01.11.1973
Neðri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

8. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. flutti hér ræðu, sem efnislega er endurtekning á þeirri, sem hann flutti, þegar þetta mál kom til umr. s. l. vetur. Að svo miklu leyti sem þar er um sömu röksemdir að ræða, ætla ég ekki að lengja fund með því að rekja gagnrök mín á ný, heldur vísa til þeirra orðaskipta, sem þá áttu sér stað. En mér virtist gæta hjá hv. þm. tilhneigingar til að sjá draug í hverju horni grunnskólans og bað marga í senn. T. a. m. þegar hann rakti hér hið nífalda stjórnkerfi, er hann taldi vera, þá felldi hann þar inn í samtök ýmissa starfshópa eða aðstandendahópa, sem ekki eru nein þrep í stjórnkerfi, eins og foreldrafélag, nemendaráð eða grunnskólaráð og samstarfsnefnd menntmrn. og sveitarfélaga. Þarna er annars vegar um að ræða sjálfstæða aðila, sem ekki hafa stjórnskipulega stöðu, eins og foreldrafélag, og hins vegar ráðgjafanefndir, sem dagleg úrlausnarefni varða síður en svo, eins og samstarfsnefndina og grunnskólaráðið.

Bæði hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Reykv. vísuðu um afstöðu sína til þessa máls til væntanlegra till. af hálfu Sjálfstfl. um gerbreytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga um skólahald. Ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til að átta mig á þeim till. af þeirri stuttu frásögn, sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv. Þar virðist mér vera um að ræða lítt eða jafnvel ómótaðar hugmyndir, sem ekki er unnt að taka afstöðu til, en munu væntanlega sjá dagsins ljós í meðförum þessa máls. Ég vil þó aðeins henda á það, að til eru bæði kerfin, þar sem skólakerfið er að meginhluta ríkiskerfi, svipað og hér er og er í næstu nágrannalöndum okkar, og hins vegar kerfi, þar sem skólakerfi er alfarið, a. m. k. á hinum lægri stigum skólahalds, á vegum fylkja eða jafnvel smærri eininga. Og áður en menn hverfa að því ráði í okkar smáa þjóðfélagi að búta sundur ábyrgðarhlutverkið til margra aðila, sem búa við misjafna aðstöðu, þá held ég, að menn ættu t. d. að líta til reynslunnar í löndum eins og Vestur-Þýskalandi og Bandaríkjunum, þar sem skólakerfi eru mjög sundurlaus, þar sem uppi eru sífelldar erjur einmitt vegna þess, hve ábyrgðinni er dreift á meginþáttum skólastarfsins.

Hv. 5. þm. Reykv. vildi gera lítið úr því, að valddreifing ætti sér stað frá miðstöð í Reykjavík til landsbyggðarinnar með þeim till., sem gerðar eru í grunnskólafrv., og hélt því fram, að það eitt, að ætlast er til, að menntmrh. skipi fræðslustjóra, geri það að verkum, að valddreifing eigi sér ekki stað með tilkomu hans. Ég vil benda á, að fræðslustjóri verður samkv. þessu frv. tengiliður, bæði háður menntmrn., sem hefur með höndum framkvæmd hinnar mótuðu stefnu, sem löggjöfin markar, og fræðsluráðunum, sem kjörin eru af sveitarstjórnum. Hann er skipaður af ráðh., en starfslið hans á fræðsluskrifstofu er ráðið af fræðsluráði. Og þessi aðstaða, þar sem fræðslustjórinn er bæði háður sveitarstjórnaraðilum og rn., sprettur eðlilega af því, að hann fer með tvenns konar umboð, tvenns konar vald. Hann hefur annars vegar úrskurðarvald í ýmsum framkvæmdaatriðum fyrir hönd beggja þessara umbjóðenda sinna, og hins vegar á hann að annast það, að hin markaða stefna sé framkvæmd eins og til er ætlast.

