11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það var nú ekki ætlun mín að taka til máls um þetta frv. til l., en ég verð að segja, að ýmislegt, sem hér hefur verið sagt, verkar á mig — vægilega til orða tekið — dálítið einkennilega, svo einkennilega, að ég sé mér ekki annað fært en leggja hér nokkur orð í belg í sambandi við þær umr., sem hafa orðið um frv. þetta.

Mér sýnist, að þær forsendur, sumar hverjar a.m.k., sem frv. byggist á og koma fram í grg., séu fullkomlega rangar. Í grg. segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fullvíst má telja, að enginn ráðamaður Norðurlandaþjóðanna, sem máli þessu lagði lið, hafi látið sér koma til hugar, að allverulegur hluti af framlaginu yrði látinn renna sem tolltekjur eða söluskattur til almennra þarfa ríkissjóðs, sem þá beinlínis hagnaðist fjárhagslega á eldgosinu í Eyjum, þar sem hér er um óvæntar tekjur að ræða, sem áætlað er, að nemi 477 millj.“

Þetta er út af fyrir sig furðulegur samsetningur. Ég veit ekki til þess, og það hefur þá algerlega farið fram hjá mér, ef ætlunin er af hálfu hæstv. ríkisstj. eða meiri hl. Alþ. að skerða það 100 millj. danskra kr. framlag, sem á að ganga til Viðlagasjóðs, um einn eyri. Það eru alveg ný tíðindi fyrir mig, ef það á að gera það. Ég veit ekki betur en þessar hundrað millj. danskra kr. gangi til Viðlagasjóðs. Hér er tvennu óskyldu ruglað saman. Það er talað um, að tolltekjur og söluskattstekjur af þeim húsum, sem innflutt eru frá Norðurlöndum og eru keypt fyrir hluta af þessu framlagi, eigi að taka í ríkissjóð, m.a. til þess að standa undir ríkissjóðsframlagi vegna hafnargerða í Grindavík, í Þorlákshöfn og í Höfn í Hornafirði. En tolltekjurnar af þessum húsum, þegar þau verða seld hér innanlands, eru allt annað en framlag Norðurlandaþjóðanna. Ég hef þá meira en lítið misskilið hlutina, ef það er meiningin að skerða 100 millj. kr. danskra framlagið, sem á að ganga til Viðlagasjóðs, og ef þetta er réttur skilningur minn, þá er málflutningur og raunar sjálft frv. að mínu viti byggt á röngum forsendum.

En það er fleira en þetta sem ég vildi gjarnan víkja örfáum orðum að. Ég hef hlustað á það hér undanfarnar víkur og undanfarna mánuði hjá mörgum hv. þm. og þá ekki síst hv. þm. Bjarna Guðnasyni, 3. landsk. þm., að hér sé allt að fara úr böndunum í okkar þjóðfélagi, vegna þess að framkvæmdir, vöxtur fjárl. og annað í þjóðfélaginu sé að keyra allt á bólakaf. Á vissan hátt er talsvert til í þessu hjá hv. þm. En hv. þm. Bjarni Guðnason er einn af flm. þessa frv., sem þýddi væntanlega í reynd, ef það verður samþ., að þá verði ríkissjóður að afla sér nýrra viðbótartekna til þess að hægt verði að halda áfram hafnarframkvæmdum á þeim þrem stöðum, sem ég nefndi hér áðan. Það er búið að halda tugi af ræðum á vegum stjórnarandstöðunnar um sukkið og skattpíninguna í þjóðfélaginu, og svo eru það þeir sömu menn, sem hafa flutt þessar ræður, sem gerast til þess að flytja frv., sem er til þess fallið, ef samþykkt verður, að auka mjög verulega á skattaálögur og skattheimtu til ríkissjóðs til þess að standa undir þörfum í þjóðfélaginu, sem vissulega eru brýnar. En það er nú einu sinni svo, að við getum ekki framkvæmt allt í einu, Íslendingar, frekar en aðrir.

Ég held, að það hafi verið hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, sem sagði áðan, að stuðningur við þetta frv. væri 100%, bæði hjá Alþfl. og Sjálfstfl. og hv. þm., Bjarna Guðnasyni. Og það, sem á vantaði, væri einasta að fá stuðning þm. stjórnarflokkanna úr Suðurlandskjördæmi, sem sæti ættu í þessari hv. d. Nú skal ég ekki fullyrða, hvort þessi málflutningur Gylfa Þ. Gíslasonar hefur nokkur áhrif á þá þm. En í framhaldi af því langar mig til þess að segja, að ég á eftir að sjá þm. Sjálfstfl. og Alþfl. úr Reykjaneskjördæmi í hv. d. standa að samþykkt frv., sem fyllilega getur teflt í tvísýnu hafnarframkvæmdum m.a. í Grindavík. Ég á eftir að sjá þá greiða því atkv.

Ég ætla ekki að fara miklu nánar út í þetta mál. En ástæðurnar til þess, að ég kvaddi mér hljóðs til að segja þessi örfáu orð, eru þær tvær, að mér virðist í fyrsta lagi, að þær forsendur, sem menn gefa sér fyrir frv.- flutningnum, séu rangar, og í öðru lagi get ég ekki staðist þá freistingu að vekja athygli á þeirri tvöfeldni, sem mér virðist koma fram í málflutningi þeirra, sem einn daginn hamast yfir mikilli skattheimtu ríkissjóðs og óráðsíu á vegum hans, en svo hinn daginn leggja til að samþykkja frv., sem þýðir, að ríkissjóður þarf að fá hundruð millj. kr. í viðbótartekjur til framkvæmda.