12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

195. mál, bundnar innistæður í Seðlabanka Íslands

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin og þær upplýsingar, sem komu fram í hans máli. Mér finnst þær upplýsingar a.m.k. þess verðar að hugleiða það aðeins, hve þarna er um háa fjármuni að ræða. Þarna er um að ræða nærri 7 milljarða kr., sem bundið er orðið í Seðlabanka Íslands vegna þessara ákvarðana.

Ég held, að ég muni það rétt, að þegar þetta var gert á sínum tíma, höfðu talsmenn núv. stjórnarflokka æðimargar aths. við þetta fram að færa og gagnrýndu það mjög harkalega, sem ég og tel, að hafi verið réttilega gert. Ég er ekki neinum vafa um það, að eins og þessar upplýsingar bera með sér, þá er þarna um mikla fjármuni að ræða, sem dregnir eru frá landsbyggðinni hingað til þéttbýlissvæðanna.

Ég vil því í framhaldi af þessu spyrja hæstv. ráðh. alla um það, hvort nokkrar hugmyndir séu uppi í hæstv. ríkisstj. um, að þarna verði á breyting í náinni framtíð, hvort þeir hafi hugsað sér nú að breyta þessum ákvæðum, skila aftur, þó ekki nema að hluta væri, til dreifbýlisins þeim fjármunum, sem safnað hefur verið saman í Seðlabankanum frá þessum svæðum á undanförnum árum.

Ég er þeirrar skoðunar, að það mundi a.m.k. vera óhætt og í raun og veru kannske nauðsynlegt að breyta þessu á þann veg að vera ekki að frysta frá þeim svæðum fé í Seðlabanka Íslands, sem eru eftir á í uppbyggingu og þurfa nauðsynlega á þessu fjármagni að halda. Hins vegar tel ég réttlætanlegt í því ástandi, sem nú ríkir í landinu, að þar sem mest spennan er, þ.e. hér á þéttbýlissvæðinu, mætti gjarnan draga úr. En ég vil sem sagt í framhaldi af þessu spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort nokkrar hugmyndir séu uppi um það, að þessum ákvæðum verði breytt.