11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þremur öðrum þm., þeim hv. 7. þm. Reykv., hv. 3. landsk. þm. og hv. 1. þm. Sunnl., að flytja hér frv. á þskj 409 um breyt. á l. nr. 4 7. febr. 1973, um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey. Grg. með frv. er stutt, og satt að segja tel ég málið vera svo einfalt, að ekki þurfi heldur um það langa framsöguræðu.

Málið snýst einfaldlega um það, hvort aðflutningsgjöld og söluskattur af hinum svonefndu Viðlagasjóðshúsum skuli renna til ríkissjóðs eða látin ganga til Viðlagasjóðs.

Á fundi Norðurlandaráðs, sem haldinn var í Osló á s.l. vetri, samþykktu fulltrúar hinna Norðurlandanna, þ.e. Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands, að leggja fram úr ríkissjóðum landa sinna samtals 100 millj. danskra kr. vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum. Í lauslegri þýðingu hljóðar upphaf 2. mgr. umræddrar samþykktar Norðurlandaráðs svo, með leyfi forseta:

„Norðurlandaráð lætur í ljós samúð með Íslendingum í þessari erfiðu aðstöðu. Hin Norðurlöndin telja sér skylt að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til að vinna með Íslendingum við að draga úr áhrifum náttúruhamfaranna og endurbyggja það, sem eyðilagst hefur.“

Ég undirstrika, að framlag hinna Norðurlandanna er látið í té, eins og þar segir, til að „draga úr áhrifum náttúruhamfaranna og endurbyggja það, sem eyðilagst hefur“ í eldgosinu í Vestmannaeyjum. Þannig hljóðaði samþykkt Norðurlandaráðs varðandi þetta atriði, og á þessum forsendum hefur bæði hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, á fundum ráðsins þakkað þetta rausnarlega framlag og réttilega undirstrikað það vinarþel og þá útréttu bróðurhönd, sem þessi samþykkt Norðurlandaráðs bar vott um. Og á þessum forsendum veittu Íslendingar framlaginu móttöku. Fram hjá því verður ekki gengið.

Stjórn Viðlagasjóðs, sem falið var að veita fénu móttöku, ræddi það að sjálfsögðu á fundum sínum, hvernig fénu yrði best ráðstafað innan ramma og í samræmi við yfirlýsingar Norðurlandaráðs. Varð stjórn sjóðsins um það sammála, að framlaginu yrði best varið með því að kaupa frá Norðurlöndunum tilbúin verksmiðjuframleidd hús til þess að ráða á sem skjótastan hátt fram úr því vandamáli, sem við blasti, er um 1350 fjölskyldur í Vestmannaeyjum urðu í einu vetfangi húsnæðislausar, er eldgosið hófst á Heimaey, og draga þannig úr áhrifum náttúruhamfaranna, eins og segir í samþykkt Norðurlandaráðs, og nota afganginn, ef einhver yrði, til uppbyggingar í Eyjum, þegar byggð hæfist þar aftur.

