12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

416. mál, landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir þessi svör. Ég vil taka undir það, að það er mjög eðlilegt, að áætlun sem þessi beinist sérstaklega að uppbyggingu þéttbýlisstaðanna. Þó mætti auðvitað líta á ýmsan hátt til sveitanna þarna. Ferðaútvegur er orðið, sem menn bera sér í munn nú, —og þessar sveitir búa yfir sérstakri og einstæðri náttúrufegurð. Fleira mætti hugsa sér.

Ég vil undirstrika það, sem ég sagði reyndar áðan, að það er ýmislegt í þjónustu þjóðfélagsins við þessi héruð, sem mætti bæta. Ég vil benda á, að fólk á þessu svæði bindur alveg sérstakar vonir við þessa áætlunargerð. Hún mun vera þannig til komin, að það var Gísli heitinn Guðmundsson alþm., sem flutti þá þáltill., sem ég vitnaði hér til, en forsaga þess var sú, að fundur var haldinn haustið 1971 á Kópaskeri fyrir forgöngu félagasamtaka þarna, og hann gerði ýmsar áætlanir og m.a., að gera skyldi slíka áætlun fyrir landshlutann. Fólkið fylgist því vissulega með því, hverju fram vindur í þessum efnum.