liðið. Ég lít því svo á, að það sé fallin sú forsenda, sem sterkust er talin liggja til þess, að nauðsyn hafi borið til að lengja skólaskylduna um eitt ár, eins og er lagt til í þessu frv. að verði gert.

Um muninn á skólaskyldu og fræðsluskyldu að öðru leyti vil ég láta það koma fram, að meginrök mín fyrir því, að ég tel fræðsluskylduna heppilegri, eru þau, að með því móti sækja nemendur skóla af frjálsum vilja, en eru ekki þar að boði ríkisvaldsins. Það er öllum kunnugt, sem fengist hafa við uppeldismál, hvað verkar mjög á hugi unglinga, hvort þeir vinna tiltekið verk eftir ákveðnu valdboði eða þeir starfa að slíku verkefni að eigin frumkvæði og í samræmi við eigin ákvarðanir. Hefur komið mjög glöggt í ljós, að þessi skilningur er ríkjandi hjá fjölmörgum skólamönnum landsins, og þessi skilningur á því, hvað það hefur mikla þýðingu í sambandi við allt skólastarf, að nemendur séu í skólanum af frjálsum vilja, er, held ég ríkasta ástæðan til þess, að mjög margir kennarar og skólastjórar eru andvígir lengingu skólaskyldunnar, eins og komið hefur fram í fjölmörgum samþykktum þessara aðila. Á sama hátt verkar það mjög á hegðun skólafólks, hvort það sækir skóla eða valdboði, þ. e. á skyldunámsstigi, eða eftir að skyldunámi sleppir. Skólanemendur, sem eru í skyldunámsskóla, eru yfirleitt ódælli viðfangs. Skyldukvöðin gerir þá örari við að brjóta af sér agareglur skóla, og það eru mikil brögð að því, að á skyldunámsstiginu eru meiri vandkvæði á því að halda uppi aga og halda nemendum að nægilega ötulu skólastarfi. Hins vegar verða í flestum tilvikum mjög mikil umskipti, eftir að skólaskyldu sleppir og nemendur sækja skóla eftir eigin ákvörðun. Þá vita þeir, hvað er í húfi. Þeir rækja sitt nám betur, og þeir gera sér ljóst, að ef þeir brjóta verulega í bága við þær reglur, sem í skólunum skal virða, þá eiga þeir á hættu, að þeim verði vísað burt frá námi og þverbrestur komi í þeirra námsbraut. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en ég hygg, eftir því sem ég hef rætt við skólamenn um þessi atriði, að þarna sé mjög veigamikið atriði, sem ekki megi ganga fram hjá, þegar hugsað er til þess, að setja ný lög um það, sem hér er kallað grunnskóli og skólakerfi.

Í sambandi við skólakerfið allt og skólafólk hefur það valdið vaxandi áhyggjum á undanförnum árum, hversu tilteknir hópar námsmanna eða námsfólks hafa virst fjarlægjast atvinnuhætti þjóðarinnar. Slík þróun er óheppileg í hæsta máta og háskaleg, svo sem ekki þarf að eyða orðum að. Ef sá háttur er upp tekinn að lögbjóða 9 mánaða skólaskyldu á ári á aldrinum 9–16 ára, gengi löggjafinn í þá átt, sem búast mætti við að hefði áhrif á, að unga fólkið fjarlægðist atvinnulíf þjóðarinnar meira en gert hefur verið á undanförnum árum. Þarna hygg ég, að sé stefnt í öfuga átt, auk þess að í sumum byggðarlögum, bæði til sjávar og sveita, er það til mjög mikils óhagræðis fyrir atvinnulíf þessara byggðarlaga, ef unglingar eru bundnir í skóla 9 mánuði ársins.