Ræða hv. 3. landsk. þm. var nokkuð á aðra lund en þeirra tveggja annarra, sem hér tóku til máls. Hann ræddi mun meira um framsetningu á frv., sérstaklega á grunnskólafrv., heldur en um innihald þess. T. d. taldi hann gersamlegan óþarfa ýmis ákvæði, þar væri verið að kveða á um sjálfsagða hluti, t. a. m. í 43. gr. um, að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms, jafnframt því sem skólinn komi til móts við og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroskagetu og áhugasvið nemenda. Ég fellst alls ekki á, að hér sé um óþarfa mælgi að ræða. Hér er einmitt um að ræða ákvæði, sem markar stefnu, sem á að bæta úr einum helsta annmarka skólakerfis okkar, eins og það er í dag. Því miður er það allt of víða í skólum enn, að þar eru allt of lítil skilyrði, of lítið gert að því að sinna þörfum og áhugasviðum hvers einstaks. Það er einmitt eitt meginmarkmið þessa frv. að tryggja, svo sem kostur er, að þar sé ekki gengið að verki eftir einhverri fyrirfram ákveðinni og afmarkaðri skömmtunarstefnu í námsefni og kennsluháttum, heldur sé þar gefið aukið svigrúm til þess að sinna þörfum einstakra nemenda og einstakra nemendahópa.

Hér er tæpast tóm til að víkja að öllum atriðum, sem ástæða væri til, í ræðu hv. 3. landsk. þm. T. d. hélt hann því fram, að skort hefði lögfræðing við samningu frv. Ég mótmæli algerlega því vantrausti, sem þar kom fram á hinn ágæta lögfræðing, Pál Líndal borgarlögmann í Reykjavík. En það, sem mér þótti alvarlegast við ræðu hv. þm., var að hann virðist hafa gersamlega misskilið ýmis meginatriði í því máli, sem til umr. er. T. a. m. hélt hann því fram, að umbætur í skólastofnunum og skólahaldi í dreifbýlinu yrðu líklega til þess að draga bestu nemendurna úr sinni heimabyggð á skrifstofustóla í Reykjavík. Ég sé ekki, hvernig þm. getur haldið því fram í alvöru, að öflugri og fullkomnari skólastofnanir úti í hinum dreifðu byggðum séu líklegri til að draga nemendur heiman frá sér heldur en það ástand, sem nú ríkir, að nemendur verða að leita út fyrir heimabyggð sína til þess að komast á þau skólastig, sem þarna er ætlunin að flytja út um landið. Sama máli gegnir um það, sem hv. þm. sagði um verkmenntun. Ráðið til þess að leggja grundvöll að raunverulegri verkmenntun í hinum almenna skóla er það að koma á fót stærri, öflugri og fullkomnari skólastofnunum en nú eru víðast hvar úti á landsbyggðinni. Það er aldrei unnt að koma við þeim tækjum og því kennaraliði, sem þarf til þess að rækja verkmenntun af nokkurri alvöru, ef skólastofnanirnar eru svo smáar, að þær veita ekki grundvöll fyrir slíkt starf. Sama máli gegnir um umbætur í tækninámi og iðnnámi. Einn meginannmarkinn á því að koma fram umbótum á iðnnáminu, eins og er, er einmitt, að þó nokkur hluti nemendanna kemur í þetta nám án þeirrar almennu fræðslu, sem þeir þurfa sem undirstöðu fyrir sérnámið. Þess vegna er nokkuð af starfi iðnskólanna endurtekning á þeirri kennslu, sem sumir nemendur, sem búið hafa við lengri skólagöngu en aðrir, hafa þegar hlotið. Það, sem skortir m. a. til þess að hefja verknámið til aukins vegs og virðingar, er. að allir nemendur, sem lokið hafa almennu námi, hafi hlotið þá almennu þekkingu, sem þarf til þess, að þeir geti snúið sér beint og alfarið að sérnáminu, að verknáminu. Þessu á að reyna að kippa í lag með grunnskólanum. Hér er í rauninni um það að ræða, hvort hægt er að setja yfirbyggingu, áður en undirstaðan er lögð. Það hefur verið tekið fram og það skal ítrekað hér, að í kjölfar afgreiðslu þessa máls hlýtur að fara endurskoðun á framhaldsnáminu í heild, hverjum og einum þætti þess.

Ég skal svo, herra forseti, ekki lengja þessar umr. meira en orðið er, en vil ítreka ósk mína, að sú n., sem fær málið til meðferðar, viðhafi þann hraða, sem efni standa til, við meðferð málsins.