Þegar mál þessi voru rædd í stjórn Viðlagasjóðs, kom oftar en einu sinni fram sú spurning, hvort ríkissjóður mundi innheimta aðflutningsgjöld og söluskatt af hinum innfluttu húsum. Bæði ég og fleiri í stjórninni töldum og héldum því ákveðið fram, að ekki kæmi til mála að innheimta þessi gjöld af húsunum, þar sem þau væru keypt fyrir gjafafé Norðurlandanna, heldur rynni hugsanlegur ágóði af sölu húsanna, þegar til kæmi, til Viðlagasjóðs sem auknar tekjur. Aðrir stjórnarmenn töldu, að eðlilegt væri að innheimta aðflutningsgjöld og söluskatt af húsunum til að skapa ekki fordæmi, en töldu jafnframt, að gjöldin ættu þá að renna til Viðlagasjóðs sem auknar tekjur. Má segja, að fjárhagslega hafi það ekki skipt máli fyrir Viðlagasjóð, hvor leiðin yrði farin. En ég fullyrði og vil undirstrika, að engum stjórnarmeðlimi Viðlagasjóðs datt í hug þá, að hluti af framlagi Norðurlandanna yrði dreginn út úr Viðlagasjóði og yfirfærður til ríkissjóðs sem auknar tekjur og óvæntar tekjur, sem þá leiddu til þess, að ríkissjóður Íslands beinlínis hagnaðist fjárhagslega á eldgosinu í Heimaey, á sama tíma og hin Norðurlöndin greiddu úr ríkissjóðum sínum verulegt framlag til að draga úr áhrifum náttúruhamfaranna og til að endurbyggja það, sem eyðilagst hefur, sem er grundvöllurinn fyrir framlagi Norðurlandanna, sem látinn var í té í sambandi við jarðeldana á Heimaey, eins og ég hef áður bent á. Satt að segja verður að telja það fjarstæðukennt og ekki sæmandi íslensku þjóðinni að láta slíkt benda sig.

Í 6. gr. fjárl. er ríkisstj. veitt heimild til að nota aðflutningsgjöld og söluskatt af Viðlagasjóðshúsunum til hafnarframkvæmda í Grindavíkurhöfn, í Hornafirði og í Þorlákshöfn. Ég vil mjög undirstrika, að hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða, sem ríkisstj. þarf auðvitað ekki að nota og mundi að sjálfsögðu ekki nota, ef Alþingi léti nú í ljós vilja sinn, að féð yrði frekar notað í samræmi við yfirlýstan vilja Norðurlandaráðs. Afsökun hæstv. fjmrh, fyrir því að umrædd heimild var tekin inn í 6. gr. fjárl., var sú, að hafnarframkvæmdir á þeim stöðum, sem þar eru tilgreindar, þ.e. Grindavík, Hornafjörður og Þorlákshöfn, mætti heimfæra undir aðstoð við Vestmanneyinga. Ég tel, að hér sé um grundvallarmisskilning að ræða. Bátafloti Vestmanneyinga er sem betur fer allur kominn heim og gerður út þaðan, frá heimahöfn sinni, og má í rauninni alveg snúa dæminu við, því að staðreynd er fyrir hendi um það, að Vestmannaeyjar eru hæsta löndunarstöð í sambandi við loðnulöndun nú í vetur, og hafa bátar bæði frá Grindavík, Hornafirði og Þorlákshöfn að sjálfsögðu notað löndunaraðstöðuna í Eyjum jafnt og aðrir landsmenn, en Vestmanneyingar hafa aftur á móti ekkert eða sáralítið þurft að nota þessar hafnir. Það fær því ekki með nokkru móti staðist, að nokkur rök séu fyrir því að nota hluta af Norðurlandaframlagi til hafnarframkvæmda á umræddum stöðum. Þessar hafnir verður auðvitað að fjármagna eftir venjulegum leiðum. Segja má þó, að bætt hafnaskilyrði í Þorlákshöfn komi Vestmanneyingum til góða í sambandi við samgöngumál þeirra, og væri því ekki óeðlilegt að mínum dómi, ef fénu verður ráðstafað eins og lagt er til í frv., að Viðlagasjóður legði fram sem lánsfé hluta af kostnaði við að byggja sérstöðu í Þorlákshöfn sem afgreiðslu og löndunarstöð fyrir væntanlegt Vestmannaeyjaskip. Slíkt væri beint í þágu Vestmanneyinga og því í samræmi við óskir Norðurlandanna um ráðstöfun á framlagi þeirra.

