11.03.1974
Efri deild: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv., sem gerir ráð fyrir minni háttar breytingu á nýlega settum l. varðandi veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni. Það hefur sem sagt komið í ljós, að við afgreiðslu l. fyrr á þessu þingi hafa orðið mistök, sem stafa frá því, að uppdráttur, sem birtur var með þeim till., sem þá lágu fyrir til afgreiðslu, hefur ekki reynst nákvæmlega réttur á einu tilteknu svæði fyrir Norðurlandi, þ.e.a.s. á svæðinu fyrir austan og vestan Grímsey. Það er því nauðsynlegt að koma fram leiðréttingu á þessum mistökum, og vænti ég, að það verði enginn ágreiningur um að koma þessu fram.

Málið hefur þegar hlotið afgreiðslu í hv. Nd., og ég vil mælast til þess, að sú hv. n., sem tekur við málinu hér til athugunar, hv. sjútvn., afgreiði málið fljótlega, og þannig yrði þá hægt að koma fram þessum leiðréttingum á l., sem ég hygg, að allir séu sammála um.

Á meðan l. standa eins og þau eru, er það svo, að réttur til fiskveiðiheimildar í landhelginni er nokkru meiri fyrir erlend skip eða breska togara en fyrir íslenska togara, og var það vitanlega aldrei tilætlunin. Þarf því að leiðrétta þetta hið fyrsta.

Þar sem ég þykist vita, að allir hv. þdm. kannist við þetta mál, sé ég ekki ástæðu til að ræða það frekar. Það er ljóst, að hér hefur orðið um mistök að ræða, þar sem ekki hafði verið tekið með í reikninginn, að tilteknir grunnlínupunktar höfðu verið felldir niður úr reglugerð með ákvörðunum um 50 mílna landhelgi, en voru í gildi hins vegar, meðan 12 mílna landhelgin var í gildi. Fiskveiðiheimildirnar eru hins vegar miðaðar við 12 mílna landhelgina eða þá línu og af þeim ástæðum hafa þessi mistök orðið.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til athugunar.