11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég átti fyrir hönd míns flokks sæti í þeirri n., sem undirbjó frv., sem nú er orðið að l., um framlengingu Viðlagasjóðsgjaldsins. Í sambandi við þetta mál tel ég nauðsynlegt að minna á, hverjar voru frumtill. hæstv. ríkisstj. í því máli. Þær voru um það, að algerlega óhjákvæmilegt væri, — að bráðnauðsynlegt væri að framlengja tveggja stiga hækkun söluskattsins í þágu Viðlagasjóðs. Á því var hamrað af hálfu fulltrúa stjórnarflokkanna í þessari n., að Viðlagasjóði dyggði ekkert minna en fá framlengingu á tveggja söluskattsstiga gjaldi eða tekjum af tveim söluskattsstigum. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna ásamt Bjarna Guðnasyni, formanni Frjálslynda flokksins, lýstu því yfir, að þeir mundu ekki sætta sig við framlengingu söluskattsins um 2 stig. Um skeið leit þannig út, að þessi undirbúningsnefnd mundi klofna og það mundu koma fram tvö frv. um málefni Viðlagasjóðs, annað frá fulltrúum stjórnarflokkanna um tvö söluskattsstig sem tekjustofn handa Viðlagasjóði og hitt frá fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna ásamt Bjarna Guðnasyni um eitt stig handa Viðlagasjóði. Sem betur fer fór málið ekki þannig. Það hefði verið til leiðinda, það hefði verið til vansa, ef sú samstaða, sem ríkti á Alþ. í fyrra og hefur ríkt allar götur síðan um málefni Viðlagasjóðs og Vestmanneyinga, hefði rofnað þarna. En samstaðan hélst, því að stjórnarflokkarnir létu undan og játuðu, að fjárþörfin væri ekki eins mikil og þeir hefðu í fyrstu talið. A.m.k. væri óvissan um fjárþörf Viðlagasjóðs svo mikil, að það væri verjandi að láta við það sitja að tryggja Viðlagasjóði aðeins eitt söluskattsstig í bráð a.m.k.

Meðal þeirra raka, sem við andstæðingar tveggja söluskattsstiga til handa Viðlagasjóði færðum fram, var sú, að ríkisstj. vildi ekki reikna með tolltekjum af Viðlagasjóðshúsunum sem tekjustofni fyrir Viðlagasjóð. Þegar við vorum að bollaleggja, var söluskattsstigið metið á 550–600 millj. kr., en væntanlegar tolltekjur af Viðlagasjóðshúsunum um 450–500 millj. kr., svo að hér var ekki mikill munur á, það mætti segja, að í stórum dráttum svöruðu tolltekjurnar til upp undir eins söluskattsstigs. Og þetta voru ein rökin, sem við bárum fram fyrir því, að ekki þyrfti nema eitt stig, því að auðvitað væri eðlilegt, að tekjur af Viðlagasjóðshúsunum væru tekjustofn fyrir Viðlagasjóðinn sjálfan.

En ef það var rétt hjá hæstv. ríkisstj. á sínum tíma, að Viðlagasjóður þyrfti í raun og veru tvö stig, ef hún kynni enn að trúa á þennan málflutning sinn, en hafa aðeins látið undan og sætt sig við eitt stig til að stofna ekki til klofnings um málið, þá ætti ríkisstj. auðvitað að taka því fegins hendi, að nú yrði með samþykkt þessa frv. tekin ákvörðun um, að tolltekjur af húsunum rynnu í Viðlagasjóð. Ef hún beitir sér gegn því, eins og mér virtist hæstv. fjmrh. gera í ræðu sinni áðan, þá er það frekari undirstrikun þess, að ríkisstj. hafði rangt fyrir sér í frumtill. sínum varðandi Viðlagasjóðinn. Þá ætlaði hún m.ö.o. að nota málefni Viðlagasjóðs til þess að leggja óþarfar byrðar á landsmenn. Hún hefur e.t.v. ætlað sér, þó að gert hafi verið ráð fyrir því, að hugsanlegum afgangi yrði ráðstafað með samþykki Alþingis, að láta vesælan ríkissjóð njóta góðs af því, að óþarflega mikið væri innheimt í Viðlagasjóðinn. En auðsjáanlega er annað hvort rangt. Annað hvort er rangt, að Viðlagasjóður hafi þurft tvö stig á sínum tíma, eða hitt, að standa gegn því, að þetta frv. verði samþ. og Viðlagasjóður njóti tollteknanna af hinum innfluttu húsum. Ég vísa til þess, sem 1. flm. frv. sagði um það efni, að auðvitað væri fullkomlega óeðlilegt að nota tolltekjur af húsum, sem Vestmanneyingum eru gefin vegna náttúruhamfaranna, í einhverju öðru skyni en beinlínis í þágu Viðlagasjóðs, þ.e. til beinna þarfa Vestmanneyinga sjálfra. Og það var vægast sagt óeðlilegt, raunar alveg óheimilt af ríkisstj., að taka ákvörðun um það á sínum tíma, — hún gerði það í því formi, að hún aflaði sér heimildar í fjárl., — að láta þessar tolltekjur ganga til einhvers annars en þarfa Viðlagasjóðs, þ.e.a.s. til þess að fullnægja beinni uppbyggingu í Vestmannaeyjum sjálfum. Þessi afstaða ríkisstj. á sínum tíma og ákvörðun hennar um heimildaröflunina var í hæsta máta óeðlileg, henni verður að breyta. Henni er auðvitað hægt að breyta með setningu nýrra laga, sem kveða beinlínis á um, að tolltekjurnar skuli ganga í Viðlagasjóð.

Alþfl. styður þetta frv. Sjálfstfl. styður það líka. Og Bjarni Guðnason hefur lýst því yfir, að hann muni styðja það, þannig að frv. hefur augljóslega 20 atkv. hér í þessari hv. d. Úrlög frv. eru því undir því komin, hvort einhver af stuðningsmönnum ríkisstj. ljær því fylgi eða ekki. Og þá hlýtur athyglin sérstaklega að beinast að afstöðu þm. þess kjördæmis, sem Vestmannaeyjar eru í, þ.e.a.s. afstöðu þm. Sunnl. og þá ekki sízt þeirra, sem sjálfir eru Vestmanneyingar. Það hefur ekki farið leynt, að ýmsir þeirra þm. Sunnl. hafa látið í ljós, að auðvitað væri eðlilegt, að tolltekjur af húsunum rynnu í Viðlagasjóðinn sjálfan, — auðvitað væri það eðlilegt. En þá vaknar spurningin um, hvort þeir ætla að haga atkv. sínu eftir því, sem þeir sjálfir telja eðlilegt, eða eftir hinu, sem hæstv. fjmrh. biður þá um að gera. Þetta er sú mikla spurning, sem nú hlýtur að brenna á vörum þeirra manna, sem eiga e.t.v. eftir að hlusta á einhverja þessara hv. þm. halda ræðu hér úr þessum ræðustól. Það er m.ö.o. spurningin, hvort þeir fylgi því, sem Vestmanneyingar allir hljóta að telja rétt og eðlilegt, þ.e.a.s. að tolltekjurnar renni í Viðlagasjóð, eða hvort tryggð þeirra við núv. ríkisstj. og þó einkum hæstv. fjmrh. og þau víxlspor, sem hann hefur stigið í þessu máli, verður því yfirsterkari, sem ég þykist vita, að þeir sjálfir persónulega telja eðlilegt og réttlátt. Við bíðum og sjáum hvað setur.