12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

245. mál, öryggisráðstafanir fyrir farþegaflug

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég sé, að dómsmrh. Keflavíkurflugvallar ætlar að svara þessari spurningu. Enda þótt hún sé stíluð á íslenska flugvelli yfirleitt, skal ég að sjálfsögðu ekkert hafa á móti því, — dómsmrh. eru báðir jafngóðir til þess að svara að þessu leyti.

Fyrir nokkru gerðist það, að maður, sem ekki sagði til sín, tilkynnti í síma á Keflavíkurflugvelli, að sprengja væri í Loftleiðaflugvél, sem þá var að búa sig til flugtaks. Að sjálfsögðu voru í skyndi gerðar viðeigandi ráðstafanir, fólk og varningur var flutt úr flugvélinni og leitað að sprengjum, sem ekki fundust. Í þeirri fregn, sem ég heyrði fyrst af þessum atburði, var þess enn fremur getið, að kallaðir hefðu verið til sprengjusérfræðingar varnarliðsins til að framkvæma sprengjuleitina. Þetta varð í rauninni til þess, að mér datt í hug að leggja fram fsp. um það, hvort íslensk yfirvöld séu ekki þess búin að annast sprengjuleit í farþegaflugvélum, þegar tilefni gefst til.

Ég spyr ekki síst vegna þess, að farþegaflug er orðið mikill atvinnuvegur hér á Íslandi, og við rekum, þar fyrir utan, mikið innanlandsflug, tvö allstór flugfélög á millilandaleiðum og erum eigendur að fleirum.

Í þessu sambandi kom mér einnig til hugar að spyrja um það almennt, hvaða öryggisráðstafanir væru gerðar á íslenskum flugvöllum til verndar farþegaflugvélum gegn hættu á flugvélaráni, ferðum hermdarverkamanna og annars slíks. Ég þarf ekki að útlista fyrir nokkrum manni, hvers konar ástand er í farþegaflugi um allan heim um þessar mundir. Flugvélar virðast vera ótrúlega viðkvæmar og opnar fyrir hvers konar illvirkjum, hvað sem fyrir þeim kann að vaka, og eru það nálega daglegir viðburðir, að stórum hópum farþega sé stofnað í hættu, að ekki sé talað um viðkomandi verðmætum. Það hefur komið í ljós af fréttum, að þessar hættur hafa stöðugt breiðst út um allan heim, og ég tel tvímælalaust, að við séum hér á Íslandi engin undantekning frá þessum hættum.

Ég tel, að það sé ekki æskilegt að ræða mjög ítarlega um einstök atriði varðandi mál sem þetta á opinberum vettvangi. Ég ætla því ekki að fara frekari orðum um það, hvers konar hættur gæti verið um að ræða hér á landi og hvers konar ráðstafanir mætti ætla að hér þyrfti að gera. Ég lýsi því nú þegar yfir, að ég mun ekki ganga á ráðherrann með nánari upplýsingar um einstök atriði, ef honum sýnist svo, svo framarlega sem hann getur fullvissað Alþingi um, að fyrir þessu máli hafi raunverulega verið hugsað og hér séu að jafnaði gerðar einhverjar ráðstafanir, sem gætu orðið flugfarþegum til öryggis, ef til ótíðinda drægi. En til slíkra vandræða þarf ekki nema einn, e.t.v. sjúkan mann.