Ég vil taka undir það í þessu sambandi, sem fram kom í ræðu hv. 3. landsk. og raunar einnig í ræðu hv. 5. þm. Reykv., hver nauðsyn er á því að hefja til meiri vegs og virðingar en nú er í þjóðfélaginu verkmenntun og störf á sviði verklegra efna. Þar á ég bæði við iðnfræðslu og nám, sem bundið er öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar. Það hefur komið fram hjá fólki, sem er t. d. í iðnnámi, að því finnst eins og aðrir námshópar liti niður á þá, sem velja sér þessar námsbrautir. Slíkt er algerlega óviðunandi ástand. Alþ. þarf með öllum ráðum að koma til liðs við þá hugsun, sem iðnnemar og aðrir nemendur í verklegum greinum hafa, að hrinda þurfi þessu ástandi og vinna að því, að iðnnám og önnur verkmenntun njóti a. m. k. til jafns við aðrar námsbrautir virðingar í þjóðfélaginu. Ég hygg, að ef svo fer, að Alþ. samþykki nú lög, sem vinna gegn því, að unga fólkið sé tengt atvinnuháttum þjóðarinnar í sama mæli og það þó er í dag, þá sé þar gengið í öfuga átt. Þar er enn ein orsökin til þess, að ég er andvígur því, að árlegur skólatími sé lengdur frá því sem nú er, og er hann þó ærinn fyrir.

Ég skal ekki fara út í mörg fleiri atriði, sem þessu eru samfara, eða rökstyðja þessa skoðun mína miklu nánar um langa skólaskyldu og langan skólatíma. Þess gerist ekki þörf að þessu sinni og næg tækifæri til þess siðar, ef ástæða þykir til. En út af því, sem getið er um í grg. með þessu frv., að við Íslendingar megum ekki verða eftirbátar annarra nágrannaþjóða í því að halda uppi menntun þjóðarinnar, vil ég aðeins minnast á það, að ég hef í höndum úrklippur úr norsku dagblaði, þar sem fimm námsstjórar norskir ræða þau vandamál, sem af hinni löngu skólaskyldu í Noregi hefur leitt, en 9 ára skólaskylda var lögfest í Noregi á árinu 1969. Einnig er sagt, að Danir vinni nú að nýrri grunnskólalöggjöf, sem geri ráð fyrir 9 eða jafnvel 10 ára skólaskyldu. Mér þykir rétt að tilgreina hér nokkrar setningar úr áliti þessara 5 norsku skólafrömuða, vegna þess að það hefur harla lítið horið á því í umr. um þessi mál hér á landi, að vitnað hafi verið til þess, að Norðurlandaþjóðirnar og þá fyrst og fremst Norðmenn hafi fundið, að við einhver vandamál væri að stríða samfara þessari löngu skólaskyldu. Þessir 5 námsstjórar rituðu grein í síðasta tölublað Norsk skoleblad og láta þar í ljós þá skoðun, að koma eigi á fót náinni samvinnu milli athafnalífs og skóla, það eigi að gefa nemendum á 9. skólaári kost á að velja á milli vinnunnar og skólans segja þessir 5 námsstjórar, og þeir leggja til, að komið verði á fót sérstakri stofnun, sem komi á nánum tengslum milli skóla, heimila og athafnalífs. Enn fremur er í þessari grein því haldið fram, að í mörgum tilfellum sé það sóun á fjármunum, kröftum og tíma að þvinga hinni hefðbundnu skólagöngu upp á unglinga, sem alls ekki óska eftir slíkum afskiptum hins opinbera, þannig séum við að vinna að því að eyðileggja þessa einstaklinga. Hluti af 15–16 ára unglingum á að fá að velja um aðra kosti en okkar venjulegu skólagöngu, þeir eiga kröfu á því. Við vitum, að hluti af nemendum tekur skólagönguna sem refsingu, fullyrða þessir 5 norsku námsstjórar.