Í sambandi við ráðstöfun á umræddu fé, þ.e. aðflutningsgjöldum og söluskattinum af hinum innfluttu húsum, ef það verður látið renna til Viðlagasjóðs, tel ég eðlilegast, að stjórn sjóðsins meti, á hvern hátt það kæmi best að notum við uppbygginguna í Vestmannaeyjum. Þar er sannarlega margt, sem til greina kemur og að kallar, og alveg víst að uppbyggingin í Eyjum útheimtir mikið fjármagn, bæði í sambandi við byggingu íbúðarhúsa og endurbyggingu þeirra bæjarstofnana, sem forgörðum fóru í eldgosinu.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, undirstrika það, sem ég held, að flestum ætti þó að vera ljóst, að þrátt fyrir þær bætur, sem reglugerð Viðlagasjóðs heimilar, hafa Vestmanneyingar vegna eldgossins orðið fyrir stórfelldu fjárhagslegu tjóni, sem þeir verða sjálfir að bera. Er þar um að ræða hæði bæjarfélagið sjálft og einstaka íbúa þess. Ég vil í þessu sambandi benda á, að í eldgosinu fóru forgörðum um 400 íbúðarhús með sennilega um 450 íbúðum samtals. Sárafáir af þeim, sem þessar íbúðir áttu, voru með nokkrar hugleiðingar um að skipta um húsnæði og ráðast í nýbyggingu. Húseignir sínar fengu menn bættar, eins og kunnugt er, með brunabótamati eins og það var hinn 15. okt. s.l. Nú standa þeir aðilar, sem misst hafa hús sín og áfram ætla að búa í Eyjum, frammi fyrir þeim vanda, að þeir eru neyddir til að hefjast handa um íbúðarbyggingu á ný, margir hverjir komnir um og yfir miðjan aldur, og verða í því sambandi að taka á sig vegna verðhækkana fjárhagskvaðir að nýju, sem nema, að ég hygg, frá 11/2 millj. til 2 millj. kr. á hvert íbúðarhús. En þó hefðu ábyggilega flestir kosið að búa áfram í sínum eldri húsum. En hér er aðeins um að ræða hluta af því beina tjóni, sem margir hverjir urðu fyrir, og er þá ekki reiknað með fjárhagstjóni bæjarfélagsins, sem án efa kemur til með að nema mörgum hundruðum millj. kr. Ég held, að það sé ekkert of í lagt, þó að það beina tjón, sem Vestmanneyingar verða fyrir af völdum eldgossins og ekki verður bætt samkv. ákvæðum reglugerðarinnar um Viðlagasjóð, ef túlka á hana eins og meiri hl. þeirrar stjórnar gerir, verði 1–2 milljaðar kr., en þó sennilega nær 2 milljörðum. Hér er vissulega um mjög tilfinnanlegt fjárhagslegt tjón að ræða fyrir ekki stærri samfélag, og má benda á, að þetta er sennilega álíka há upphæð og jafnað verður niður í útsvörum á þessum stað á næstu 10–15 árum samtals.

Ég vil að gefnu tilefni, herra forseti, undirstrika mjög það, sem ég hef sagt hér um hið beina fjárhagstjón Vestmanneyinga, vegna þess að maður hefur ekki komist hjá að heyra það, að margir hafa ætlað, að það væri allt annað og miklu minna en það raunverulega er. Og því miður fer svo, ef uppbygging dregst eitthvað, þá verður tjónið enn þá meira en maður getur séð fram á, að það verði nú í dag. Ég tel því full rök fyrir því, að það væri mjög misráðið af hv. Alþ., ef það ætlar að draga fé út úr Viðlagasjóði um 1/2 millj. kr. og yfirfæra það til ríkissjóðs til hafnarframkvæmda annars staðar á landinu. Ég tel, að Viðlagasjóður eigi að halda öllum sínum tekjum, bæði þessum tekjum og öðrum, og féð eigi eftir mati stjórnar Viðlagasjóðs að nota til uppbyggingar í Eyjum, bæði í sambandi við uppbyggingu einstaklinga og eins bæjarfélagsins í heild.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.