01.11.1973
Neðri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

8. mál, skólakerfi

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Út af ræðu hæstv. menntamrh. vil ég koma með örfáar aths.

Ein megingagnrýni mín á þetta frv., eins og það liggur fyrir, er sú, hversu mér þykir það of ítarlegt, það sé sums staðar mælgi í frv. og sumt af þessu væri betur komið í reglugerð. Hæstv. menntamrh. benti sérstaklega á eitt dæmi, sem ég hafði tekið, í 43. gr., til þess að sýna, hvað ég færi með rangt mál í þessu efni. Í þessum hluta 43. gr. segir, að þess skuli sérstaklega gætt við setningu námsskrár og skipulagningar námsefnis fyrir grunnskóla, að það skuli vera í samráði við markmið skólans. Sama er í annarri grein, þetta hefði nægt. Síðan kemur: „Að öllum sé nemendum gefin sem jöfnust tækifæri til náms, jafnframt því sem skólinn komi til móts og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroskagetu og áhugasemi nemenda. Þetta stendur meira og minna allt saman í 2. gr. í frv.

Þetta tel ég mælgi. Á mörgum öðrum stöðum mætti stytta þetta og lagfæra og koma í betra horf. Það breytir engu um það, þó að Páll Líndal hafi verið í lokanefndinni eða síðari n. Það hefði þurft að beita þar meiri lögfræðilegum tökum. En nóg um þetta.

Annað, sem ég hygg, að sé vert íhugunar, er það, hversu mér virðist þetta skólafrv. í lausum tengslum við verknám þjóðarinnar, hvort ekki væri unnt að binda það fastar við það. Það með vakti ég sérstaklega máls á því, að hættan væri sú, að flestir nemenda þeirra, sem væru vel fallnir til náms, færu langskólaleiðina, en hið verklega nám þjóðarinnar, hvort sem það er tækninám, iðnnám eða annað nám, sem lýtur að atvinnuvegum þjóðarinnar, yrði þá út undan. Ég hygg, að það megi finna einhverjar leiðir í frv. til að bæta þetta. Ég hygg, að það sé meginatriði, eins og reyndar hv. 5. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, kom inn á, að auka virðingu fyrir verkmenningu og reyna að sporna gegn því, að ofurstreymi nemenda verði á háskólaleiðina, sem lendir meira og minna í skrifstofuhaldinu í Reykjavík. Þetta verður að íhuga. Það er sama, þótt ráðh. vilji komast hjá þessu eða læða því að, að ég fari þarna með rangt mál, þá hygg ég, að svo sé ekki. Þetta er vandamál. Skapa þarf virðingu fyrir verknáminu, auka það, byggja upp skólakerfi verknámsins og tækniskólans. Það er brýnasta verkefnið í skólamálum í dag.

En svo að ég bæti við tveimur atriðum, áður en ég fer frá þessu: Ég tel það dálítið varhugavert að leggja alla ábyrgðina á hendur skólanum. Það virðist ekkert koma fram í frv. um ábyrgð nemandans og ábyrgð foreldranna. Þessi stefna í uppeldismálum, sem núna fer um löndin, að leggja alla ábyrgð á hendur skólanum og nemendurnir séu eitthvað brotagler, sem þurfi að fara afskaplega vel með, megi ekki hasta á, ekki skamma, ekki tala til, — þetta er afskaplega undarleg aðferð í uppeldismálum. Og mér sýnist, að sú grundvallarhugmynd, sem er í frv., spegli þessa vitleysisstefnu í uppeldismálum.

Og í öðru lagi: Yfirbyggingin í þessu er dálítið varhugaverð. Ég skal lesa eina gr. þm. til skemmtunar og ráðh. til lærdóms. Í 8. gr. segir:

„Nú sækir forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn hluta úr skólaári og færir fram knýjandi ástæður. Skal þá leitað umsagnar skólastjóra og skólanefndar, og mæli þeir aðilar samhljóða með umsókninni, getur fræðslustjóri veitt undanþágu, en skólanefnd og skólastjóri skulu fylgjast með því, að barnið stundi nám. “

Hvaða bréfaskriftir fylgja þessu og erfiðleikar? Þarna eru knýjandi ástæður að fá nokkurn tíma leyfi frá skólanum, þá fer allt báknið í gang: Skólastjóri, skólanefnd, fræðslustjóri fylgjast með. Svona hlutir eru náttúrlega ekki til þess að vekja traust á þessu kerfi.