Enn segir í útdrætti úr þessari blaðagrein, að eftir gagnrýnina um skólann leggi þessir 5 námsstjórar til, að leitað verði nýrra leiða. Nemendur á 9. skólaári eiga að fá tækifæri til að vinna í stað þess að ganga í skólann. Samtímis verður fullorðinsfræðsla að þróast þannig, að þeir, sem kjósa að vinna, missi ekki sambandið við skólann. Þeir verða að fá tækifæri til þess að halda menntun sinni áfram, þegar löngun og þörf krefst þess. Látum skólann fá að vera með í að bera ábyrðina af hinum ungu, skrifa námsstjórarnir. Skiptið ábyrgðinni í meiri mæli með heimilum og athafnalífinu. Athafnalífið verður að fá sem verkefni að skapa hæfilegan starfsgrundvöll fyrir unglinga á 15–16 ára aldri.

Í þessum tilvitnuðu orðum í grein þessara forsvarsmanna skólamála í Noregi kemur í ljós, eins og hér hefur stundum verið hent á, að hluti nemenda á 15–16 ára aldri á naumast erindi í skóla á því aldursstigi. Svo kann að fara, ef þeim er gefið færi á því að sinna öðrum þroskandi störfum um ákveðið tímabil, að þeir kjósi að hefja nám að nýju og afla sér þekkingar, sem skólarnir geta veitt, þegar þeir hafa sinnt öðrum störfum um takmarkaðan tíma. Þessu þarf að sinna betur en áætlað er að gera með þessu frv. Það þarf að gefa því gaum, að enda þótt fólk hverfi út úr námi og falli út úr skólakerfinu á einhverjum stigum þess, þá séu því brautirnar opnar, þegar hugur þeirra stendur til að sækja sérskólanám. Og markmiðið með því að gera fræðsluskylduna virka í raun er það, að námsbrautir séu öllum opnar, án þess að þvingunum sé beitt lengur en góðu hófi gegnir, til þess að allir sæki skólavist. Höfuðáherslu ber að leggja á, að hver unglingur geti sótt sér nám og fræðslu í skóla við sitt hæfi og hlotið þá menntun, sem hugur hans stendur til.

Í hinum tilvitnuðu orðum hinna norsku skólamanna er lagt til, að komið sé á fót sérstakri stofnun, sem hafi með það að gera að efla tengsl skóla, heimila og athafnalífs, og að fá verði atvinnuvegunum það verkefni í hendur að tryggja atvinnu fyrir unglinga á 15–16 ára aldri. Ég hygg, að betra sé að fara hægar í sakir og flana ekki að því að lengja skólagönguna allt upp í 16 ára aldur og allt upp í 9 mánuði á ári heldur en að þurfa svo, ef farið væri að því, sem hinir norsku skólamenn minnast hér á, að setja á fót sérstaka stofnun eftir 2–3 ár til þess að vinna gegn þeim ákvæðum, sem þarna væri búið að lögfesta.

Svo virðist sem í menntmrn. sé ærið starfslið og kostnaður við það starfslið vex nokkuð hraðfara, enda þótt þar verði ekki komið á fót nýrri og sérstakri stofnun til þess að sinna þessu verkefni, sem, ef dæma má af hugleiðingum Norðmanna um þessi efni, kæmu væntanlega fram kröfur um að að nokkrum árum liðnum, yrði hin langa skólaskylda hér tekin upp.

Ég vildi láta þessi atriði koma fram um þá reynslu, sem a. m. k. hluti norskra skólamanna telur sig hafa orðið fyrir í sambandi við löggjöf, sem ég hygg, að þetta frv. sé að verulegu leyti sniðið eftir, vegna þess að því er einatt haldið fram, að við Íslendingar megum ekki verða eftirbátar annarra þjóða í þessari grein eða annarri. Það er hyggilegt að vega og meta þá reynslu, sem fengist hefur af nýbreytni hjá öðrum þjóðum, bæði á sviði skólamála og annarra efna, og taka það upp, sem hefur sýnt sig, að vel hentar og getur hentað vel við íslenskar aðstæður.

Ég gagnrýndi það nokkuð hér í fyrra, hve ákaflega lausleg grein væri gerð fyrir þeim kostnaðarauka, sem ætlað væri, að stafaði af löggildingu þessa frv., ef af yrði. Ég sé, að enn er sama talan tilgreind um þann kostnaðarauka, sem ætlað er, að verði í rekstri skólakerfisins, ef þessi frv. verða að lögum, en það eru tæplega 290 millj. kr. Ég lít svo á, að a. m. k. fullar líkur séu til, að þarna sé mjög vægilega í áætlanir farið, og hefði verið ekki einasta æskilegt, heldur og skylt að reyna að gera nánari grein fyrir því hér á hv. Alþ., hver kostnaður hlytist af samþykkt þessara frv. nú, þegar þau eru lögð fram hér í þriðja sinn. Þó að þessi tala sé nefnd í sambandi við rekstrarkostnað skóla, er engin tilraun gerð til þess að leggja hér fram neinar áætlanir um stofnkostnað, sem af því mundi leiða að lengja skólaskylduna um eitt ár og skólaárið upp í 9 mánuði.

Ég tel, að nauðsynlegt sé að herða róðurinn í sambandi við uppbyggingu skólamannvirkja, því að þrátt fyrir það að fræðslulögin frá 1946 séu svo gömul sem raun her vitni, skortir mjög á, að þau séu framkvæmd í sumum skólahverfum landsins, og er í því fólgið mikið misrétti, misrétti, sem að mestu stafar af því, að ríki og að hluta sveitarfélög hafa ekki komið í framkvæmd, eftir því sem þörf er á að koma byggingu skólamannvirkja áfram. Út þessu er nauðsynlegt að bæta og til þess þarf fjármagn. Það fjármagn er ábyggilega svo mikið, að þröngt verður fyrir dyrum að bæta við þeim kostnaðarauka, sem felst í þeirri skipulagshreytingu, sem þetta lagafrv. felur í sér. Ég lít svo á, að það hefði verið skyldara og nauðsynlegra að búa svo um hnúta, að unnt hefði verið að framfylgja hinum rúmlega aldarfjórðungs gömlu lögum, sem eru i gildi í dag, og haga því þannig, að jafnrétti gæti gilt til náms og því hamlaði ekki, að framkvæmdir við skólamannvirki væru látnar sitja á hakanum.

Hv. 3. landsk. gerði nokkuð grein fyrir þeirri skoðun sinni, að þetta frv. væri flókið og það væru í því óþarfar gr., sem mætti gjarnan fella í reglugerð. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að frv. sé flókið að uppbyggingu, og skal aðeins nefna einn þátt þess, en það er veigamikill þáttur, er varðar uppbyggingu stjórnkerfisins í skólamálum allt frá grunni til hæstv. menntmrh. Ég fæ ekki betur séð en þarna séu níu þrep frá nemandanum og til ráðh. Í þeirri uppbyggingu nefnda og ráða og embætta, sem upp er sett með þessu frv., og skal ég reyna að telja þau upp. Má vel vera, að mér hafi skotist yfir nokkur, því að eins og ég sagði er frv. það flókið, að það þarf vandlegan lestur til þess að hlaupa ekki yfir eitthvað af þeim atriðum, sem þar koma fram.

Það er í fyrsta lagi nemendaráð, síðan kennararáð, foreldrafélög, skólanefnd, það er fræðsluráð, það er fræðslustjóri, það er grunnskólaráð, það er samstarfsnefnd rn. og Sambands ísl. sveitarfélaga, það er menntmrn. og það er menntmrh. Þessi ráð hafa svo aftur sínar stjórnir, sinn formann, og er það allt ærið kerfi. Til þess að reyna að glöggva sig á því, hvernig þetta kerfi vinnur, má t. d. taka það, hvaða aðferð er viðhöfð, ef kennarastaða losnar við tiltekinn skóla. Þá hér í fyrsta lagi skólanefnd að tilkynna fræðslustjóra það tafarlaust, sbr. 33. gr. Fræðslustjóri sendir tilkynningu til menntmrn., sem auglýsir stöðuna. Skólanefnd veitir viðtöku umsóknum um skólastjóra- og kennarastöður, skólanefnd sendir fræðslustjóra till. sínar og umsagnir. Skylt er skólanefnd að leita álits skólastjóra um umsækjendur, ef velja á kennara, en fræðslustjóra, ef velja skal skólastjóra. Verði ágreiningur um umsækjendur milli skólastjóra og skólanefndar, gerir hvor aðili um sig till. til fræðslustjóra. Að þessu loknu sendir fræðslustjóri till. og umsagnir um stöðuveitingar til menntmrn. ásamt umsögn sinni. Eftir allar þessar umsagnir og eftir að gengið hefur verið milli allra þessara aðila, tekur menntmrn. ákvörðun og setur eða skipar kennara eða skólastjóra i tiltekna stöðu.

Enda þótt því sé haldið á lofti, að með þessu frv. sé stefnt mjög í þá átt að færa valdsvið eða ákvarðanir um tiltekin efni út á landsbyggðina, er þar að mínum dómi harla skammt gengið og jafnvel i þveröfuga átt, eins og hv. 5. þm. Reykv. gerði grein fyrir. Þess í stað er byggt upp kerfi, sem er svo flókið, að það hlýtur að reynast torvelt í framkvæmd og lengja a. m. k. mjög þá göngu, sem þarf að fara til þess að fá fram ákvörðun í tilteknum atriðum, eins og ég þegar hef nefnt, t. d. um skipun eða setningu kennara og skólastjóra. Á því hefur margsinnis verið vakin athygli, hve stjórnkerfið íslenska væri orðið flókið og hlæði utan á sig, enda þótt aldrei hafi verið starfað svo ötullega að því að bæta þar við og útbreiða ríkisbáknið, sem kallað er, eins og nú á síðustu tveim árum eða í valdatíð núv. hæstv. ríkisstj., en ég lít svo á, að í þessu frv., sé það flækt svo, að það sé algerlega óviðunandi og ætti að takast til gagngerðrar endurskoðunar.

Ef farið væri að þeim till., sem fram komu í ræðu hv. 5. þm. Reykv. og hann lýsti sem till. Sjálfstfl., mætti breyta þarna verulega um og gera þetta kerfi allt einfaldara í sniðum og um leið færa valdsviðið í raun heim í byggðirnar, þar sem fólkið er. Það getur þá sjálft með milligöngu þeirra fulltrúa, sem því standa næst, haft bein áhrif á framkvæmd þessara mála. Ég vil aðeins taka það fram, að í sambandi við stóraukningu á verkefnum sveitarfélaga i landinu og þar með þörf á auknum tekjustofnum þeim til handa tel ég, að a. m. k. fullar líkur bendi til. að þurfi að efla Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að koma til móts við í ríkari mæli en nú er gert þann aðstöðumun, sem ríkir á milli einstakra sveitarfélaga á því sviði að afla sér tekna, og gildir raunar nokkuð sama, hvaða tekjustofnar þeim yrðu fengnir. Það má vænta þess, að aðstöðumunur þeirra sé slíkur, að þörf sé á, að Jöfnunarsjóðurinn verði efldur.

Þetta vildi ég láta koma fram í sambandi við þær till., sem við sjálfstæðismenn tölum oft um í sambandi við þessi mál.

Að lokum læt ég þá ósk í ljós, að ekki verði svo hrapað að afgreiðslu þessa frv., að það verði ekki athugað af fullri alvöru, og að menn láti ekki stjórnast af því, að t. d. nágrannar okkar á Norðurlöndum hafi stefnt í þessa átt og tekið í lög hjá sér langa skólaskyldu. Við skulum einnig hafa hliðsjón af þeim annmörkum, sem þegar hafa komið í ljós þar við framkvæmd slíkra laga og hætt er við, að mundu einnig láta fljótt á sér bera hér hjá okkur.